Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Ísland er land samsteypuríkisstjórna enda hafa kjósendur aldrei veitt stjórnmálaflokki umboð sem dugar til að mynda meirihlutastjórn eins flokks. Samsteypustjórnir tveggja eða fleiri flokka hafa því verið meginreglan. Ein forsenda þess að samstarf tveggja eða fleiri stjórnmálaflokka sé árangursríkt er að traust og trúnaður ríki á milli forystumanna flokkanna en fleira þarf til. Trúnaður og traust þarf einnig að ríkja á milli þingmanna stjórnarflokkanna. Ríkja þarf skilningur á ólíkum skoðunum og þar með umburðarlyndi fyrir því að stjórnarþingmenn haldi á lofti hugmyndafræði sem þeir berjast fyrir.
Það hefur verið misjafnlega erfitt og flókið að mynda meirihlutastjórn eftir þingkosningar. Þetta átti sérstaklega við eftir kosningar í október 2016 og 2017. Eftir fyrri kosningarnar var mynduð skammlíf stjórn, sem sprakk með eftirminnilegum hætti, en eftir síðari kosningarnar tók við samsteypa Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Það var langt í frá auðvelt að ná saman þremur gjörólíkum stjórnarmálaflokkum í ríkisstjórn.
Í málamiðlun felst áskorun
Þegar ljóst var að flokkarnir ætluðu að taka höndum saman árið 2017 skrifaði ég meðal annars:
„Málamiðlun er forsenda þess að hægt sé að mynda ríkisstjórn tveggja eða fleiri flokka. Allir þurfa að gefa eitthvað eftir – sætta sig við að geta ekki uppfyllt öll loforð sem gefin hafa verið. Þeir flokkar sem taka höndum saman í ríkisstjórn þurfa að setja sitt mark á stefnuna og standa um leið vörð um grunnstef hugsjóna sinna, þrátt fyrir málamiðlanir [...] Sanngjarnar málamiðlanir eru forsenda þess að ólíkir stjórnmálaflokkar og pólitískir andstæðingar taki höndum saman, en það er til lítils að hefja samstarf ef trúnaður og traust er ekki fyrir hendi. Þegar og ef fulltrúar andstæðra póla í íslenskum stjórnmálum ákveða að gerast samverkamenn eru þeir að gefa fyrirheit um að takast sameiginlega á við það ófyrirséða – leysa verkefni og vandamál sem alltaf koma upp og allar ríkisstjórnir þurfa að glíma við, með misjöfnum árangri. Flokkssverðin eru slíðruð og vopnahlé samið um hríð.“
Ólíkt hentistefnuflokki, sem tekur því tilboði sem berst, er það áskorun fyrir stjórnmálaflokk sem byggir á skýrri hugmyndafræði að taka þátt í samsteypustjórn. Í nauðsynlegri málamiðlun þarf að halda trúverðugleika gagnvart kjósendum og sannfæra þá um að þrátt fyrir málamiðlun þokist baráttumálin áfram, kannski ekki jafnt hratt og æskilegt er en í rétta átt. Forystumenn samsteypustjórna verða, öðrum fremur, að kunna þá list að miðla málum um leið og þeir sýna stefnufestu.
Fyrir kosningarnar 2017 áttu fáir von á því að Vinstri grænir, Framsókn eða Sjálfstæðismenn tækju höndum saman. Þó var það í raun eini raunhæfi kosturinn til að mynda starfshæfa ríkisstjórn. Margir voru sannfærðir um að ríkisstjórnin myndi ekki tjalda til margra nátta. Þeir höfðu rangt fyrir sér enda vanmátu þeir hversu gott traust og góður trúnaður náðist á milli forystumanna flokkanna þriggja. En það reyndi á þanþol flestra stjórnarþingmanna með einum eða öðrum hætti, ekki síst þess er hér skrifar.
Eðlileg togstreita
Niðurstaða kosninganna í september síðastliðnum gaf stjórnarflokkunum tilefni til að endurnýja samstarfið enda með aukinn meirihluta. Líkt og fjórum árum áður voru ekki í boði aðrir raunhæfir kostir. Ég, eins og allir aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, hef staðið heill að baki ríkisstjórninni án þess að afsala mér rétti til að gagnrýna, berjast fyrir breytingum á stjórnarfrumvörpum eða vinna að framgangi hugsjóna.
Endurnýjun samstarfsins er reist á þeirri trú að samstarfið verði gott og „trúnaður ríki á milli manna innan ríkisstjórnar og þingmenn stjórnarliðsins séu bærilega sáttir við hvernig mál gangi fram,“ svo vitnað sé til orða Davíðs Oddssonar forsætisráðherra í stefnuræðu í október 1997. Þá var samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á sínu öðru kjörtímabili. Trúnaður var forsenda samstarfsins en eins og Davíð benti á, sé eðli máls samkvæmt „togstreita á milli flokkanna um einstök mál“ en „slíkar glímur eru jafnan háðar undir formerkjum þess að ná niðurstöðu sem báðir flokkar geti unað við, en forðast er að setja samstarfsflokki óbilgjörn eða óaðgengileg skilyrði“. Liðsmenn samsteypustjórna þurfa ítrekað að nýta hæfileikann til að koma til móts við ólík sjónarmið án þess að missa sjónar á hugsjónum. Aðeins þannig getur sambýli ólíkra hugsjóna orðið farsælt.
Samstarf andstæðra póla í stjórnmálum hefur í flestu verið árangursríkt. Aðeins liðsmenn ríkisstjórnarinnar taka ákvörðun um hvort svo verði áfram. Engin ríkisstjórn kemst í gegnum kjörtímabil án þess að vindar blási á móti af og til. Í mótvindi reynir á ráðherra og stjórnarliða. Þá reynir á pólitískan karakter stjórnmálamanna – hvort þeir hafa burði til að standa heilir að baki ákvörðunum sem þeir tóku þátt í að taka eða hlaupa undan ábyrgð og reyna að varpa henni á aðra. Slíkir stjórnmálamenn verða yfirleitt ekki annað en léttavigt – marka aldrei spor í söguna – verða í besta falli tilefni fyrir neðanmálsgrein í stjórnmálasögunni. Þeirra verður getið í sömu neðanmálsgrein sem greinir frá þeim sem hæst hrópa með stóryrðum, svívirðingum og dómum um menn og málefni.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. apríl 2022.