Guðrún Hafsteinsdóttir alþingismaður:
Á dögunum lagði ég ásamt öllum þingmönnum Suðurkjördæmis nema Framsóknarflokks fram þingsályktunartillögu um að Garðyrkjuskólinn á Reykjum verði gerður að sjálfseignarstofnun og ráðherra falið að gera þjónustusamning við hann.
Það er nauðsynlegt að fjölga námsleiðum fyrir fólk og efla starfsmenntun með hagnýtu námi sem geta t.d. gagnast fólki sem vill breyta um kúrs á miðri starfsævi. Sjálfstæðir starfsmenntaskólar eru öflugur valkostur fyrir fólk á öllum aldri og atvinnulífinu nauðsynlegir. Nám við Garðyrkjuskólann er nú skilgreint sem starfsmenntanám á framhaldsskólastigi og þar gefst nemendum tækifæri til að afla sér verklegrar færni og þekkingar á mismunandi starfsvettvangi sem tengist garðyrkju.
Það sjá öll sem sækja Garðyrkjuskólann á Reykjum heim að húsakostur þar er í algjörri niðurníðslu og með öllu óboðlegur starfseminni. Sem er sorglegt því skólinn á sér langa og merkilega sögu. Garðyrkjuskólinn á Reykjum hefur nú verið starfrækur í rúm 80 ár en árið 1936 voru samþykkt lög á Alþingi um skólann þar sem staðsetningin á Reykjum var ákveðin. Árið 2005 var Garðyrkjuskólinn á Reykjum sameinaður Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. Sú sameining var umdeild og þannig segir t.d. formaður Félags garðplöntuframleiðenda í afmælisgrein skólans sem birtist í Bændablaðinu hinn 13. desember 2019 að það hafi reynst óheillaspor. Starfsmenntanám og háskólanám fari ekki vel saman og aðvörunarorðum hagsmunaaðila og velunnara skólans þar að lútandi hafi ekki verið sinnt.
Í ársbyrjun 2021 tilkynnti Lilja Alfreðsdóttir, þáv. mennta- og menningarmálaráðherra, ákvörðun sína um að hefja skuli undirbúning að tilfærslu starfsmenntanáms í garðyrkju á Reykjum í Ölfusi undir ábyrgð Fjölbrautaskóla Suðurlands, og þar með frá Landbúnaðarskóla Íslands. Að mínu mati verður það önnur óheillaför enda samlegð með annarri starfsemi Fjölbrautaskóla Suðurlands lítil sem engin. Nýnemar Fjölbrautaskóla Suðurlands eru til að mynda unglingar á aldursbilinu 16-18 ára en mun eldra fólk velur að hefja nám í Garðyrkjuskólanum. Það er því brýnt að standa vörð um slíkt valfrelsi.
Nauðsynlegt er að renna styrkum stoðum undir Garðyrkjuskólann sem sjálfseignarstofnun með þjónustusamningi við ríkið. Garðyrkja nýtur vaxandi hylli á Íslandi og þegar horft er til aðgerða stjórnvalda til að bregðast við loftslagsvandanum skýtur skökku við að húsakostur Garðyrkjuskólans á Reykjum sé í niðurníðslu og fyrirhugað að veikja skólastigið fremur en styrkja. Við megum ekki láta það gerast.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. apríl 2022.