Bætt réttarstaða brotaþola kynferðisafbrota

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra:

Ný­verið lagði ég fyr­ir Alþingi frum­varp til laga um breyt­ingu á lög­um um meðferð saka­mála og lög­um um fulln­ustu refs­inga. Með því er brotaþolum kyn­ferðis­brota veitt meiri aðkoma að saka­mál­um er þá varða og rétt­arstaða fatlaðs fólks og aðstand­enda lát­ins ein­stak­lings við meðferð saka­mála er bætt.

Með frum­varp­inu er meg­in­mark­miðum þeirra um­bóta sem kraf­ist hef­ur verið náð fram. Ekki síst vegna hags­muna brotaþola var sú ákvörðun tek­in að vand­lega íhuguðu máli, að gera brotaþola ekki að aðila máls. Ég hvet alla sem málið snert­ir að kynna sér þau auknu rétt­indi sem breyt­ing­arn­ar fela í sér.

Lagt er til að brotaþoli og rétt­ar­gæslumaður brotaþola fái auk­inn aðgang að gögn­um á rann­sókn­arstigi. Aðgang­ur þeirra verður í aðal­atriðum sá sami og sak­born­ing­ur og verj­andi hans njóta. Tryggður er rétt­ur brotaþola til að vera viðstadd­ur lokað þing­hald eft­ir að hafa gefið skýrslu.

Rétt­ar­gæslumaður fær heim­ild til að leggja spurn­ing­ar milliliðalaust fyr­ir vitni, brotaþola og ákærða við meðferð máls fyr­ir dómi. Hann má spyrja um atriði er varða refsi­kröfu ákæru­valds og einka­rétt­ar­kröfu brotaþola en ekki ein­göngu beina til­mæl­um til dóm­ara um að spurt verði um atriði sem lúta að einka­rétt­ar­kröf­unni. Rétt­ar­gæslu­manni er sömu­leiðis heim­ilt að beina til­mæl­um til lög­reglu um að lagðar verði til­tekn­ar spurn­ing­ar fyr­ir sak­born­ing og vitni.

Brotaþola verður heim­ilt að leggja fram sönn­un­ar­gögn í refsiþætti máls­ins eða til að færa sönn­ur á einka­rétt­ar­kröfu brotaþola á hend­ur ákærða.

Rýmri skil­yrði eru til skip­un­ar rétt­ar­gæslu­manns fyr­ir æðri dómi. Breyt­ing­in styrk­ir brotaþola við það að fylgja því eft­ir að einka­rétt­ar­kröf­ur brotaþola fái efn­is­meðferð fyr­ir dómi, gæt­ir hags­muna hans við málsmeðferð fyr­ir æðri dómi og eyk­ur lík­urn­ar á að mál upp­lýs­ist að fullu.

Rétt er að nefna heim­ild brotaþola til að taka stutt­lega til máls í lok aðalmeðferðar á sama hátt og ákærða og er breyt­ing­in til þess fall­in að stuðla að jafn­ræði á milli ákærða og brotaþola.

Upp­lýs­ingaflæði til brotaþola verður aukið því lög­reglu og ákær­anda ber skylda til að upp­lýsa brotaþola ef sak­born­ing­ur hef­ur verið úr­sk­urðaður í eða lát­inn laus úr gæslu­v­arðhaldi sem og ef dómi í saka­mál­inu sem snert­ir brotaþola hef­ur verið áfrýjað eða sótt um leyfi til þess. Skyld­ur af þessu tagi er nú að finna í fyr­ir­mæl­um rík­is­sak­sókn­ara en rétt þykir að kveða á um þær í lög­um. Lagt er til að Fang­els­is­mála­stofn­un fái laga­heim­ild til að upp­lýsa brotaþola um til­hög­un afplán­un­ar fanga sem brotið hef­ur gegn hon­um.

Ég er sann­færður um að þær breyt­ing­ar á lög­um sem lagðar eru til feli í sér mikla rétt­ar­bót fyr­ir brotaþola kyn­ferðis­brota og vænti þess að góð samstaða ná­ist um málið á Alþingi og það verði af­greitt sem lög á yf­ir­stand­andi þingi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. apríl 2022.