“D-listinn í Árborg stendur fyrir skýra framtíðarsýn í málefnum sveitarfélagsins”
Í garð er genginn sá tími að stjórnmálaflokkar og óháð bæjarmálafélög kynna framboðslista sína í aðdraganda bæjarstjórnarkosninga, laugardaginn 14. maí nk. Búast má við um 5-6 framboðum hér í Sveitarfélaginu Árborg sem vonandi gefur íbúum skýra valmöguleika til þess að velja þann lista og einstaklinga sem þeir treysta best til að stýra sveitarfélaginu næstu árin.
D-listinn í Árborg býður fram lista með öflugu fólki sem hefur víðtæka reynslu af sveitarstjórnarmálum og úr samfélaginu. Lið sem vinnur vel saman og setur sér markmið til að byggja upp sterka innviði í fjölskylduvænu samfélag, sem gengur í takti við atvinnulífið og uppbyggingu svæðisins. Skýr framtíðarsýn þar sem íbúar á öllum aldri geta sótt þjónustu, fengið störf við hæfi og umfram allt að rekstur sveitarfélagsins standi undir þeirri þjónustu sem því ber að veita.
Lausnir sem virka
Með lausnamiðaðri hugsun og ábyrgri fjármálastjórn, þar sem við nýtum tækifærin til að skapa auknar tekjur, tryggja nauðsynlega innviði og draga úr kostnaði, búum við til forsendur til að lækka álögur líkt og fasteignagjöld af íbúðar- og atvinnuhúsnæði sem er hagsmunamál allra íbúa í sveitarfélaginu.
Tækifærin eru sannarlega til staðar og á næstu vikum mun D-listinn í Árborg kynna betur þær áherslur og lausnir sem flokkurinn vill standa fyrir til að tryggja skýra framtíðarsýn fyrir Sveitarfélagið Árborg.
Fyrsti opni fundurinn verður laugardaginn 9. apríl í Risinu, miðbæ Selfoss kl.11:00 en einnig er hægt að fylgjast með á Facebooksíðunni D-listinn í Árborg og á Instagram.
Bragi Bjarnason,
oddviti Sjálfstæðisflokksins í Árborg