Diljá Mist Einarsdóttir, alþingismaður:
Frá því lög voru sett um um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins árið 1954 hefur réttarstaða opinberra starfsmanna gjörbreyst. Á þessum tíma hefur opinberum starfsmönnum sömuleiðis fjölgað jafnt og þétt og undanfarin ár hefur fjölgun opinberra starfa verið gríðarleg. Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru launþegar hjá hinu opinbera rúmlega 60.000 á árinu 2021 eða 33% af heildarfjölda launafólks í landinu. Á undanförnum árum hefur launafólki í opinberum greinum fjölgað mun hraðar en í öðrum greinum og laun opinberra starfsmanna hafa hækkað hraðar en laun á almennum markaði.
Það viðhorf hefur lengst af verið ríkjandi að laun opinberra starfsmanna eigi að vera lægri en þau sem tíðkast á almenna markaðnum þar sem opinberir starfsmenn hafa notið mun betri réttinda en á frjálsum markaði. Réttarstaða opinberra starfsmanna hefur þannig verið styrkt, en á sama tíma hafa kjör þeirra hafa batnað og þeim fjölgað mikið. Einkafyrirtæki bregðast við vaxandi samkeppni með því að draga úr kostnaði við starfsmannahald samhliða því að bæta þjónustu við viðskiptavini. Hið opinbera hefur ekki breytt skipulagi og starfsháttum í sama mæli.
Ríkinu eru skorður settar í starfsmannahaldi sínu með ýmsum sérreglum. Í því skyni að auka sveigjanleika í opinberu starfsmannahaldi og einfalda reglur um starfslok ríkisstarfsmanna, hef ég, ásamt hópi sjálfstæðismanna, lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Breytingarnar miðast að því að fella niður þá skyldu forstöðumanns að áminna starfsmann með formlegum hætti vegna brots hins síðarnefnda á starfsskyldum eða þegar hann hefur ekki staðið undir þeim kröfum sem leiða af starfi hans.
Eftir sem áður verður það almenn krafa að málefnaleg sjónarmið liggi til grundvallar starfslokum og lausn frá embætti, enda tryggja stjórnsýslulög ríkisstarfsmönnum fullnægjandi réttarvernd í starfi. Réttaröryggi opinberra starfsmanna í samskiptum við vinnuveitanda sinn verður sömuleiðis meira en það sem launþegar búa almennt við. Það er því mat okkar að í ljósi breyttra aðstæðna eigi réttarstaða opinberra starfsmanna að færast nokkuð í átt að réttarstöðu starfsmanna einkafyrirtækja.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. apríl 2022.