Í hvað fara allar þessar krónur?
'}}

Óli Björn Kárason, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Gangi fjár­mála­áætl­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar fyr­ir næstu fimm ár eft­ir munu frumút­gjöld rík­is­sjóðs nema alls 5.309.206 millj­ón­um króna – liðlega fimm þúsund og þrjú hundruð millj­örðum króna eða rúm­lega eitt þúsund millj­örðum að meðaltali á ári, á verðlagi yf­ir­stand­andi árs. Fáir hafa til­finn­ingu fyr­ir fjár­hæðum sem þess­um. Þær verða af­stæðar og illskilj­an­leg­ar. En flest­ir átta sig á því að frumút­gjöld á kom­andi fimm árum nema alls um 14,1 millj­ón á hvert manns­barn miðað við mann­fjölda í byrj­un árs­ins.

Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, mælti fyr­ir fjár­mála­áætl­un 2023 til 2027 á þingi í gær. Áætl­un­in bygg­ist á traust­um grunni en ber þess óhjá­kvæmi­lega merki að lands­menn hafa þurft að tak­ast á við heims­far­ald­ur kór­ónu­veirunn­ar. Sterk staða rík­is­sjóðs var nýtt til að verja heim­ili og fyr­ir­tæki en ráðstaf­an­ir í rík­is­fjár­mál­um vegna far­ald­urs­ins nema rúm­lega 280 millj­örðum króna 2020-2022. Samþætt­ar aðgerðir í rík­is­fjár­mál­um og pen­inga­mál­um hafa skilað ár­angri. Staða heim­ila er sterk og fyr­ir­tæk­in hafa náð öfl­ugri viðspyrnu.

Þrátt fyr­ir heims­far­ald­ur­inn nutu lands­menn bættra lífs­kjara en á síðasta kjör­tíma­bili jókst kaup­mátt­ur um 9%, störf­um fjölgaði um þrjú þúsund og 22 þúsund keyptu sína fyrstu íbúð, þar af sjö þúsund á síðasta ári. Nýj­um stoðum hef­ur verið skotið und­ir efna­hags­lífið. Áætlað er að út­flutn­ings­tekj­ur hug­verkaiðnaðar séu um 10% af út­flutn­ingi. Þær hafa tvö­fald­ast frá 2014 og auk­ist um 50% frá 2018. Á þrem­ur árum hef­ur launa­greiðend­um í tækni- og hug­verkaiðnaði, há­tækniþjón­ustu, upp­lýs­inga­tækni og fjar­skipt­um fjölgað um ríf­lega 300 og eru ríf­lega 18% af öll­um laun­greiðend­um í viðskipta­hag­kerf­inu. Til sam­an­b­urðar er hlut­fall launa­greiðenda í ferðaþjón­ustu 12%, að því er fram kem­ur í fjár­mála­áætl­un­inni.

Stefn­an sem rík­is­stjórn­in mark­ar í sinni fyrstu fjár­mála­áætl­un er skýr: Hægja verður á vexti út­gjalda og styrkja grunn efna­hags­lífs­ins og þar með rík­is­sjóðs og verja þannig kröft­uga upp­bygg­ingu op­in­berr­ar þjón­ustu um leið og tryggt verður að hægt sé að mæta óvænt­um áföll­um í framtíðinni. Með mark­viss­um skref­um á að end­ur­heimta jafn­vægi í rík­is­fjár­mál­um og koma í veg fyr­ir frek­ari skuld­setn­ingu rík­is­ins. Skuld­ir hins op­in­bera sam­kvæmt skuld­a­reglu stöðvast í um 44% af vergri lands­fram­leiðslu í lok tíma­bils­ins. Árið 2025 stefn­ir í að skulda­hlut­fallið verði um fjórðungi lægra en reiknað var með í upp­hafi far­ald­urs­ins.

10 mála­svið taka 70%

Eðli máls sam­kvæmt eru skoðanir skipt­ar um hvernig verja skuli sam­eig­in­leg­um fjár­mun­um. Sum­um stjórn­mála­mönn­um finnst ekki nóg að gert; vilja auka rík­is­út­gjöld, hækka skatta. Fæst­ir út­gjalda­sinna hafa áhyggj­ur af halla­rekstri og skulda­söfn­un.

Fjár­mála­áætl­un rík­is­stjórn­ar þriggja ólíkra stjórn­mála­flokka bygg­ist á póli­tískri jafn­væg­islist og í flestu virðist hafa vel tek­ist til. Um sjö af hverj­um tíu krón­um af út­gjöld­um rík­is­sjóðs á kom­andi fimm árum renna til tíu mál­efna­sviða, mest til sjúkra­húsaþjón­ustu eða 738 millj­arðar og til mál­efna aldraðra 552 millj­arðar. Vegna ör­orku og mál­efna fatlaðra verður varið um 474 millj­örðum króna. Líkt og sést á meðfylgj­andi töflu renna yfir 58% út­gjalda rík­is­ins í vel­ferðar­mál eða alls liðlega þrjú þúsund millj­arðar á fimm árum. Útgjöld til heil­brigðismála vega þyngst, eða 31% – en út­gjöld til fé­lags-, hús­næðis- og trygg­ing­ar­mála nema 27%.

Útgjöld til vel­ferðar­mála munu því halda áfram að vaxa líkt og síðustu ár. En þótt illa verði kom­ist hjá því að auka út­gjöld til heil­brigðismála og annarra vel­ferðar­mála, verður að leggja meiri áherslu á hag­kvæma nýt­ingu fjár­muna – að við fáum meiri og betri þjón­ustu. Hið sama á við um mennta­mál sem taka til sín tí­undu hverja krónu.

Fjár­mála­áætl­un­in tek­ur mið af því að fjár­fest­ing er und­ir­staða fyr­ir vel­meg­un framtíðar­inn­ar – með sama hætti og halla­laus fjár­lög eru trygg­ing kom­andi kyn­slóða fyr­ir því að losna við að bera bagga fortíðar. Að meðaltali mun fjár­fest­ing hins op­in­bera nema 3,6% af lands­fram­leiðslu. Mestu skipt­ir 139 millj­arða fjár­fest­ing í sam­göngu­fram­kvæmd­um og 135 millj­arða fram­lög til rann­sókna og ný­sköp­un­ar. Einnig er gert ráð fyr­ir 90 millj­arða króna fjár­fest­ingu í bygg­ingu Land­spít­al­ans, en 24,4 millj­arðar króna voru lagðir til verk­efn­is­ins á síðasta kjör­tíma­bili.

Ekki haf­in yfir gagn­rýni

Fjár­mála­áætl­un­in er ekki haf­in yfir gagn­rýni. Ég hef lengi varað við þeirri út­gjalda­aukn­ingu sem átt hef­ur sér stað og sú gagn­rýni á enn við. Reynsl­an sýn­ir að aukn­ing út­gjalda er ekki ávís­un á bætta þjón­ustu hins op­in­bera. Og eft­ir því sem árin líða hef ég sann­færst æ bet­ur um nauðsyn þess að breyta lög­um um op­in­ber fjár­mál og inn­leiða út­gjald­a­reglu. Til að tryggja sjálf­bærni verður að lág­marki að tryggja að vöxt­ur út­gjalda hins op­in­bera sé ekki um­fram hag­vöxt.

Sam­eig­in­lega tókst okk­ur að sigla vel í gegn­um brot­sjó kór­ónu­veirunn­ar en það mun reyna á stjórn efna­hags­mála á kom­andi mánuðum – ekki aðeins á rík­is­stjórn og Seðlabanka, held­ur ekki síður á aðila vinnu­markaðar­ins. Verk­efnið er að verja lífs­kjör­in og nýta svig­rúm til að bæta enn frek­ar hag þeirra sem lak­ast standa. En óviss­an er mik­il ekki síst vegna inn­rás­ar Rússa í Úkraínu. Af­leiðing­ar stríðsins á hag­kerfi heims­ins eru aðeins að hluta komn­ar fram.

Við finn­um öll fyr­ir hækk­un verðlags. En þótt verðbólga hafi auk­ist hér á landi er hún þó lægri en víðast hvar í helstu viðskipta­lönd­um og tölu­vert lægri en í Evr­ópu­sam­band­inu að meðaltali. Lausung í fjár­mál­um hins op­in­bera verður eins og olía á verðbólgu­eld­inn.

Kom­andi miss­eri kunna að reyn­ast erfið en með sam­spili op­in­berra fjár­mála, aðhalds­samr­ar pen­inga­stefnu og raun­særra samn­inga á vinnu­markaði er ágæt­lega bjart fram und­an. All­ar for­send­ur eru fyr­ir því að lífs­kjör haldi áfram að batna á tíma­bili fjár­mála­áætl­un­ar­inn­ar. Í þeim efn­um erum við okk­ar eig­in gæfu smiðir.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. apríl 2022.