Óli Björn Kárason, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Gangi fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir næstu fimm ár eftir munu frumútgjöld ríkissjóðs nema alls 5.309.206 milljónum króna – liðlega fimm þúsund og þrjú hundruð milljörðum króna eða rúmlega eitt þúsund milljörðum að meðaltali á ári, á verðlagi yfirstandandi árs. Fáir hafa tilfinningu fyrir fjárhæðum sem þessum. Þær verða afstæðar og illskiljanlegar. En flestir átta sig á því að frumútgjöld á komandi fimm árum nema alls um 14,1 milljón á hvert mannsbarn miðað við mannfjölda í byrjun ársins.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, mælti fyrir fjármálaáætlun 2023 til 2027 á þingi í gær. Áætlunin byggist á traustum grunni en ber þess óhjákvæmilega merki að landsmenn hafa þurft að takast á við heimsfaraldur kórónuveirunnar. Sterk staða ríkissjóðs var nýtt til að verja heimili og fyrirtæki en ráðstafanir í ríkisfjármálum vegna faraldursins nema rúmlega 280 milljörðum króna 2020-2022. Samþættar aðgerðir í ríkisfjármálum og peningamálum hafa skilað árangri. Staða heimila er sterk og fyrirtækin hafa náð öflugri viðspyrnu.
Þrátt fyrir heimsfaraldurinn nutu landsmenn bættra lífskjara en á síðasta kjörtímabili jókst kaupmáttur um 9%, störfum fjölgaði um þrjú þúsund og 22 þúsund keyptu sína fyrstu íbúð, þar af sjö þúsund á síðasta ári. Nýjum stoðum hefur verið skotið undir efnahagslífið. Áætlað er að útflutningstekjur hugverkaiðnaðar séu um 10% af útflutningi. Þær hafa tvöfaldast frá 2014 og aukist um 50% frá 2018. Á þremur árum hefur launagreiðendum í tækni- og hugverkaiðnaði, hátækniþjónustu, upplýsingatækni og fjarskiptum fjölgað um ríflega 300 og eru ríflega 18% af öllum laungreiðendum í viðskiptahagkerfinu. Til samanburðar er hlutfall launagreiðenda í ferðaþjónustu 12%, að því er fram kemur í fjármálaáætluninni.
Stefnan sem ríkisstjórnin markar í sinni fyrstu fjármálaáætlun er skýr: Hægja verður á vexti útgjalda og styrkja grunn efnahagslífsins og þar með ríkissjóðs og verja þannig kröftuga uppbyggingu opinberrar þjónustu um leið og tryggt verður að hægt sé að mæta óvæntum áföllum í framtíðinni. Með markvissum skrefum á að endurheimta jafnvægi í ríkisfjármálum og koma í veg fyrir frekari skuldsetningu ríkisins. Skuldir hins opinbera samkvæmt skuldareglu stöðvast í um 44% af vergri landsframleiðslu í lok tímabilsins. Árið 2025 stefnir í að skuldahlutfallið verði um fjórðungi lægra en reiknað var með í upphafi faraldursins.
10 málasvið taka 70%
Eðli máls samkvæmt eru skoðanir skiptar um hvernig verja skuli sameiginlegum fjármunum. Sumum stjórnmálamönnum finnst ekki nóg að gert; vilja auka ríkisútgjöld, hækka skatta. Fæstir útgjaldasinna hafa áhyggjur af hallarekstri og skuldasöfnun.
Fjármálaáætlun ríkisstjórnar þriggja ólíkra stjórnmálaflokka byggist á pólitískri jafnvægislist og í flestu virðist hafa vel tekist til. Um sjö af hverjum tíu krónum af útgjöldum ríkissjóðs á komandi fimm árum renna til tíu málefnasviða, mest til sjúkrahúsaþjónustu eða 738 milljarðar og til málefna aldraðra 552 milljarðar. Vegna örorku og málefna fatlaðra verður varið um 474 milljörðum króna. Líkt og sést á meðfylgjandi töflu renna yfir 58% útgjalda ríkisins í velferðarmál eða alls liðlega þrjú þúsund milljarðar á fimm árum. Útgjöld til heilbrigðismála vega þyngst, eða 31% – en útgjöld til félags-, húsnæðis- og tryggingarmála nema 27%.
Útgjöld til velferðarmála munu því halda áfram að vaxa líkt og síðustu ár. En þótt illa verði komist hjá því að auka útgjöld til heilbrigðismála og annarra velferðarmála, verður að leggja meiri áherslu á hagkvæma nýtingu fjármuna – að við fáum meiri og betri þjónustu. Hið sama á við um menntamál sem taka til sín tíundu hverja krónu.
Fjármálaáætlunin tekur mið af því að fjárfesting er undirstaða fyrir velmegun framtíðarinnar – með sama hætti og hallalaus fjárlög eru trygging komandi kynslóða fyrir því að losna við að bera bagga fortíðar. Að meðaltali mun fjárfesting hins opinbera nema 3,6% af landsframleiðslu. Mestu skiptir 139 milljarða fjárfesting í samgönguframkvæmdum og 135 milljarða framlög til rannsókna og nýsköpunar. Einnig er gert ráð fyrir 90 milljarða króna fjárfestingu í byggingu Landspítalans, en 24,4 milljarðar króna voru lagðir til verkefnisins á síðasta kjörtímabili.
Ekki hafin yfir gagnrýni
Fjármálaáætlunin er ekki hafin yfir gagnrýni. Ég hef lengi varað við þeirri útgjaldaaukningu sem átt hefur sér stað og sú gagnrýni á enn við. Reynslan sýnir að aukning útgjalda er ekki ávísun á bætta þjónustu hins opinbera. Og eftir því sem árin líða hef ég sannfærst æ betur um nauðsyn þess að breyta lögum um opinber fjármál og innleiða útgjaldareglu. Til að tryggja sjálfbærni verður að lágmarki að tryggja að vöxtur útgjalda hins opinbera sé ekki umfram hagvöxt.
Sameiginlega tókst okkur að sigla vel í gegnum brotsjó kórónuveirunnar en það mun reyna á stjórn efnahagsmála á komandi mánuðum – ekki aðeins á ríkisstjórn og Seðlabanka, heldur ekki síður á aðila vinnumarkaðarins. Verkefnið er að verja lífskjörin og nýta svigrúm til að bæta enn frekar hag þeirra sem lakast standa. En óvissan er mikil ekki síst vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Afleiðingar stríðsins á hagkerfi heimsins eru aðeins að hluta komnar fram.
Við finnum öll fyrir hækkun verðlags. En þótt verðbólga hafi aukist hér á landi er hún þó lægri en víðast hvar í helstu viðskiptalöndum og töluvert lægri en í Evrópusambandinu að meðaltali. Lausung í fjármálum hins opinbera verður eins og olía á verðbólgueldinn.
Komandi misseri kunna að reynast erfið en með samspili opinberra fjármála, aðhaldssamrar peningastefnu og raunsærra samninga á vinnumarkaði er ágætlega bjart fram undan. Allar forsendur eru fyrir því að lífskjör haldi áfram að batna á tímabili fjármálaáætlunarinnar. Í þeim efnum erum við okkar eigin gæfu smiðir.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. apríl 2022.