Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður:
Um þessar mundir bíða hundruð sjúklinga eftir því að komast í meðferð; eftir því að fá lífsnauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Þessi staða er mótsögn við þá miklu viðhorfsbreytingu sem hefur orðið í samfélaginu í þá átt að fíknisjúkdómar eigi að vera meðhöndlaðir innan heilbrigðiskerfisins. Umhverfis þessa sjúklinga eru þúsundir aðstandenda sem eru undir gífurlegu álagi með tilheyrandi afleiðingum og kostnaði fyrir samfélagið. Og það er ekkert net sem grípur þessar fjölskyldur eins og algengt er með aðra langvinna sjúkdóma.
Nýverið birtist átakanlegt viðtal í fjölmiðlum við ungan mann og móður hans. Maðurinn hefur glímt við vímuefnavanda hálfa ævina og er einn þeirra fjölmörgu sem bíða eftir að komast í meðferð. Hann lýsir því að hann hafi misst fjóra vini úr ofneyslu frá því í desember. Á hverju ári látast tugir einstaklinga vegna ofneyslu lyfja og þar af stór hluti ungt fólk. Hvert einasta þessara ótímabæru dauðsfalla er of mikið og við verðum að grípa til aðgerða.
Fíknisjúkdómar eru lífshættulegir sjúkdómar og bið fólks í vímuefnavanda eftir meðferð getur verið dauðadómur. Ég hef því, ásamt hópi þingmanna, lagt fram tillögu til þingsályktunar Alþingis um viðhlítandi þjónustu vegna vímuefnafíknar. Með tillögunni er heilbrigðisráðherra falið að skipa starfshóp sérfræðinga til að greina þá hópa sem fá ekki viðhlítandi þjónustu vegna fíknar og að hópnum verði falið að koma með tillögur að úrbótum. Það er brýn nauðsyn að hópar vímuefnasjúklinga verði skilgreindir svo hægt sé að gera tillögur að úrræðum sem henta hverjum hópi.
Það ætti að vera algjört forgangsmál hjá stjórnvöldum að efla og auka skilvirkar forvarnir, fræðslu og meðferðarúrræði. Forvarnir og meðhöndlun fíknisjúkdóma eru besta leiðin til að draga úr vímuefnavandanum. Með því látum við gjörðir fylgja orðum og áherslum; með því tökum við á vímuefnavandanum innan heilbrigðiskerfisins.
Greini birtist í Morgunblaðinu 2. apríl 2022.