Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra:
Gagngerri endurskoðun á skipulagi sýslumannsembætta hefur verið hleypt af stokkunum. Markmiðið er að efla núverandi starfsemi þannig að unnt verði að veita framúrskarandi þjónustu ríkisins hvar og hvenær sem er, óháð staðsetningu þjónustuþega eða starfsstöðvarinnar. Í dag eru sýslumannsembættin níu með jafn mörgum sýslumönnum, starfsstöðvar eru 24 um allt land og starfsfólk um 250. Hugmyndir um endurskoðun byggja meðal annars á ítarlegum greiningum og úttektum ýmissa aðila sem settar voru fram í skýrslu dómsmálaráðuneytisins í mars 2021 en þar var sett fram framtíðarsýn fyrir starfsemi sýslumanna. Með fyrirhuguðum breytingum verður til eitt sýslumannsembætti án þeirra takmarkana sem fylgja núverandi umdæmismörkum. Starfsstöðvar verða áfram staðsettar um land allt, þar sem fjölbreytt og öflug þjónusta verður í boði fyrir heimamenn og landsmenn alla.
Í þeirri vinnu sem hafin er í ráðuneytinu, með fulltingi sýslumannaráðs og starfsfólks embættanna er ekki verið að leggja niður störf á landsbyggðinni. Þvert á móti. Áhersla er lögð á að nýta þann mikla og öfluga mannauð sem embættin búa yfir og þær starfstöðvar sem þegar eru fyrir hendi á vegum hins opinbera um allt land. Ekki er því stefnt að því að fækka starfsstöðvum eða starfsfólki, heldur efla starfsstöðvar um land allt með nýjum verkefnum, þannig að úr verði öflugar þjónustumiðstöðvar í héraði. Sýslumenn, í samstarfi við Stafrænt Ísland, hafa náð góðum árangri í innleiðingu á stafrænni þjónustu og nútímalegum stjórnsýsluháttum og er þeirri vegferð hvergi lokið. Breyttar samfélagslegar aðstæður og tækninýjungar kalla óhjákvæmilega á endurskoðun umdæmismarka og uppbyggingu embættanna.
Með niðurfellingu umdæmismarka og áherslu á stafræna þjónustu myndast svigrúm til að skapa spennandi starfsumhverfi, enda bjóða breyttar aðstæður upp á aukna samvinnu, sérhæfingu og þróun í starfi. Mun sú staða án efa bæta þjónustuna við almenning, enda munu ferðir á milli landshluta, til þess eins að afhenda pappír eða sækja þjónustu í réttu umdæmi, heyra sögunni til. Áherslan í þeirri vegferð sem nú er hafin er skýr, en það er að gera þjónustuna við almenning vandaðri, samræmdari og skilvirkari.
Leitað verður eftir samstarfi við sveitarfélög um að sinna t.a.m. bæði móttöku og afhendingu á gögnum frá sýslumanni, þannig að fólk þurfi ekki að fara um langan veg. Á þremur stöðum á landinu eru starfsstöðvar sýslumanna nú þegar reknar í samstarfi við viðkomandi sveitarfélag og þannig samstarf ríkis og sveitarfélags gæti hentað víðar.
Ég hef þegar kynnt áformin fyrir sýslumönnum og starfsfólki þeirra og áætla að heimsækja öll sýslumannsembættin á vormánuðum samhliða því að ræða málið nánar við sveitarstjórnir. Fyrirhugað er að ljúka almennu samráði og undirbúningsvinnu fyrir næsta haustþing og leggja þá fram frumvarp um breytta högun sýslumannsembætta landsins. Verði frumvarpið að lögum verður árið 2023 nýtt til að undirbúa breytta högun og áætlað er að nýtt skipulag taki gildi í janúar 2024.
Stafræn vegferð er verkefni sem blasir við ríki og sveitarfélögum og er án efa eitt stærsta og mest spennandi byggðamál samtímans. Nú reynir á íbúa og sveitarstjórnir um land allt, að sjá og hagnýta öll tækifærin sem felast í þeim óumflýjanlegu breytingum sem eru að verða á samfélaginu.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. mars 2022.