Hildur Sverrisdóttir alþingismaður:
Þingmenn flokka Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að fara skuli fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort halda skuli áfram aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið. Ekki ætla ég að gera lítið úr skoðunum þeirra sem finnst Íslandi betur borgið innan Evrópusambandsins þótt ég deili alls ekki þeirri skoðun.
Látum svo liggja á milli hluta hversu skringilegt það er af þeim þingmönnum að hafa þar að engu hvort slíkri vegferð yrði fylgt eftir af þingmeirihluta eða ekki með þeim augljósu vanköntum sem slík staða myndi skapa. Látum einnig liggja á milli hluta að enginn umræddra flokka setti ESB-aðild á dagskrá í síðustu alþingiskosningum fyrir rétt tæpum sex mánuðum þar sem hægt er að mæla hinn eiginlega þjóðarvilja.
Hins vegar vil ég gera að umfjöllunarefni hér hvernig þingmennirnir hafa að því er virðist notfært sér innrásina í Úkraínu til að ýja að því að aðild að ESB hafi eitthvað að gera með varnarmál Íslands.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði til að mynda í ræðu á flokksstjórnarþingi flokksins á dögunum að í ljósi þess að Evrópusambandið hefði tekið sér vaxandi hlutverk í varnar- og öryggismálum í kjölfar innrásarinnar, í þeim tilgangi að tryggja betur lýðræði og frið í Evrópu, væri enn meiri ástæða en áður til að Ísland gerðist fullgildur aðili í því samstarfi lýðræðisríkja.
Þessi málflutningur jaðrar við ósmekklegheit og hlýtur að teljast tylliástæða fyrir málflutningi um inngöngu Íslands í ESB á fölskum forsendum. Formaður stjórnmálaflokks á Alþingi hlýtur að þurfa að gæta orða sinna og skýra vel út málflutning sinn, annars gætu einhver haldið að verið væri að nýta sér hörmungar fólks og ótta um öryggi heimshluta okkar til að auka fylgi við inngöngu í félagsskap sem sáralítil krafa hefur annars verið uppi um að fylgja eftir.
Það er vitaskuld Atlantshafsbandalagið sem tryggir varnar- og öryggishagsmuni okkar. Alla áætlanagerð, kerfisumgjörð, mannafla og tæki er að finna þar líkt og verið hefur en ekki innan ESB. Það er blekking að segja að ESB-aðild myndi einhverju breyta varðandi það.
Ef fulltrúarnir vilja skýla sér bak við hugmyndir um að ESB muni sjálft einhvern tímann í framtíðinni koma sér upp eigin varnarsamstarfi hljóta auðvitað allir að sjá að það er ekkert vit í tvöföldu kerfi á sviði varnar- og öryggismálasamstarfs og ekki skynsamlegt að byggja upp innan ESB það sem þegar er fyrir hendi hjá NATO.
Samstaða bandalagsþjóða er gríðarlega dýrmæt og mikilvæg. Þar er Ísland heppið að hafa verið svo forsjált að vera við borðið frá upphafi sem stofnfélagi NATO til að tryggja varnir landsins. Það er ómálefnaleg blekking að ýja að því í þessum aðstæðum að aðild að ESB myndi einhverju breyta þar um.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. mars 2022.