Á ríkið að eiga mjólkurkú?
'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. 

Söluferli á 65% hlut ríkisins í Íslandsbanka er hafið á ný. Það er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og eðlilegt framhald af því þegar ríkið seldi í fyrra rúmlega þriðjungshlut sinn í bankanum. Ríkissjóður hefur nú fengið í sinn hlut tæpa 110 milljarða króna og enn er eftir að koma í ljós hversu mikið fæst fyrir það sem eftir stendur. Það er eflaust hægt að deila og velta upp tölum í þessu samhengi, en það sem skiptir þó máli er að ríkið hefur fengið eðlilegt verð fyrir sinn hlut og það má ætla að svo verði áfram.

Það má gera ráða fyrir því að þeir aðilar sem mótmæltu og töluðu niður söluferlið á síðasta ári geri það aftur nú. Þá heyrðum við rök – sem í langflestum tilvikum reyndust röng – um að markaðsaðstæður væru ekki nógu góðar, enginn myndi vilja kaupa, að mögulega kynni einhver að misnota sér eignarhald í bankanum líkt og gert var fyrir hrun (þó svo að regluverkið í kringum bankana sé allt annað í dag) og þannig mætti áfram telja.

Eitt er það þó sem alltaf er nefnt þegar rætt er um sölu ríkisfyrirtækja, og það er að ríkið sé að selja frá sér mjólkurkúna. Í því samhengi eru teknar saman tölur um arðgreiðslur yfir hentugt tímabil til að benda á að viðkomandi fyrirtæki hafi greitt svo og svo mikið í arð til ríkisins og því megi ekki selja það. Með öðrum orðum, að hér sé um mjólkurkú að ræða sem ekki megi selja.

Það er aftur á móti villandi umræða. Jafnvel þó svo að banki í eigu ríkisins hafi greitt ákveðna upphæð í arð í fortíðinni segir það ekkert til um væntanlegar arðgreiðslur í framtíðinni. Ég vona svo sannarlega að Íslandsbanki og aðrir íslenskir bankar verði reknir með hagnaði á næstu árum og skili eigendum sínum arði. Það er þó ekkert sjálfgefið í því og í raun veit enginn nákvæmlega hvernig bankarekstur mun líta út eftir nokkur ár í ljósi þeirrar miklu byltingar sem er að eiga sér stað í fjártækni út um allan heim. Það er þó engin ástæða til að ætla annað en að íslenskir bankar standist tímans tönn í því og við höfum nú þegar séð miklar framfarir og nýjungar í tæknimálum bankanna sem gera þjónustu þeirra betri.

Á hugmyndafræðilegum nótum þá er það hins vegar ekki sjálfgefið að ríkið eigi að eiga allar mjólkurkýr, þá sérstaklega í áhættusömum greinum þar sem einkaaðilar eru betur til þess fallnir að gera betur en ríkisvaldið. Fjármálastarfsemi fellur þar undir. Ríkisvaldið á að tryggja að leikurinn sé sanngjarn og að skilyrðin séu þannig að rekstrarumhverfið sé samkeppnishæft. Það er síðan annarra að skapa eða miðla verðmætum, sem að hluta til skila sér í skattgreiðslum til ríkisvaldsins. Það er betra að einkaaðilar eigi heilt fjós heldur en að ríkið eigi eina mjólkurkú.

Morgunblaðið, 24. mars. 2022.