Gamal­dags hugsun í heil­brigðis­kerfinu?
'}}

Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður:

Nýlega fóru fram tvennar umræður þingmanna á Alþingi við heilbrigðisráðherra, annars vegar um fjarheilbrigðisþjónustu og hins vegar um geðheilbrigðismál. Oft var enda þörf en nú nauðsyn. Rannsóknir og mælingar benda til þess að geðheilsa hafi farið mjög versnandi og að geðheilbrigðisvandi íslensku þjóðarinnar sé umfangsmikill. Þar spilar heimsfaraldur auðvitað sitt hlutverk, en aðgerðir stjórnvalda til að sporna við faraldrinum hafa haft sérstaklega slæm áhrif á andlega líðan fólks, ekki síst barna og ungmenna.

Fjarheilbrigðisþjónusta hefur verið veitt með góðum árangri í dreifbýlum löndum í áratugi. Enda eykur tæknin aðgengi þeirra sem búa í dreifbýli gríðarlega. Á sama tíma og eftirspurn eftir geðheilbrigðisþjónustu hefur aukist, skýtur skökku við að hið opinbera hafi ekki nýtt fjarheilbrigðisþjónustu til að bæta aðgengi og vinna á geðheilbrigðisvandanum. Fjölmargar einkareknar stofur í geðheilbrigðisþjónustu nýta sér þessa tækni sem hefur gefist vel, en hins vegar nýtir engin opinber þjónustustofnun sér hana. Og það þrátt fyrir að til staðar sé íslensk tækni sem hefur öll tilskilin leyfi Landlæknis. Af hverju gengur hinu opinbera mun hægar en einkaaðilum að brjóta niður þá veggi sem stjórnvöld segja að séu til staðar á milli þjónustunnar og þeirrar tækni sem er til staðar?

Með því að bjóða bæði upp á stað- og fjarþjónustu um allt land er hægt að stytta biðtíma og -lista, nýta tíma heilbrigðisstarfsfólks betur og byggja upp sterkt teymi stuðnings og aðstoðar. Efling geðheilbrigðisþjónustu er forgangsmál í nýjum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar líkt og í þeim fyrri. Getur verið að gamaldags hugsun komi í veg fyrir skynsama uppbyggingu á heilbrigðiskerfinu?

Greinin birtist á visir.is 17. mars 2022.