Sjálfstæðisflokkurinn fordæmir innrás Rússa

Sjálfstæðisflokkurinn fordæmir innrás Rússa í Úkraínu. Formaður og varaformaður flokksins hafa bæði gagnrýnt framferði Rússa harðlega. Þess er krafist að Rússar dragi herlið sitt tafarlaust til baka og jafnframt er sú afstaða skýr að Ísland taki fullan þátt með bandalagsríkjum og öðrum nánum samstarfsríkjum í aðgerðum gegn Rússum.

Ógn við öryggi Evrópu

„Stríðsrekstur Rússa í Úkraínu er raunveruleg ógn við öryggi í Evrópu. Við stöndum staðfastlega með okkar bandalagsríkjum og nánustu samstarfsríkjum og tökum fullan þátt í víðtækum þvingunaraðgerðum sem verða útfærðar í dag og á morgun. Ísland hefur lýst algjörum stuðningi við Úkraínu og fordæmir innrás gegn löghelgi landamæra þeirra. Við tökum heilshugar undir kröfu um að Pútín Rússlandsforseti dragi herlið sitt tafarlaust frá Úkraínu,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins í tilkynningu á vef utanríkisráðuneytisins í dag.

Árás á okkar gildi

„Innrás Rússlands í Úkraínu er árás á okkar gildi; virðingu fyrir alþjóðalögum, áherslu á frið og lýðræðislegar framfarir. Hörmulegt skeytingarleysi gagnvart öllu sem skapar grundvöll framfara og velsældar. Við eigum að taka fullan þátt í aðgerðum NATO og fordæma þessa framgöngu,“ segir Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra á facebook-síðu sinni í dag vegna hernaðaraðgerða Rússa í Úkraínu.