Fjármál borgarinnar koma okkur við

Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi:

Hver hefur ekki staðið sig að því að blóta ríkinu þegar rúllað er yfir launaseðilinn og maður sér hversu hátt hlutfall heildarlauna fer í skatta. Við erum öll meðvituð um að reka þarf gott heilbrigðiskerfi, menntakerfi, löggæslu ásamt öðru. En er það svo að allir þessir peningar renni beint í ríkissjóð? Nei er svarið. Hvað verður þá um peningana ef ríkið er ekki að soga þá alla til sín, jú þeir renna til þess sveitarfélags sem þú býrð í. Á höfuðborgarsvæðinu er Reykjavík eina sveitarfélagið sem innheimtir hámarksútsvar eða 14,52%. Það þýðir að einstaklingur sem er með 650 þúsund í laun á mánuði og á lögheimili í Reykjavík greiðir 90.605 kr. til Reykjavíkurborgar og 68.643 kr. til ríkisins. Einstaklingur með 450 þúsund á mánuði greiðir 62.726 kr til Reykjavíkurborgar og 23.523 til ríkisins.

Það er staðreynd að sveitarfélög eru að taka háar upphæðir af launafólki og í mörgum tilfellum meira en ríkið. Eigum við ekki að vera meðvitaðri um fjármál sveitarfélaganna? Skuldir Reykjavíkurborgar voru í upphafi kjörtímabilsins 299 milljarðar en nema núna 400 milljörðum. Skuldirnar hafa vaxið hratt á kjörtímabilinu, samkvæmt áætlun er gert ráð fyrir að þær verði 453 milljarðar árið 2025. Þessar staðreyndir eiga að gera það að verkum að við gerum meiri kröfur til Reykjavíkurborgar og förum fram á að skattpeningum okkar sé betur varið í þá grunnþjónustu sem sveitarfélaginu ber skylda til þess að reka. Fréttir um lélegt viðhald skólabygginga þar sem fjármagnið sem átti að fara í viðhaldið var sett í önnur verkefni sem þóttu meira „Spennandi“ eiga að vekja okkur til umhugsunar og krefjast þess að hér sé vel farið með okkar sameiginlegu eigur og þá fjármuni sem stjórnmálamenn úthluta í hin og þessi verkefni. Fjármunir sem við sjáum á launaseðlinum að eru teknir af okkur.

Fréttablaðið 8. febrúar 2022.