Hver er staða samgöngusáttmálans í Reykjavík?

Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður:

Fyrir rúmum tveimur árum undirrituðu sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins og ríkið svokallaðan sáttmála um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Sáttmálinn inniheldur fögur fyrirheit um „umfangsmestu samgönguframkvæmdir sögunnar til að flýta úrbótum á höfuðborgarsvæðinu“.

Í samgönguáttmálanum skuldbinda aðilar samkomulagsins sig til að flýta tilteknum framkvæmdum í Reykjavík. Þar eru fyrst nefndar markvissar aðgerðir til að nýta nýjar tæknilausnir og bæta umferðarljósakerfi á höfuðborgarsvæðinu í takt við markmið samkomulagsins. Í tilkynningu um sáttmálann á heimasíðu innviðaráðuneytisins segir að „þegar í stað“ verði ráðist í að innleiða stafræna umferðarstýringu á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur sömuleiðis fram í útgefnu kynningarefni um samgöngusáttmálann.

Gatnamót við Bústaðaveg eru sömuleiðis á lista yfir flýtiframkvæmdir og samkvæmt framkvæmdaáætlun átti þeim að ljúka á árinu 2021. Þá má einnig nefna lagningu Arnarnesvegar og gatnamóta við Breiðholtsbraut en samkvæmt framkvæmdaáætlun átti þeim framkvæmdum að ljúka á árinu 2021. Þetta eru gatnamót sem voru sömuleiðis í forgangi í umferðaröryggisáætlun Reykjavíkur enda slysatíðni þar mjög há. Samkvæmt samgöngusáttmálanum er uppbygging Keldnalands mikilvæg til að vinna enn frekar að samningsmarkmiðum og er hún því á lista yfir flýtiframkvæmdir.

Markmið sáttmálans er að auka öryggi, bæta samgöngur, minnka tafir og draga úr mengun og er samkomulagið fjármagnað að stærstum hluta með framlagi ríkisins. Það er því gríðarlega mikilvægt að ríkið hafi virkt og öflugt eftirlit með því að staðið sé við ákvæði sáttmálans, m.a. um þær framkvæmdir sem eru í forgangi samkvæmt efni hans.

Sem þingmaður Reykvíkinga hef ég því lagt fram fyrirspurn á Alþingi til innviðaráðherra um stöðu tiltekinna framkvæmda í Reykjavík. Það kemur ekki síst til af því að okkur sem hér búum dylst ekki að framkvæmdirnar eru ýmist ekki hafnar eða komnar mjög skammt á veg þrátt fyrir að þeim hafi átt að vera lokið á síðasta ári.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. febrúar 2022.