Tvær spurningar

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Eðli máls­ins sam­kvæmt hafa verið skipt­ar skoðanir á þeim sótt­varn­aráðstöf­un­um sem gerðar hafa verið á liðnum tveim­ur árum, um rétt­mæti þeirra, til­gang og virkni. Það eru skipt­ar skoðanir á því hvort fjölda­tak­mark­an­ir eigi að miðast við 10 manns, 50 eða fleiri, klukk­an hvað loka eigi veit­inga­hús­um, hvar, hvenær og hverja eigi að skima og þannig mætti áfram telja. Það er bæði eðli­legt og gott að fólk hafi á þessu skoðanir, því fæst okk­ar vilja búa í sam­fé­lagi þar sem al­menn­ing­ur þarf að sitja og standa eft­ir skip­un­um hins op­in­bera.

Það þarf alltaf að rétt­læta með sterk­um rök­um það sem kalla má harðar aðgerðir rík­is­ins gagn­vart dag­legu lífi fólks. Það á tví­mæla­laust við þegar fólki er bannað að koma sam­an, það skikkað til að vera heima hjá sér, fyr­ir­tækj­um er bannað að hafa opið og svo fram­veg­is.

Þegar ný veira gerði vart við sig fyr­ir rúm­um tveim­ur árum var ljóst að hún væri hættu­leg og eft­ir til­vik­um ban­væn. Það var því eðli­legt að bregðast skjótt við, reyna eft­ir bestu getu að tak­marka út­breiðslu henn­ar og vernda þau sem aug­ljós­lega voru viðkvæm­ust fyr­ir henni. Til þess þurfti að beita úrræðum sem við eig­um, sem bet­ur fer, ekki að búa við í okk­ar dag­lega lífi. Það ætti aldrei að vera auðveld ákvörðun fyr­ir stjórn­mála­menn að slökkva á hag­kerf­um heims með handafli og skerða rétt­indi al­menn­ings – hvort sem er til skemmri eða lengri tíma.

Nú, rúm­lega tveim­ur árum síðar, vit­um við meira og nýj­ustu af­brigði veirunn­ar valda ekki sama skaða og upp­haf henn­ar gerði. Í millitíðinni hafa einnig orðið til bólu­efni sem aug­ljós­lega bæla áhrif henn­ar á meg­inþorra al­menn­ings. Að öllu óbreyttu – og með þeim fyr­ir­vara að kór­ónu­veir­an stökk­breyt­ist ekki í eitt­hvað enn verra – má segja að hún sé í rén­un og langt frá því að vera jafn hættu­leg og hún var í byrj­un.

Við get­um, umræðunn­ar vegna, varpað fram tveim­ur spurn­ing­um. Var rétt­læt­an­legt að bregðast við með svo harka­leg­um hætti í mars 2020? Og er rétt­læt­an­legt að beita sömu aðferðum nú?

Ég myndi svara fyrri spurn­ing­unni ját­andi. Þegar lífs­hættu­leg veira ríður yfir þarf að bregðast við. Miðað við þær upp­lýs­ing­ar og þekk­ingu sem við búum yfir nú, og þau bólu­efni sem vís­ind­in hafa fært okk­ur, er ekki hægt annað en að svara seinni spurn­ing­unni neit­andi. Þrátt fyr­ir að nú séu í gildi veru­lega strang­ar ráðstaf­an­ir sjá­um við met­fjölda í smit­um nær dag­lega. For­send­ur fyr­ir þeim tak­mörk­un­um sem nú eru í gildi eru brostn­ar og það verður að vera hægt að aflétta íþyngj­andi tak­mörk­un­um jafn hratt og þær eru sett­ar á.

Að lok­um má nefna að við búum við ým­is­legt sem er okk­ur hættu­legt, það er staðreynd lífs­ins. Við tök­umst á við hætt­ur með ýms­um hætti, leit­um lausna og ger­um eðli­leg­ar ráðstaf­an­ir. Sem bet­ur fer fel­ast lausn­irn­ar sjaldn­ast í því að fara ekki út úr húsi.

Morgunblaðið, 27. janúar 2022.