Breytingar á persónuverndarstefnu Sjálfstæðisflokksins og nýjar vinnureglur Sjálfstæðisflokksins á samfélagsmiðlum

Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins breytti á fundi sínum hinn 14. janúar sl. persónuverndarstefnu Sjálfstæðisflokksins, prófkjörsreglum og setti vinnureglur á samfélagsmiðlum. Jafnframt felldi miðstjórn úr gildi skráningarskilmála sem nú falla undir persónuverndarstefnuna.

Okkur er ljúft og skylt að upplýsa ykkur um helstu breytingarnar og hvetjum ykkur til að kynna ykkur reglurnar gaumgæfilega. Enda snúa breytingarnar m.a. að því með hvaða hætti flokkurinn mun eiga í samskiptum við félagsmenn sína. Hér eru hlekkir á reglurnar í heild sinni en neðar í þessu bréfi má lesa um nokkrar þær breytingar sem orðið hafa:

  • Persónuverndarstefna Sjálfstæðisflokksins (sjá hér)
  • Vinnureglur Sjálfstæðisflokksins um virkni á samfélagsmiðlum (sjá hér)
  • Prófkjörsreglur Sjálfstæðisflokksins (sjá hér)

Nýlega voru gerðar breytingar á lögum um starfsemi stjórnmálasamtaka. Þar er gengið út frá því að aðild að stjórnmálasamtökum byggist á sérstakri umsókn þar að lútandi og verða því samskipti stjórnmálasamtaka við félagsmenn sína ekki lögð að jöfnu við almenna markaðssetningu fyrirtækja og falla því ekki undir ákvæði um svonefndar bannskrár, svo sem ákvæði laga um skráningu einstaklinga sem lúta að notkun þjóðskrár í markaðssetningartilgangi. Breytingarnar gera jafnframt ráð fyrir því að stjórnmálasamtök geti nýtt skrár sem eru aðgengilegar opinberlega, svo sem þjóðskrá eða símaskrá, til að uppfæra þær upplýsingar sem félagar samtakanna hafa veitt þeim, t.d. upplýsingar um nöfn, símanúmer, heimilisföng, netföng eða notendanöfn á samfélagsmiðlum, svo hægt verði að tryggja órofin samskipti félaga og samtaka þeirra.

Auk framangreindra breytinga á möguleikum stjórnmálasamtaka til að eiga í samskiptum við skráða flokksmenn hafa þau stjórnmálasamtök sem fengu fulltrúa kjörna á Alþingi í alþingiskosningum 28. október 2017 unnið sameiginlega að gerð verklagsreglna um vinnslu persónuupplýsinga á samfélagsmiðlum í tengslum við kosningar til Alþingis og sveitastjórna. Smíði þeirra verklagsreglna má rekja til álits persónuverndar sem stofnunin gaf út í framhaldi af athugun sinni á notkun stjórnmálasamtaka á samfélagsmiðlum fyrir kosningar til Alþingis 2016 og 2017. Á grunni þeirra reglna hefur flokkurinn sett sér nýjar vinnureglur um virkni sína á samfélagsmiðlum. Enda heldur Sjálfstæðisflokkurinn úti vettvangi á helstu samfélagsmiðlunum og hefur þannig svarað ákalli um að nýta þá miðla sem vettvang til að upplýsa flokksmenn og eiga í samskiptum við fólk um hugðarefni sín og eiga samtal um pólitískar áherslur, stefnur og strauma. Nýju reglurnar eru þess eðlis að Sjálfstæðisflokkurinn getur nú betur sinnt upplýsingaskyldu sinni gagnvart flokksmönnum á þeim vettvangi.

Persónuverndarstefna Sjálfstæðisflokksins og vinnureglur Sjálfstæðisflokksins um virkni á samfélagsmiðlum hafa nú verið uppfærðar til samræmis við breytingar á löggjöfinni og birtar á heimasíðu flokksins.

Hér eftir sem hingað til tekur Sjálfstæðisflokkurinn alvarlega réttindi einstaklinga er varða persónuupplýsingar þeirra og leggur sérstaka áherslu á að þær séu unnar með lögmætum, sanngjörnum og gagnsæjum hætti.

Flokksmönnum er bent á að á mínum síðum á xd.is má nálgast þær persónuupplýsingar sem flokkurinn geymir um hvern og einn flokksmann. Flokksmenn eru eindregið hvattir til að skrá sig inn á mínar síður með rafrænum skilríkjum til að kynna sér þær upplýsingar sem þar eru og eftir atvikum að uppfæra þær s.s. símanúmer og netfang.

Kær kveðja,

skrifstofa Sjálfstæðisflokksins