Sigurbjörn aðstoðarframkvæmdastjóri og Tryggvi til þingflokks

Sigurbjörn Ingimundarson hefur verið ráðinn aðstoðarframkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur verið framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins og hefur Tryggvi Másson verið ráðinn framkvæmdastjóri þingflokks í hans stað.

Aðstoðarframkvæmdastjóri mun meðal annars vinna að breytingum sem fyrirhugaðar eru á skipulagi Sjálfstæðisflokksins á næstunni, aukinni samhæfingu lykilstofnana flokksins, lögfræðitengdum málefnum og mun auk þess vera staðgengill framkvæmdastjóra.

„Ég er spenntur að takast á við nýtt hlutverk í sömu skipulagsheildinni. Breytingarnar eru liður í því að innleiða nýtt skipulag sem ég hef fengið tækifæri til að móta og þróa í samstarfi við aðra“ segir Sigurbjörn. „Ég er sannfærður um að þær breytingar munu efla flokkinn og styrkja. Flokkurinn er afar vel mannaður, það eru áhugaverðir tímar framundan og ég hlakka til að takast á við verkefnin sem bíða.“

Sigurbjörn Ingimundarson lauk BA-prófi í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2010 og meistarapróf í lögfræði frá sama háskóla árið 2013. Þá lauk Sigurbjörn MBA-prófi frá viðskiptafræðideild Háskóla Íslands árið 2017. Undanfarin sjö ár hefur hann gegnt starfi framkvæmdastjóra þingflokks Sjálfstæðisflokksins.

 

Tryggvi Másson lauk BS prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 2016 og meistaraprófi í atferlishagfræði frá Erasmus University Rotterdam árið 2021. Á árunum 2015-2021 starfaði Tryggvi sem sérfræðingur og verkefnastjóri hjá Samtökum atvinnulífins. Undanfarið hefur Tryggvi gegnt starfi framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar hjá íslensk-japanska félaginu Takanawa. Þá hefur Tryggvi sinnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir ýmis félagasamtök.

„Framundan er nýtt og spennandi kjörtímabil sem fylgja fjölda tækifæra. Ég hlakka til að takast á við þau ásamt þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og öflugu teymi starfsmanna þingflokksins” segir Tryggvi.