Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur:
Sjálfstæðisflokkurinn er byggður á skýrri stefnu um frelsi einstaklingsins. Forræðishyggja er andstæða hennar. Ég trúi því að nú verði að hverfa af braut forræðishyggju í borgarmálunum. Mikil tæknibylting er að verða í samgöngumálum. Við eigum að nýta hana til fulls og greiða fyrir umferðinni í stað þess að þrengja að henni. Ekki breyta ferðahegðun fólks með þrengingum heldur með því að bæta valkostina sem fólkið hefur til að komast á milli staða. Þess vegna þarf að endurskoða útfærslu borgarlínu í borginni. Og þess vegna þarf að koma Sundabraut á kortið í sumar að afloknum borgarstjórnarkosningum. Og einmitt þess vegna þarf að fækka hættulegum ljósastýrðum gatnamótum en núverandi ástand hefur tafið þær framfarir í 10 ár.
Þak yfir höfuðið
Strax næsta vor þarf að skipuleggja nýtt og hagstætt byggingarland. Innviðir í Úlfarsárdal nýtast vel í uppbyggingu þúsunda íbúða. Keldnalandið er risastórt tækifæri upp á milljón fermetra fyrir stofnanir, fyrirtæki og fjölskyldur. Með uppbyggingu við Keldur tökum við stórt stökk sem höfuðborg. Húsnæðiskrísan í borginni er bein afleiðing af skömmtunarstefnu í lóðamálum. Hana eigum við að leysa á nýja árinu.
Að vinna með fólki
Sjálfstæðismenn eiga að vinna með fólki. Lækka álögur á fólk og fyrirtæki. Vinna með rekstraraðilum í Reykjavík, hvort sem er um að ræða nýsköpunarfyrirtæki eða verslunarmenn á Laugavegi. Þeir sem skapa störf og þjónustu vita best hvað þarf. Ég trúi því að borgarfulltrúar hafi aðeins einn starfa: Að þjóna fólkinu í borginni. Við þurfum breytingar í vor þar sem sjálfstæðisstefnan víkur forræðishyggjunni burt. Skýr stefna um breytingar á slíkum grunni er forsenda þess að vel takist.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. desember 2021.