Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Í heimi íþróttanna er stundum talað um mikilvægi þess að hrista upp í liðinu. Jafnvel lið sem fyllt hafa skápa sína af málmi þurfa á því að halda að gerðar séu breytingar. Það gefur ekki bara ferskleika heldur brýnir þau sem fyrir eru, minnir á mikilvægi þess að halda fókus – og sækja fleiri sigra.
Það sama á við um stjórnmálin og stjórnarfar í landinu. Við kunnum að vera vön því að hlutirnir séu með ákveðnum hætti en við vitum ekki alltaf – eða munum jafnvel ekki – af hverju hlutirnir eru eins og þeir eru. Þá er hætt við því að stjórnkerfi landsins dragist aftur úr og endurspegli ekki þarfir og væntingar fólks og fyrirtækja í landinu. Þess vegna er mikilvægt að hugsa hlutina upp á nýtt og ráðast í breytingar sem eru til þess fallnar að auka lífsgæði okkar til lengri tíma. Hrista upp í liðinu.
Við heyrum stjórnmálamenn gjarnan tala um kerfisbreytingar. Það liggur ekki alltaf fyrir hvaða kerfum þarf að breyta, af hverju eða hvernig – oftast er þetta hugtak bara notað í pólitískum tilgangi til að festa ákveðnar stjórnmálaskoðanir í sessi. Stjórnmálamenn sem telja sig nútímalegri en aðrir tala undarlega oft um kerfisbreytingar ef þeir telja sig hafa betri skoðanir en aðrir og saka þá sem ekki taka undir um íhaldssemi og afturhald.
Það er síðan hægt að ráðast í alvörukerfisbreytingar sem taka mið af raunverulegum aðstæðum og framtíðarhorfum okkar. Í nýjum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að íslenskt samfélag sé nú í kjörstöðu til þess að horfa til framtíðar og sækja fram í þágu vaxandi velsældar. Það eru orð að sönnu, en þá liggur fyrir að stjórnkerfið þarf að vera í stakk búið til að leiða þá þróun sem hið opinbera þarf að leiða og sinna því þjónustuhlutverki sem það þarf að sinna.
Stofnun nýs ráðuneytis vísinda, iðnaðar og nýsköpunar er til marks um framsækna hugsun stjórnmála. Þannig nýtum við þær breytingar sem hafa orðið á liðnum árum sem hafa skapað nýjan veruleika fyrir okkur öll og það sem mikilvægara er, þannig ýtum við undir og styðjum við það að frekari breytingar og framfarir geti átt sér stað. Við sem eigum sæti í ríkisstjórn, og þingflokkarnir sem nú mynda meirihluta á Alþingi, erum að horfa til þess hvernig hægt er að gera hlutina betur en áður, hvernig hægt er að innleiða nýjungar, gera þjónustu hins opinbera betri og gera bæði einstaklingum og fyrirtækjum kleift að bæta hag sinn og framtíðarhorfur. Þannig eiga stjórnmál að virka og rétt eins og í íþróttunum má ekki eiga sér stað stöðnun.
Til að styðja við umhverfi þar sem sköpunarkraftur fólks fær að njóta sín og það getur vaxið, dafnað og þroskast í opnu og frjálsu umhverfi þarf að ráðast í kerfisbreytingar. Alvörukerfisbreytingar sem hafa þýðingu fyrir líf fólks.
Morgunblaðið, 8. desember. 2021.