Alvöru kerfisbreytingar
'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Í heimi íþrótt­anna er stund­um talað um mik­il­vægi þess að hrista upp í liðinu. Jafn­vel lið sem fyllt hafa skápa sína af málmi þurfa á því að halda að gerðar séu breyt­ing­ar. Það gef­ur ekki bara fersk­leika held­ur brýn­ir þau sem fyr­ir eru, minn­ir á mik­il­vægi þess að halda fókus – og sækja fleiri sigra.

Það sama á við um stjórn­mál­in og stjórn­ar­far í land­inu. Við kunn­um að vera vön því að hlut­irn­ir séu með ákveðnum hætti en við vit­um ekki alltaf – eða mun­um jafn­vel ekki – af hverju hlut­irn­ir eru eins og þeir eru. Þá er hætt við því að stjórn­kerfi lands­ins drag­ist aft­ur úr og end­ur­spegli ekki þarf­ir og vænt­ing­ar fólks og fyr­ir­tækja í land­inu. Þess vegna er mik­il­vægt að hugsa hlut­ina upp á nýtt og ráðast í breyt­ing­ar sem eru til þess falln­ar að auka lífs­gæði okk­ar til lengri tíma. Hrista upp í liðinu.

Við heyr­um stjórn­mála­menn gjarn­an tala um kerf­is­breyt­ing­ar. Það ligg­ur ekki alltaf fyr­ir hvaða kerf­um þarf að breyta, af hverju eða hvernig – oft­ast er þetta hug­tak bara notað í póli­tísk­um til­gangi til að festa ákveðnar stjórn­mála­skoðanir í sessi. Stjórn­mála­menn sem telja sig nú­tíma­legri en aðrir tala und­ar­lega oft um kerf­is­breyt­ing­ar ef þeir telja sig hafa betri skoðanir en aðrir og saka þá sem ekki taka und­ir um íhalds­semi og aft­ur­hald.

Það er síðan hægt að ráðast í al­vöru­kerf­is­breyt­ing­ar sem taka mið af raun­veru­leg­um aðstæðum og framtíðar­horf­um okk­ar. Í nýj­um stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar kem­ur fram að ís­lenskt sam­fé­lag sé nú í kjör­stöðu til þess að horfa til framtíðar og sækja fram í þágu vax­andi vel­sæld­ar. Það eru orð að sönnu, en þá ligg­ur fyr­ir að stjórn­kerfið þarf að vera í stakk búið til að leiða þá þróun sem hið op­in­bera þarf að leiða og sinna því þjón­ustu­hlut­verki sem það þarf að sinna.

Stofn­un nýs ráðuneyt­is vís­inda, iðnaðar og ný­sköp­un­ar er til marks um fram­sækna hugs­un stjórn­mála. Þannig nýt­um við þær breyt­ing­ar sem hafa orðið á liðnum árum sem hafa skapað nýj­an veru­leika fyr­ir okk­ur öll og það sem mik­il­væg­ara er, þannig ýtum við und­ir og styðjum við það að frek­ari breyt­ing­ar og fram­far­ir geti átt sér stað. Við sem eig­um sæti í rík­is­stjórn, og þing­flokk­arn­ir sem nú mynda meiri­hluta á Alþingi, erum að horfa til þess hvernig hægt er að gera hlut­ina bet­ur en áður, hvernig hægt er að inn­leiða nýj­ung­ar, gera þjón­ustu hins op­in­bera betri og gera bæði ein­stak­ling­um og fyr­ir­tækj­um kleift að bæta hag sinn og framtíðar­horf­ur. Þannig eiga stjórn­mál að virka og rétt eins og í íþrótt­un­um má ekki eiga sér stað stöðnun.

Til að styðja við um­hverfi þar sem sköp­un­ar­kraft­ur fólks fær að njóta sín og það get­ur vaxið, dafnað og þrosk­ast í opnu og frjálsu um­hverfi þarf að ráðast í kerf­is­breyt­ing­ar. Al­vöru­kerf­is­breyt­ing­ar sem hafa þýðingu fyr­ir líf fólks.

Morgunblaðið, 8. desember. 2021.