Olíuöldin líður senn undir lok

Umræður um stefnuræðu forsætisráðherra fóru fram á alþingi miðvikudaginn 1. desember. Í ræðu sinni sagði Njáll Trausti Friðbertsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmin meðal annars:

„Olíuöldin líður nú senn undir lok. Við eigum einstakt tækifæri í grænum orkugjöfum, í jarðvarma, vatnsafli og vindorku. Mikilvægt er að nýta betur þá raforku sem nú þegar er framleidd í landinu, og uppbygging á flutningskerfi raforku er þjóðþrifamál. Orkuskiptin byggja á aukinni grænni orkuframleiðslu og án hennar verður ekki græn bylting í þjóðfélaginu. Ég tek undir þá áherslu ríkisstjórnarinnar að byggt verði á nýlegri orkustefnu þar sem hagsmuna núverandi sem komandi kynslóða er gætt og sjálfbær þróun er höfð að leiðarljósi með jafnvægi milli efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra þátta. Um er að ræða risa tækifæri fyrir íslenskt samfélag. Í því samhengi er rétt að hafa í huga að undirstöður fjórðu iðnbyltingarinnar eru öflug fjarskipti og græn orka. Það er heillaskref að í stjórnarsáttmálanum sé kveðið á um að sérstök lög verði sett um nýtingu vindorku og áhersla lögð á að vindorkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum, þar sem unnt verður að tryggja afhendingaröryggi og lágmarka umhverfisáhrif.”

Ræðuna má sjá í heild sinn hér.