„…að kveða þessa karla í kútinn“

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Loks­ins segja marg­ir, – æ nú byrja upp­hlaup­in, nagið og þrasið hugsa sjálfsagt ein­hverj­ir. En óháð því hvort al­menn­ing­ur fagni eða ekki þá var Alþingi sett í gær í fyrsta skipti frá kosn­ing­um.

Aðstæður eru á marg­an hátt óvenju­leg­ar. Tveir mánuðir eru frá kosn­ing­um. Þing hef­ur ekki komið sam­an frá miðjum júní fyr­ir utan dag­part í júlí til að lag­færa ágalla í lög­um er varðar lista­bók­staf stjórn­mála­sam­taka. Við þing­setn­ing­una sat hluti þing­manna óviss um stöðu sína þar sem beðið er eft­ir að kjör­bréf þeirra verði annaðhvort staðfest eða gengið aft­ur að kjör­borði í Norðvest­ur­kjör­dæmi. Óviss­unni verður von­andi eytt á morg­un. Og þrátt fyr­ir að rík­is­stjórn­ar­flokk­arn­ir sitji fast­ir fyr­ir með auk­inn þing­meiri­hluta hafa þeir ekki enn form­lega myndað nýja rík­is­stjórn. Úr því verður bætt í kom­andi viku.

Yfir þing­setn­ing­unni var skuggi Covid – tak­mark­an­ir, grím­ur og hraðpróf. Fyrsta verk ný­kjör­ins þings er að taka ákvörðun um gildi kjör­bréfa. Sú ákvörðun verður tek­in und­ir hót­un­um frá þeim sem vilja þó ekk­ert meira en tryggja sér sæti í þingsaln­um. Eng­inn þingmaður get­ur látið hót­an­ir hafa áhrif á efn­is­lega af­stöðu til erfiðs máls. Ekki frek­ar en ráðherr­ar sem standa vörð um grunn borg­ara­legra rétt­inda og fá yfir sig sví­v­irðing­ar og dylgj­ur frá emb­ætt­is­mönn­um. Þá virðast rétt­ar upp­lýs­ing­ar ekki vera aðal­atriðið.

Fáir náðugir dag­ar

Í póli­tík er fátt ör­uggt en þó geta ráðherr­ar nýrr­ar rík­is­stjórn­ar sem kynnt verður í kom­andi viku, verið nokkuð viss­ir um að þeir fá ekki marga hveiti­brauðsdaga, ef nokkra. Rík­is­stjórn­ar­inn­ar bíða áskor­an­ir, sum­ar erfiðari en aðrar. Fjár­laga­frum­varp og fjár­mála­stefna, sem byggja und­ir stöðug­leika. Viðspyrna gegn Covid, þar sem gætt er að borg­ara­leg­um rétt­ind­um og tryggður auk­inn viðnámsþrótt­ur heil­brigðis­kerf­is­ins. Bætt sam­keppn­is­staða at­vinnu­lífs­ins sem er for­senda þess að hægt sé að bæta lífs­kjör al­menn­ings í ná­inni framtíð.

Líkt og all­ar aðrar rík­is­stjórn­ir mun ný sam­steypu­stjórn þriggja ólíkra flokka standa frammi fyr­ir há­vær­um kröf­um um auk­in út­gjöld í flesta mála­flokka. Það reyn­ir því fljótt á póli­tísk bein stjórn­arþing­manna. Þeir verða að hafa burði til að hafna því að öll vanda­mál sam­fé­lags­ins verði leyst með aukn­um rík­is­út­gjöld­um en um leið viður­kenna hið aug­ljósa að víða þarf aukið fjár­magn, ekki síst í heil­brigðis­kerfið. Aukn­um fram­lög­um verður hins veg­ar að fylgja fast eft­ir með rík­ari kröf­um til op­in­bers rekstr­ar – um betri þjón­ustu og aukna skil­virkni. Auk­in út­gjöld til heil­brigðismála, verk­efna­tengd fjár­mögn­un mik­il­væg­ustu stofn­ana, skila sam­fé­lag­inu mestu ef það tekst að nýta kosti einkafram­taks­ins og tryggja samþætt­ingu og sam­vinnu sjálf­stætt starf­andi aðila og hins op­in­bera í heil­brigðisþjón­ustu. Hið sama á við víðar, ekki síst í mennta­kerf­inu.

Reynt á þolrif­in

Ég veit að það mun oft reyna á þolrif­in í rík­is­stjórn­ar­sam­starf­inu, jafn­vel meira en á síðasta kjör­tíma­bili. Þá skipt­ir miklu að missa ekki sjón­ar af mark­miðunum – gleyma ekki hug­mynda­fræðinni í þeirri full­vissu að þol­in­mæði og út­hald eru nauðsyn­leg til að vinna að fram­gangi hug­sjóna. Fyr­ir jafn óþol­in­móðan mann og þann er hér skrif­ar verður því nauðsyn­legt að rifja upp niður­lag Mogga­grein­ar 1. júlí á síðasta ári: „Á stund­um er betra að stíga lítið skref (jafn­vel hænu­fet) í rétta átt en reyna að kom­ast á leiðar­enda í „sjömílna­skóm“ en fest­ast í djúpu skóf­ari tregðulög­máls­ins.“

Þegar ný rík­is­stjórn tek­ur við völd­um verður mála­samn­ing­ur eða stefnu­yf­ir­lýs­ing henn­ar kynnt op­in­ber­lega og for­sæt­is­ráðherra fylg­ir fast á eft­ir með stefnuræðu. Sumt mun gleðja en annað ekki. Það er eðli­legt þegar kom­ist er að sann­gjarnri mála­miðlun, þar sem tekið er til­lit til þingstyrks.

Stefnu­yf­ir­lýs­ing­ar rík­is­stjórna hafa verið mis­jafn­ar, jafnt að inni­haldi og um­fangi. Mér virðist sem til­hneig­ing­in á síðustu ára­tug­um hafi verið að lengja text­ann – yf­ir­leitt á kostnað inni­halds og skýr­leika. Kannski ætt­um við í þess­um efn­um, eins og svo mörg­um öðrum, að leita í kist­ur Ólafs Thors [1892-1964], for­sæt­is­ráðherra og for­manns Sjálf­stæðis­flokks­ins.

Matth­ías Johann­essen, skáld og rit­stjóri Morg­un­blaðsins í ára­tugi, seg­ir í ævi­sögu Ólafs að gam­an­sem­in, – þessi glitrandi glettni, hafi verið eitt per­sónu­ein­kenna hans. Ólaf­ur var óhrædd­ur að feta inn á nýj­ar braut­ir í stjórn­mál­um – beita vinnu­brögðum og aðferðum sem fáum hafði hug­kvæmst eða ekki haft póli­tísk þrek til.

Þegar Ólaf­ur gerði grein fyr­ir stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræðum 1950, hafði hann orð á hug­mynd, sem sam­einaði húm­or og hug­vits­semi. Hann lagði til að mynduð yrði sam­stjórn Sjálf­stæðis­flokks og Fram­sókn­ar­flokks án mál­efna­samn­ings. „Ég er nú eig­in­lega ekki eins fjarri því og sum­ir aðrir, að þannig eigi stjórn­ar­mynd­an­ir að vera (þ.e. án mál­efna­samn­inga). Þess­ir ei­lífu mál­efna­samn­ing­ar, þar sem hver flokks­bjálfi og heim­spek­ing­ur í flokkn­um hleður upp metra­löng­um til­lög­um til þess að gera landið stjórn­laust sem allra lengst og þjóðinni sem mesta bölv­un […] eru ekki eft­ir­sókn­ar­verðir. Ég er eig­in­lega með því að kveða þessa karla í kút­inn og mynda stjórn­ir án langra mál­efna­samn­inga,“ sagði Ólaf­ur á lokuðum fundi sjálf­stæðis­fé­lag­anna í Reykja­vík 15. mars 1950.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. nóvember 2021.