Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:
Orkumál munu skipa veglegan sess í stjórnmálunum næstu árin. Fyrir liggur að raforkukerfi landsins er nánast fullnýtt á sama tíma og við stefnum að umfangsmiklum orkuskiptum á næstu áratugum. Markmið stjórnvalda er að Ísland verði kolefnishlutlaust eftir um 20 ár og að 10 árum síðar – um miðja öldina – verði notkun jarðefnaeldsneytis hætt. Þessum markmiðum verður ekki náð nema með aukinni nýtingu endurnýjanlegra orkuauðlinda landsins. Þar er einkum um að ræða fallvötnin og jarðhitann en líklegt er að vindorka bætist einnig við sem þriðja stoð orkubúskaparins.
Sérfræðingar eru sammála um að mikilvægasta verkefni þjóða heims gegn loftslagsbreytingum – loftslagsvánni sem svo er nefnd – felist í því að hverfa frá notkun jarðefnaeldsneytis og nýta þess í stað endurnýjanlega orkugjafa. Þetta gerist ekki með öðrum hætti en þeim að náttúruöflin verði beisluð og nýtt í mun meiri mæli en nú er. Þar erum við í ákjósanlegri stöðu í samanburði við flestar aðrar þjóðir vegna þeirrar stefnu um nýtingu jarðhita til húshitunar og orku fallvatnanna til framleiðslu rafmagns sem fylgt hefur verið á undangengnum áratugum.
Til þess að ná markmiðum okkar um orkuskipti þurfum við að ráðast í frekari virkjun fallvatna og jarðhitans auk vindorkunnar. Samhliða því að einfalda og auðvelda alla umsóknarferla liggur verkefnið í því að fella orkunýtinguna að almennri stefnumörkun okkar í umhverfismálum; finna heppilegt jafnvægi á milli stefnu um nýtingu náttúruauðlinda annars vegar og verndarsjónarmiða hins vegar. Ekki verður bæði haldið og sleppt í þeim efnum. Við búum svo vel að þegar eru fyrir hendi miklir möguleikar á orkuöflun í landinu án þess að eyðileggja þurfi þær dýrmætu auðlindir sem við eigum í náttúrufegurð landsins. Þau verðmæti eru eitt helsta aðdráttarafl ferðamanna sem hingað koma. Þetta tvennt getur vel farið saman ef rétt er haldið á málum.
Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna hefst í Glasgow í Skotlandi í lok mánaðarins. Ákallið um græna orku og fráhvarf frá jarðefnaeldsneyti mun væntanlega setja mark sitt á umræður ráðstefnugesta. Sú stefna kallar á mikið rask á núverandi orkuöflun heimsins, enda er það óhjákvæmilegt. Vandinn verður ekki leystur nema á löngum tíma og ekki nema með því að nýta náttúruna með skilvirkum en um leið sjálfbærum hætti líkt og við Íslendingar höfum gert. Þá er átt við vatnsaflið og jarðvarmann en einnig sólarorku, vindorku og jafnvel kjarnorkuna. Við Íslendingar getum ekki staðið hjá eða skilað auðu gagnvart þessu stóra verkefni sem þjóðir heims standa frammi fyrir. Tækifærin eru líka fyrir hendi, bæði til að framleiða orku, minnka losun gróðurhúsalofttegunda og efla tækniþróun í landinu. Okkur ber að nýta þau tækifæri.
Morgunblaðið, 14. október 2021.