Útvistun eða innvistun?

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi:

Reykjavík hyggst ráðast í stafræna umbreytingu á þjónustu borgarinnar. Verkefnið er sannarlega mikilvægt framfaraskref en útfærsluna þarf að vanda. Sú óútfærða ákvörðun meirihluta borgarstjórnar að verja 10 milljörðum af opinberu fé í verkefnið til næstu þriggja ára vekur áhyggjur. Ráðstöfun fjármuna virðist óljós og áform um útvistun takmörkuð. Samhliða er fyrirhugað að ráða tugi sérfræðinga á borgarkontórinn. Er nema von manni svelgist á morgunkaffinu.

Snemma árs lýsti undirrittuð áhyggjum af útfærslu borgarinnar á umbreytingunni. Við skriflegri fyrirspurn bárust þau svör að verkáætlun kallaði á 60-80 ársverk. Stafræna umbreytingin myndi byggja á gríðarlegri fjölgun opinberra starfa og takmarkaðri útvistun verkefna. Samtöl við hagaðila og hagsmunasamtök sýndu glöggt að áhyggjurnar voru útbreiddar.

Skortur á tæknimenntuðu fólki hefur verið viðvarandi vandamál hérlendis. Hlut­fall þeirra sem ljúka námi í raun­vís­ind­um, tækni­grein­um, verk­fræði og stærðfræði er lægra hérlendis en í nágrannalöndum. Hugbúnaðarfyrirtæki eru í harðri samkeppni um tæknimenntaða sérfræðinga. Það skýtur því skökku við að Reykjavíkurborg hyggist nú byggja upp eitt stærsta hugbúnaðarhús landsins – og ráðast í beina samkeppni við einkaaðila um mikilvæga sérþekkingu.

Sjálfstæðismenn hafa þegar lagt fram tillögu um útboð allra þátta stafrænnar þróunar. Tillagan hlaut neikvæða afgreiðslu um umræðan sýndi glöggt þann skýra áherslumun sem birtist milli Sjálfstæðismanna og meirihlutaflokkanna – ekki síst hvað varðar meðför almannafjár, útvistun verkefna, samkeppnissjónarmið og aðhald í opinberum rekstri.

Það er áhyggjuefni þegar hið opinbera fyrirhugar að reisa stærsta hugbúnaðarhús landsins og ráðast í beina samkeppni við atvinnulíf um takmarkaða sérþekkingu. Stafræn umbreyting er sannarlega mikilvægt framfaraskref á tímum fjórðu iðnbyltingarinnar. Þó er umhugsunarvert hvernig opinberum fjármunum verður varið og hversu litlu er fyrirhugað að útvista. Hér þarf aukið aðhald og áherslubreytingar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. október 2021.