Birgir til liðs við þingflokk Sjálfstæðisflokksins

Birgir Þórarinsson alþingismaður er genginn til liðs við þingflokk Sjálfstæðisflokksins. Þingflokkurinn samþykkti samhljóða beiðni þess efnis í gærkvöldi og telur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins nú 17 þingmenn.

Birgir er 9. þingmaður Suðurkjördæmis og hefur átt sæti á Alþingi síðan 2017 þegar hann tók þar sæti fyrir Miðflokkinn sem hann kveður nú.

„Þingflokkurinn samþykkti beiðni Birgis Þórarinssonar um inngöngu samhljóða og við fögnum því að fá hann til liðs við okkur. Við hlökkum til samstarfsins og teljum þetta styrkja okkur í mikilvægum verkefnum á komandi kjörtímabili,“ segir Birgir Ármannsson formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins.

Sjálfstæðisflokkurinn býður Birgi velkominn í flokkinn og óskar honum farsældar í störfum sínum.