Heimilin og störfin þurfa ábyrga stjórn

Guðrún Hafsteinsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi:

Valið á morgun er kristaltært.

Við stöndum fyrir fleiri og verðmætari störf um allt land. Við munum halda áfram að standa með fólki í rekstri og auka tekjur heimilanna. Við munum halda áfram að byggja upp öflugt atvinnulíf á Íslandi.

Hin leiðin er fjölflokkastjórn sem á það eitt sameiginlegt að ætla að hækka skatta á atvinnulífið og stendur gegn öllum framförum í atvinnumálum. Aðrir kostir eru ekki fyrir hendi.

1. Lægri skattar. Einfaldara regluverk

Við munum halda áfram að lækka skattana og einfalda regluverkið. Við munum halda áfram að gera það auðveldara að reka fyrirtæki, ráða fólk í vinnu, gera hugmyndir að veruleika og skapa verðmæti fyrir samfélagið allt.

Allir aðrir flokkar sem nú eru í framboði ætla að hækka skatta á fyrirtæki. Líka miðjuflokkarnir.

2. Grænar fjárfestingar og orkuskipti.

Við viljum takast á við loftslagsmálin með hugviti, frumkvæði og nýsköpun. Við viljum nýta hreina innlenda orku til að verða fyrst þjóða í full orkuskipti og skapa um leið nýja atvinnugrein á Íslandi.

Vinstrið hafnar hugmyndum um meiri hreina orku og ætlar að tækla málin með reglum, sköttum og bönnum.

3. Nýsköpun hjá stórum og smáum

Útflutningur á hugviti hefur margfaldast. Nýsköpun í allri sinni mynd – líftækni, hugbúnaður, matvælagerð og alls kyns hugvit – er orðin fjórða stoðin í hagkerfi landsins.

Á sama tíma er Reykjavíkurborg að búa til heilt fyrirtæki í beinni samkeppni við einkageirann og fulltrúar Viðreisnar verja þessa ákvörðun opinberlega. Þau hafa aldrei sýnt í verki að þau standi fyrir hægri gildi.

4. Leyfum fólki að blómstra

Við viljum umhverfi sem gerir það auðveldara fyrir fyrirtæki að vaxa og verða stór og öflug. Ráða fleiri í vinnu. Skapa verkefni fyrir undirverktaka. Fjárfesta í nýjum verkefnum – byggingum, tækjum og hugmyndum. Stærstur hluti nýsköpunar á Íslandi á sér einmitt stað í stórum fyrirtækjum.

En Framsóknarflokkurinn og fleiri boða sérstaka skatta á stór fyrirtæki. Þetta er óskiljanlegt.

F ólkið sem við treystum á

Samfélagið allt treystir á fólk sem leggur á sig mikla vinnu í eigin rekstri. Við viljum halda áfram að byggja upp öflugt atvinnulíf á Íslandi. Við í Sjálfstæðisflokknum viljum standa með þessu fólki og öllum þeim sem vilja leggja mikið á sig til að sækja fram í lífinu. Ólíkt öllum öðrum flokkum finnið þið engar tillögur í okkar stefnuskrá sem refsa fólki fyrir dugnað og framtakssemi. Þvert á móti viljum við að þeir njóti eldanna sem fyrstir kveikja þá.

Valið er skýrt. Höldum áfram að vinna.

Greinin birtist á visir.is 24. september 2021.