Þetta kaustu

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Ríkisstjórnin hóf kjörtímabilið með þrjá fjórðu hluta þjóðarinnar á bak við sig samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup. Í dag nýtur hún meiri stuðnings í sömu könnun en nokkur önnur ríkisstjórn hefur gert á þessari öld við lok síns kjörtímabils.

Það er að mínu mati verðskuldað. Því verkin tala.

Kjörtímabil stórstígra framfara

Næstum þremur fjórðu af tæplega tvö hundruð skilgreindum verkefnum stjórnarsáttmálans er lokið. Og hin eru nær öll komin vel á veg. Hér eru fáein dæmi en listinn er margfalt lengri:

 • Stuðningur við nýsköpun, rannsóknir og þróun hefur verið stóraukinn (hlutfallslega hefur sá málaflokkur vaxið meira en nokkur annar á kjörtímabilinu) sem er þegar byrjað að skila sér í aukinni verðmætasköpun.
 • Skattar á einstaklinga hafa verið lækkaðir um 21 milljarð á ári með lækkun tekjuskatts og álögur á fyrirtæki lækkuð um 8 milljarða á ári með lækkun tryggingagjalds.
 • Aukinn metnaður hefur verið settur í loftslagsmarkmið Íslands, ný orkustefna samþykkt sem kveður á um að hætt verði að nota olíu og bensín, og stuðningur við orkuskipti stóraukinn.
 • Stórauknu fé hefur verið varið til heilbrigðismála, heilsugæslan efld, geðheilbrigðisþjónusta aukin og dregið úr greiðsluþátttöku sjúklinga.
 • Stórauknir fjármunir hafa verið settir í vegaframkvæmdir, bæði í samgönguáætlun og með fjárfestingarátaki vegna Covid.
 • Dreifbýlið hefur verið ljósleiðaravætt, dreifikostnaður raforku jafnaður að fullu á milli dreifbýlis og þéttbýlis og jarðstrengjavæðingu flýtt með 600 m.kr. framlagi.
 • Mikilvægar úrbætur hafa verið gerðar í málsmeðferð kynferðisbrota.
 • Iðn-, verk- og starfsnám hefur verið styrkt með grundvallarbreytingum sem þegar hafa skilað sér í stóraukinni aðsókn í slíkt nám.
 • Aðgangur borgaranna að stjórnsýslunni hefur verið einfaldaður til muna með Stafrænu Íslandi, ásamt því sem regluverk hefur verið einfaldað og fjöldi úreltra laga afnuminn.
 • Innanlandsflug hefur verið gert að mun hagkvæmari kosti en áður.
 • Fæðingarorlof hefur verið lengt og hámarksgreiðslur hækkaðar.
 • Fyrstu íbúðarkaup hafa verið auðvelduð með sértækum úrræðum.
 • Rúmlega þriðjungur af hlutafé Íslandsbanka hefur verið seldur til fjárfesta og almennings.
 • Frítekjumark aldraðra vegna atvinnutekna hefur verið hækkað.
 • Stuðningur við námsmenn hefur verið aukinn með nýjum Menntasjóði.

Þetta litla brot af verkum ríkisstjórnarinnar sýnir hvaða árangri er hægt að ná þegar traust samstarf tekst á milli sterkra flokka, þótt ólíkir séu.

Þá er enn ónefnt langstærsta verkefni ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu, sem var glíman við heimsfaraldurinn. Þar náðum við Íslendingar, saman, betri árangri en flestar aðrar þjóðir heims. Með djörfum og ákveðnum viðbrögðum, og samhentu átaki þjóðarinnar allrar, tókst að standa samtímis vörð um rekstrargrundvöll fyrirtækja og þúsundir starfa annars vegar, og hins vegar líf og heilsu landsmanna.

Hið fyrra var mögulegt vegna sterkrar stöðu ríkissjóðs eftir ábyrga stjórn Sjálfstæðisflokksins á undanförnum árum. Að sama skapi er ljóst að hrikalegur hallarekstur ríkissjóðs vegna Covid kallar á ráðdeild á komandi kjörtímabili, og skilning á því hvernig verðmætin verða til sem velferð okkar byggir á.

Mín sýn á næsta kjörtímabil

Kannanir benda nú til þess að án þátttöku Sjálfstæðisflokksins muni fimm flokkar þurfa að ná saman um myndun ríkisstjórnar. Ég læt lesendum eftir að reyna að ímynda sér hvernig slíkri fimm flokka stjórn muni farnast.

Von mín er sú að við lok næsta kjörtímabils, árið 2025, hafi eftirfarandi árangur náðst:

 • Nýsköpunarfyrirtæki, ferðaþjónusta, matvælaframleiðsla og aðrar atvinnugreinar hafi dafnað og skapað ómæld verðmæti og störf, þökk sé samkeppnishæfu rekstrarumhverfi.
 • Hagvöxtur, á grunni ábyrgrar efnahagsstjórnar, hafi staðið undir myndarlegri kaupmáttaraukningu almennings, eflingu velferðarkerfisins og innviðauppbyggingu.
 • Dregið hafi stórkostlega úr olíunotkun og innlend græn orka komið í staðinn.
 • Nýjar tæknilausnir (sem margar eru þegar til) hafi verið nýttar í stórauknum mæli við veitingu opinberrar þjónustu, m.a. í heilbrigðiskerfinu, til að bæta þjónustuna á hagkvæman hátt.
 • Skattar hafi haldið áfram að lækka, í stað þess að hækka vegna óstjórnar og/eða rangrar hugmyndafræði.
 • Regluverk hafi verið einfaldað til að auka verðmætasköpun og samkeppni, neytendum til góða.
 • Kerfishugsun í opinbera geiranum hafi vikið fyrir nýsköpunarhugsun.
 • Grænir iðngarðar hafi risið víða um land á forsendum sjálfbærni, hringrásarhagkerfis og fjölnýtingar auðlindastrauma, og skapað fjölda starfa.
 • Framleiðsla á vistvænu eldsneyti, sem ryður olíu úr vegi, hafi orðið að nýjum og mikilvægum atvinnuvegi.
 • Ríkisstjórnin hafi náð markmiðum sínum – að því marki sem þau voru skynsamleg! – í stað þess að verða ekkert úr verki sökum sundurlyndis, deilna og tortryggni.
 • Valfrelsi og jöfn tækifæri einstaklinga, hvort sem er til náms, velferðarþjónustu, búsetu eða annars, hafi verið í öndvegi við allar ákvarðanir.
 • Ísland sé, sem aldrei fyrr, land tækifæranna.

Það sem ræður úrslitum um hvort þessi framtíðarsýn verður að veruleika er gengi Sjálfstæðisflokksins í kosningunum um næstu helgi.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 19. september 2021.