Sanngjarnara tryggingakerfi eldri borgara

Teitur Björn Einarsson frambjóðandi í 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi:

Sjálfstæðisflokkurinn vill stokka upp almannatryggingakerfi eldri borgara og taka upp sanngjarna og einfaldara kerfi sem bætir hag allra. Markmiðið er að styrkja stöðu þeirra sem eru með takmörkuð réttindi í lífseyrissjóðum og hverfa frá skerðingum. Þetta verði gert með sérstakri lífeyrisuppbót sem tekur mið af réttindum hvers og eins í lífeyrissjóði.

Aðrar skattskyldar tekjur eldri borgara – s.s. atvinnutekjur, séreignasparnaður, fjármagnstekjur – skerða ekki lífeyrisuppbót. Þetta þýðir að samtímatekjur eiga ekki að leiða til skerðinga en verða skattlagðar með sama hætti og eftir sömu reglum og skattskyldar tekjur annarra.

Hvenær og hvernig?

Fyrsta skrefið í tillögunum Sjálfstæðisflokksins um betra og réttlátara tryggingakerfi eldri borgara er að hækka frítekjumark atvinnutekna í 200 þúsund krónur á mánuði frá og með 1. janúar 2022.

Í ríkisstjórn mun Sjálfstæðisflokkurinn leggja áherslu á að kerfisbreytingunum verði hrint í framkvæmd með þessu skýru markmið í huga í samvinnu við hagsmunasamtök eldri borgara. Tímabært er að Sjálfstæðisflokkurinn taki við félagsmálaráðuneytinu og hafi þannig forræði á málefnum eldri borgara en Framsóknarflokkurinn hefur farið með þennan málaflokk í 7 ár á síðustu 8 árum.

Á vegum Sjálfstæðisflokksins hefur starfshópur, undir forystu dr. Vilhjálms Egilssonar, unnið að tillögum til úrbóta á lífeyriskerfi eldri borgara. Á grunni þeirra tillagna ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að vinna að kerfisbreytingunni. Útfærslan að markmiðinu getur verið einföld og það getur tekið innan við 2 ár að hrinda þeim að fullu í framkvæmd.

Hvað er lífeyrisuppbót?

Með lífeyrisuppbót viljum við í Sjálfstæðisflokknum leiðrétta augljóst misgengi sem átti sér stað í fortíðinni og jafna stöðuna í samtímanum. Um leið heyra skerðingar vegna atvinnu- og fjármagnstekna sögunni til. Þannig er lífeyrisuppbótin aldrei tekjutengd vegna samtímatekna, en tekur mið af áunnum réttindum í lífeyrissjóði.

Aðalatriðið er að til verða jákvæðir hvatar fyrir eldri borgara sem hafa getu og vilja til að bæta sinn hag.

Af hverju þarf uppstokkun?

Það eru tvær meginástæður fyrir þörf á útbótum. Í fyrsta lagi er hópur eldri borgara sem hefur ekki haft tækifæri til að byggja upp nægjanleg réttindi í almenna lífeyrissjóðskerfinu. Í upphafi var hlutfall iðgjalda lágt, hluti eldri borgara hafði ekki kost á að vera á vinnumarkaði nema þá í takmarkaðan tíma og iðgjöld voru ekki greidd af heildartekjum og því endurspegla áunnin réttindi ekki ævitekjur viðkomandi.

Í öðru lagi ná reglur um ellilífeyri almannatrygginga ekki þeim markmiðum sem að er stefnt. Skerðingar eru of víðtækar, jaðaráhrif vegna atvinnutekna of miklar og svo bætist skerðingarhlutfallið við skatthlutfallið. Niðurstaðan er sú að það eru engir hvatar í kerfinu til að bæta sinn hag.

Misgengið leiðrétt – bættur hagur allra

Með lífeyrisuppbót viljum við í Sjálfstæðisflokknum leiðrétta augljóst misgengi sem átti sér stað í fortíðinni og jafna stöðuna í samtímanum. Skerðingar vegna atvinnu- og fjármagnstekna heyra sögunni til. Þannig er lífeyrisuppbótin aldrei tekjutengd vegna samtímatekna, en tekur mið af áunnum réttindum í lífeyrissjóði. Til verða jákvæðir hvatar fyrir eldri borgara sem hafa getu og vilja til að bæta sinn hag.

Kjósum sanngjarnara tryggingakerfi – setjum x við D.