Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður:
Ýmsir trúa því að Sjálfstæðisflokkurinn sé eftirbátur annarra í umhverfismálum og sérstaklega loftslagsmálum. Andstæðingar flokksins ýta undir þá ímynd að hann dragi lappirnar í umhverfismálum. Það er hrein firra og bábilja. Vert er að gera grein fyrir hinu rétta.
Eitt stærsta viðfangsefni stjórnmála komandi ára
Lofslagsmál eru eitt stærsta viðfangsefni komandi ára. Hlýnun lofts, hækkun og aukin súrnun sjávar og öfgar í veðri gera það að verkum að náttúran verður að njóta vafans. Það á við um allar þjóðir, en ekki síst Íslendinga sem eiga allt undir umhverfi og sjálfbærri nýtingu auðlinda. Hlusta verður á varnaðarorð vísindamanna og rannsóknastofnana. Að veði eru lífskjör og þjóðaröryggi, en umfram allt framtíð barna okkar.
Farsæl samstaða
Um þetta hefur náðst farsæl samstaða íslenskra stjórnmála og þjóðar. Atvinnulíf og stjórnsýsla tekur mið af sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna til ársins 2030. Með því mætum við vistfræði-, félags- og efnahagslegum kröfum án skerðingar lífsgæða komandi kynslóða.
Í orrahríð kosningabaráttu hafa ýmsir kosið að rjúfa þessa samstöðu. Tekist er á um loftslagsstefnu og stjórnmálaflokkar jafnvel lagðir undir umdeilanlega loftslagsrýni og gefin einkunn fyrir stefnu í umhverfis- og loftslagsmálum. Sótt er að Sjálfstæðisflokknum og heilindi í loftslagsmálum dregin í efa.
Parísarsamkomulagið og heimsmarkmið
Alþjóðlegar skuldbindingar Parísarsamkomulagsins voru fullgiltar í tíð ríkisstjórnar sem Sjálfstæðisflokkurinn sat í.
Aðkoma sjálfstæðismanna í ráðuneytum, stjórnsýslu og sveitarfélögum hefur tekið sterkt mið af sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Kveðið er á um framleiðslu- og neyslumynstur; aukið samstarf varðandi sjálfbæra þróun; bráðaaðgerðir gegn loftslagsbreytingum og aðstoð við þróunarlönd varðandi loftslagsaðgerðir með sterkri skírskotun til kvenna, ungs fólks og jaðarsamfélaga.
Ríkisstjórnir með aðild Sjálfstæðisflokks hafa beitt sér mjög í þessum efnum. Fjármunir og alþjóðasamvinna stóraukin. Þannig hafa framlög til loftslagsvísinda á Íslandi aukist, fjármunum varið í sameiginleg norræn verkefni á sviði þróunarsamvinnu til baráttu gegn loftslagsvá og svo mætti lengi telja. Með fyrstu fjármögnuðu aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum hefur landgræðsla, endurheimt votlendis og skógrækt verið aukin og ný markmið sett um samdrátt í losun.
Loftslagsráð Sjálfstæðisflokksins
Fullyrðingar um að Sjálfstæðisflokkurinn standi veikur gagnvart umhverfis- og loftslagsmálum eru því rangar. Sjálfstæðisfólk telur að í viðureign við loftslagsvá felist fjöldi tækifæra, ekki síst með grænum fjárfestingum fyrirtækja og nýsköpun.
Innan öflugrar fjöldahreyfingar Sjálfstæðisflokksins hefur í áraraðir verið starfandi loftslagsráð skipað hópi fólks úr atvinnulífi, sveitarstjórnum, þingflokki og víðar. Það kraftmikla starf er öllum aðgengilegt á vef flokksins.
Hvar greinir á?
Þrátt fyrir sameiginleg markmið er deilt um leiðir.
Sjálfstæðismenn segja að í eignaréttinum felist mikilvæg náttúruvernd. Reynslan sýnir að hagkvæm nýting náttúruauðlinda sé að jafnaði best tryggð með því að nýtingar- og afnotaréttur sé í höndum einkaaðila. Við höfum því slegið skjaldborg um eignar- og nýtingarrétt einstaklinga á lögvernduðum auðlindum. Lögð hefur verið áhersla á að ráðstöfun nýtingarréttinda á auðlindum í opinberri eigu sé gagnsæ með almannahag að leiðarljósi. Ekki megi grípa til þjóðnýtingar.
Virkjum til orkuskipta
Einnig er ágreiningur um umfang orkunýtingar og uppbyggingu og nýlega um nýtingu vindorku innan sjálfbærra þolmarka.
Raunverulegar aðgerðir í orkuskiptum bílaflota og fiskveiðiflota yfir í rafmagn og rafeldsneyti kalla á virkjun með nytsamlegum hætti. Þeir sem tala á móti nýjum virkjanakostum og uppbyggingu dreifikerfis raforku styðja vart græn orkuskipti.
Jákvæðir hvatar í stað boða og banna
Við eigum að virkja ábyrgð einstaklings í umhverfismálum með jákvæðum hvata í stað boða og banna. Efnahagsleg skynsemi felst í eflingu hringrásarhagkerfisins og aukinni fullendurvinnslu. Nýta nýsköpun og tækninýjungar við endurvinnslu og flokkun sorps og hvata til breyttrar umgengni um plast er árangursríkasta leiðin.
Virkja þarf einkaframtakið til náttúruverndar. Heimila gjaldtöku til verndar og stýra aðgangi ferðamanna að viðkvæmum svæðum til að fjármagna viðhald og uppbyggingu. Þær tekjur eiga heima í héraði.
Við höfum varað við að taka ákvarðanir í flýti um uppbyggingu þjóðgarða á miðhálendinu. Í anda sjálfbærni og nálægðarreglu verður slíkt að vera í sátt við aðliggjandi sveitarfélög með virðingu fyrir eignarrétti.
Umhverfismál eru viðvarandi verkefni. Við þurfum að stíga stærri skref í baráttunni gegn loftslagsvánni. Með með grænni orkubyltingu sjáum við möguleika í grænum fjárfestingum og nýsköpun. Það veit á gott fyrir land tækifæranna.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. september 2021.