Ísland, land tækifæranna

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:

Í dag stönd­um við á tíma­mót­um. Það eru fjór­ar vik­ur til kosn­inga. Við get­um verið stolt af fjölda góðra verka sem kom­ist hafa til leiðar og þeirri sam­stöðu sem ríkt hef­ur um aðgerðir til að bregðast við bæði heims­far­aldri og nátt­úru­ham­förum inn­an­lands.

Kjör­tíma­bilið hef­ur verið skeið fram­fara og betri kjara. Á vefn­um tekju­sag­an.is sést svart á hvítu hvernig ráðstöf­un­ar­tekj­ur allra hópa hafa stór­auk­ist und­an­far­in ár, ekki síst hjá eldra fólki og þeim sem minnst hafa haft milli hand­anna. Þar hafa sér­stak­ar áhersl­ur rík­is­stjórn­ar­inn­ar í skatta- og fé­lags­mál­um ásamt áhersl­um vinnu­markaðar skipt sköp­um. Í djúpri efna­hags­lægð tókst okk­ur ekki bara að verja kaup­mátt heim­il­anna held­ur fór hann upp á við. All­ar for­send­ur eru til staðar til að halda áfram á þess­ari braut.

Vegna skatta­lækk­ana hef­ur meira setið eft­ir til heim­il­is­rekstr­ar af launa­greiðslum fólks. Launamaður með 400 þúsund króna mánaðarlaun hef­ur um 120 þúsund krón­um meira milli hand­anna á ári vegna tekju­skatts­lækk­ana síðustu tveggja ára. Ef við lít­um lengra aft­ur og skoðum upp­söfnuð áhrif af lækk­un tekju­skatts frá 2013 kem­ur í ljós að það mun­ar heim­il­in 35 millj­örðum í lægri skatt­greiðslur.

Á okk­ar vakt hef­ur trygg­inga­gjaldið einnig lækkað þannig að ár­leg­ar álög­ur á fyr­ir­tæk­in í land­inu eru 26 millj­örðum lægri. Það mun­ar um minna.

Það sem skipt­ir raun­veru­legu máli

Fyrstu ár okk­ar í rík­is­stjórn nýtt­ust vel til að lækka skuld­ir sem þýddi að við gát­um tek­ist á við Covid-sam­drátt­inn af krafti. Bet­ur en flest ríki heims, ef marka má út­tekt­ir alþjóðastofn­ana á borð við OECD og AGS. Úrræði stjórn­valda hafa nýst tug­um þúsunda heim­ila og fyr­ir­tækja, þar sem yf­ir­gnæf­andi meiri­hluti seg­ist í viðhorfs­könn­un­um vera ánægður með hvernig til tókst.

At­vinnu­leysi dregst nú sam­an langt um­fram spár, hag­vöxt­ur eykst og af­koma rík­is­sjóðs á fyrstu sex mánuðum árs­ins er tug­millj­örðum betri en áætlan­ir gerðu ráð fyr­ir. Áhrif­in sem öll þessi atriði hafa á okk­ar stöðu og kjör fólks­ins í land­inu eru gríðarleg. Þetta eru hlut­irn­ir sem skipta raun­veru­legu máli.

Það er mik­il­vægt að tala um það sem vel geng­ur, enda er eng­inn skort­ur á fólki sem vill skil­greina verk okk­ar og stefnu. Und­an­far­in ár hef­ur orðið til fjöldi smá­flokka um af­mörkuð stefnu­mál. Þau eru ólík og ná allt frá aðild að Evr­ópu­sam­band­inu yfir í að inn­leiða hér sam­fé­lag sósí­al­isma, í anda ríkja þar sem fólk kepp­ist nú ým­ist við að rísa upp gegn harðstjórn­inni eða neyðist jafn­vel til að flýja.

Þrátt fyr­ir ólík­ar áhersl­ur eiga fram­bjóðend­ur hinna sund­ur­leitu flokka þó marg­ir sam­eig­in­legt að kepp­ast við að skil­greina Sjálf­stæðis­flokk­inn.

Eðli máls­ins sam­kvæmt bíta ut­anaðkom­andi skil­grein­ing­ar okk­ur lítið. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn er lang­stærsta stjórn­mála­afl lands­ins og eina breiðfylk­ing­in sem eft­ir stend­ur. Við erum flokk­ur þar sem ólík sjón­ar­mið og fjöl­breytt­ar radd­ir kom­ast að inn­an hóps sem trú­ir þó all­ur á sömu grund­vall­ar­gild­in. Jöfn tæki­færi um­fram jafna út­komu. Að vera áfram land tæki­fær­anna þar sem frelsi, fram­far­ir og trú á kraft­inn í fólk­inu ræður för. Þar slær okk­ar hjarta.

Þétt­um raðirn­ar

Í dag koma hóp­ar sjálf­stæðis­fólks af öllu land­inu sam­an á fundi fyr­ir til­stilli tækn­inn­ar. Við horf­um svo bjart­sýn fram veg­inn til betri tíma, þar sem fjöldi sjálf­stæðis­fólks mun fyrr en síðar koma sam­an á eig­in­leg­um lands­fundi. Dag­ur­inn í dag er hins veg­ar mik­il­væg varða í bar­átt­unni sem fram und­an er. Þar þétt­um við raðirn­ar, leggj­um lín­urn­ar fyr­ir næstu vik­ur og ræðum mál­in sem verða sett á odd­inn hjá öfl­ug­um og fjöl­breytt­um hópi fram­bjóðenda. Fram­bjóðenda sem á þriðja tug þúsunda sjálf­stæðis­fólks um allt land valdi í próf­kjör­um í vor.

Við mun­um ræða áfram­hald­andi lífs­kjara­bæt­ur, áskor­an­ir á alþjóðavísu, lofts­lags­mál og grænu orku­bylt­ing­una. Stöðug­leika, sterk­ari innviði, sam­göng­ur, skatta, betri rík­is­rekst­ur, sta­f­ræn­ar lausn­ir og um­bæt­ur í líf­eyr­is- og heil­brigðis­kerf­um okk­ar. Áfram mætti lengi telja. Áhersl­an er á raun­hæf­ar lausn­ir, en ekki skýja­borg­ir og út­gjaldalof­orð á kostnað al­menn­ings.

Okk­ur eru all­ir veg­ir fær­ir.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. ágúst 2021.