Björgvin Jóhannesson, frambjóðandi í 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi:
Það er ánægjulegt að sjá að fyrirtæki sem neyddust til að draga saman seglin vegna áhrifa kórónuveirunnar eru nú að eflast og ná fyrri styrk. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa hjálpað þeim að viðhalda ráðningarsambandi við starfsfólk sitt, þótt uppsagnir hafi í mörgum tilfellum því miður verið óumflýjanlegar.
Endurráðningar hafa víða gengið vel en samkvæmt tölum Vinnumálastofnunnar mældist skráð atvinnuleysi í júlí 6,1% eða um 12.500 manns án vinnu. Þetta eru mun hærri atvinnuleysistölur en við erum vön hér á landi og afar mikilvægt að ná þeim niður sem fyrst.
Með 12.500 manns á atvinnuleysisskrá skýtur það nokkuð skökku við að stærsta vandamál margra atvinnurekenda í dag er að fá fólk til starfa. Gildir þá einu hvort um er að ræða störf í ferðaþjónustu, iðnaði eða verslun og þjónustu, um allt land vantar starfsfólk. Afar skiptar skoðanir eru um árangur úrræðisins „Hefjum störf“ og mörg dæmi um að fyrirtæki nái ekki sambandi við fólk á atvinnuleysisskrá, það er ýmist statt erlendis eða hefur einfaldlega ekki áhuga á að þiggja starfið. Rekstraraðilar hafa neyðst til að skerða afgreiðslutíma hjá sér því ekki tekst að manna stöður og atvinnuauglýsingar fá lítil sem engin viðbrögð, þrátt fyrir að í boði séu laun á við tvöfaldar atvinnuleysisbætur. Hvað veldur þessu?
Vissulega geta aðstæður verið mismunandi hjá fólki en vandinn er stærri en svo að hægt sé að líta framhjá heildarmyndinni sem við blasir. Það er áhyggjuefni ef sú hugarfarsbreyting hefur rutt sér til rúms í samfélaginu að taka ekki þeirri vinnu sem býðst hverju sinni. Atvinnuleysisbótakerfið er neyðarúrræði, það er fjármagnað úr sameiginlegum sjóðum og hvatinn til að snúa aftur út á vinnumarkaðinn verður að vera ríkjandi. Ef hann er ekki fyrir hendi er hætt við að atvinnuleysi festist í sessi til lengri tíma litið og erfitt getur reynst að vinda ofan af því.
Það er ábyrgð hvers og eins að nýta sér ekki velferðarkerfin að nauðsynjalausu, það stuðlar að því að fólk sem mætir ofjarli sínum í líki fátæktar eða sjúkdóma fær minni aðstoð en það þarf. Þannig festist samfélagið í vítahring þegar hjálpa á þeim sem minnstan hlut bera úr býtum og á því töpum við öll.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. ágúst 2021.