Við erum öll umhverfisverndarsinnar

Guðrún Hafsteinsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi:

Ég nýt þess að ferðast um landið mitt og al­veg sér­stak­lega að koma á fá­farna staði þar sem hægt er að njóta til­ver­unn­ar og nátt­úr­unn­ar í ró og næði.

Ég lít á mig sem um­hverf­is­vernd­arsinna og reyni af fremsta megni að gera ekk­ert á hlut um­hverf­is­ins. Um­merk­in eft­ir mig eru hverf­andi og helst eng­in, í mesta lagi spor í sandi eða gleym-mér-ei sem hef­ur verið slit­in upp og límd á peysu.

Í sum­ar fór ég um Vest­f­irði og há­lendi Íslands og komst ekki hjá því að velta fyr­ir mér hug­mynd­um um­hverf­is­ráðherra um miðhá­lend­isþjóðgarð og af­leiðing­um þess ef þær yrðu að lög­fest­um veru­leika. Við það vöknuðu marg­ar spurn­ing­ar; hvað á að vernda, fyr­ir hvern og af hverju? Þarf að stöðva ein­hverj­ar fram­kvæmd­ir og þá hverj­ar? Eru deil­ur uppi á milli þjóðlendu­yf­ir­valda og sveit­ar­stjórna sem hags­muna eiga að gæta á há­lend­inu? Ekki hafa þær farið hátt ef ein­hverj­ar eru. Hvað er þá málið?

Ég hitti ís­lenska og er­lenda ferðamenn í sælu­vímu á ferð um há­lendið, flest­ir á vel út­bún­um jepp­um, aðrir á mótor­hjól­um, reiðhjól­um, gang­andi eða jafn­vel ríðandi á hest­um. Velt­ir for­ræðis­hyggju­fólk því fyr­ir sér að banna slíka ferðamennsku í fyll­ingu tím­ans í miðhá­lend­isþjóðgarði? Eða er hug­mynd­in sú að þvæl­ast áfram fyr­ir því að há­lendis­veg­ir fái löngu tíma­bæra end­ur­nýj­un og viðhald og halda þannig fjölda fólks frá því að upp­lifa há­lendið okk­ar?

Í þriðju grein frum­varps um há­lend­isþjóðgarð er sagt að mark­miðið sé meðal ann­ars að „gefa al­menn­ingi kost á að kynn­ast og njóta nátt­úru, menn­ing­ar og sögu þjóðgarðsins“. Hef­ur það verið vanda­mál hingað til?

Í sömu grein er talað um að „auðvelda al­menn­ingi aðgengi að þjóðgarðinum eft­ir því sem unnt er án þess að nátt­úra hans spill­ist“. Hvað þýðir það? Varla vega­gerð. Hvað þá?

Svo á að „stuðla að því að al­menn­ing­ur geti stundað úti­vist inn­an þjóðgarðsins í sátt við nátt­úru og menn­ing­ar­minj­ar“. Hvernig fer það sam­an að vernda um­hverfið með öll­um ráðum en stuðla um leið að því að bæta aðgengi al­menn­ings og fjölga ferðafólki á svæðinu? Hvernig á að standa að þessu og hvar og hvernig koma einka­rek­in ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tæki inn í þjóðgarðsmynd­ina?

Erum við ein­hverju bætt­ari með nýju op­in­beru stjórn­sýslu­bákni? Er ekki um­sýsla miðhá­lend­is okk­ar ein­fald­lega í fínu lagi? Mörg­um spurn­ing­um er ósvarað og sem bet­ur fer var há­lend­is­frum­varpið lagt í salt á Alþingi. Þar er margt sem þarf að breyt­ast og að óbreyttu fer vel á því að þingskjalið liggi áfram í salt­pækli.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. ágúst 2021.