Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:
Nýafstaðið útboð á hlutabréfum í Íslandsbanka samhliða skráningu bankans tókst vel. Markviss undirbúningur, vönduð vinnubrögð og hagstæð ytri skilyrði tryggðu að ríkið náði öllum sínum helstu markmiðum um dreift eignarhald, aðkomu almennings og gott verð. Eftirspurnin var mikil og eignin seldist vel yfir bókfærðu verði ríkisins.
Frá skráningunni hefur markaður með bréf í félaginu hækkað töluvert. Það er ánægjulegt, ekki síst fyrir ríkið, sem enn heldur á 65% hlut í bankanum. Skráningin ein og sér hefur þannig ekki bara tryggt áhuga og eftirspurn langt umfram væntingar, heldur einnig aukið verðmæti þessarar eignar ríkisins um tugi milljarða. Það má því með sanni segja að mikill kraftur hafi verið leystur úr læðingi með því að ríkið sleppti hendi af þessum eignarhlut.
Í aðdraganda útboðsins heyrðust sterkar úrtöluraddir, einkum af vinstri vængnum. Sagt var að tímasetningin væri óheppileg í ljósi efnahagsástandsins, eftirspurn myndi láta á sér standa, óvissa um ýmsa þætti myndi draga niður verðið og loks ætti alfarið eftir að endurskipuleggja fjármálakerfið. Af þessum sökum ætti að bíða með söluáform.
Það ber minna á þessum fullyrðingum nú, eftir stærsta frumútboð Íslandssögunnar. Um tveimur vikum eftir að verðbil í útboðinu lá fyrir reyndu stjórnarandstæðingar þó að smíða nýja sögu; Verðið hefði verið of lágt. Ekki nóg með það, heldur hefðu „hinir ríku“ makað krókinn á viðskiptunum. Þetta stenst ekki skoðun, frekar en fyrri fullyrðingar um málið, sem m.a. komu fram í umræðum um söluna á Alþingi í janúar.
Banki almennings
Bankinn er stærsta skráða almenningshlutafélag landsins og hluthafar á þriðja tug þúsunda. Þátttaka almennings var veruleg að auki við trausta erlenda og innlenda fagfjárfesta, en hægt var að kaupa hluti fyrir allt niður í fimmtíu þúsund krónur. Þeir einu sem engum skerðingum á tilboðum sættu voru þeir sem keyptu fyrir milljón eða minna. Aðrir fengu mun minna en þeir sóttust eftir.
Sá sem hefði spáð því verði sem fékkst fyrir eignarhlut ríkisins á fyrstu dögum ferlisins hefði þótt bjartsýnn. Niðurstaðan er góð, hvort sem borið er saman við bókfært verð bankans, útboðsgengi Arion banka eða sambærilega erlenda banka.
Því má svo ekki gleyma að með sölunni var dregið úr umsvifum ríkisins á markaðnum. Í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið frá 2018 kom vel fram hve óæskilegt er að sami aðili, ríkið, sé ráðandi á fjármálamarkaði. Betur fari á því að ríkið dragi úr umsvifum sínum og skapi þannig heilbrigðara samkeppnisumhverfi. Í þessum anda hefur eigendastefna verið uppfærð og gert ráð fyrir sölu á öllum hlutum í Íslandsbanka, en að ríkið verði áfram eigandi verulegs eignarhlutar í Landsbankanum.
Hvítbókin var að öðru leyti góður grunnur fyrir umræðu um fjármálamarkaðinn og framtíðina. Þar fékkst gott yfirlit yfir breytingar á regluverki sem átt hafa sér stað en einnig ábendingar sem fylgt var eftir fyrir útboðið, svo sem um takmörkun áhættu vegna fjárfestingabankastarfsemi.
Ríkið þarf ekki að reka allt
Samkeppnisumhverfi fjármálafyrirtækja tekur um þessar mundir örum breytingum samhliða tækniþróun og tilkomu fjártæknifyrirtækja. Ríkið er hvorki vel til þess fallið að leiða þá þróun né ætti það að bera alla áhættuna sem fylgir. Betur fer á því að aðrir undirbúi og leiði, marki stefnu fyrir þessa nýju tíma sem við okkur blasa. Salan er stórt og mikilvægt skref í þá átt.
Mikilvægt er að gjalda varhug við málflutningi stjórnmálamanna sem segja að ríkið eitt geti átt og rekið alla skapaða hluti. Í slíkri afstöðu felst skýr yfirlýsing um að fólki úti í samfélaginu sé síður treystandi til að fara með rekstur, eignir og fjármuni en stjórnvöldum. Á endanum þýðir það ekkert annað en að stjórnmálamennirnir treysta sjálfum sér betur en öðru fólki til að gera flest það sem máli skiptir.
Þótt ríkið hafi mikilvægu hlutverki að gegna á mörgum sviðum fer mun betur á því að stjórnvöld setji leikreglurnar, en veiti fólki frelsi til að taka ákvarðanir um rekstur, áhættu og ráðstöfun eigna. Með trú á fólk og framtakssemi byggjum við kraftmikið og samkeppnishæft samfélag sem eftirsóknarvert er að búa í.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. júlí 2021.