Guðrún Hafsteinsdóttir skipar 1. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fyrir komandi kosningar til Alþingis. Guðrún kom ný inn í pólitíkina í vor með þátttöku í prófkjöri flokksins í Suðurkjördæmi og hún er gestur Ingvars P. Guðbjörnssonar í Pólitíkinni í þessari viku. Þáttinn má nálgast hér.
Í þættinum ræðir Guðrún um sínar áherslur og um þær áherslur sem sjálfstæðismenn í Suðurkjödæmi ræddu helst í nýliðinni prófkjörsbaráttu, en þar voru heilbrigðismál, atvinnumál, samgöngumál og hugmyndir um hálendisþjóðgarð helstu málin.
Í heilbrigðismálum nefndi Guðrún að fólk í Suðurkjördæmi kalli á að aðgengi að heilbrigðisþjónustu verði til jafns við það sem best gerist. Mikilvægt sé að auknum mannfjölda fylgi aukin heilbrigðisþjónusta, s.s. á Suðurnesjum. Að valfrelsi verið aukið í heilbrigðisþjónustu, m.a. með einkarekinni heilbrigðisþjónustu til hliðar við núverandi þjónustu. Þá þurfi að tryggja þeim sem búa fjærst höfuðborginni eða við óstöðugar samgöngur, s.s. á Höfn og í Vestmannaeyjum, viðunandi heilbrigðisþjónustu m.a. með fæðingarþjónustu í Eyjum.
Guðrún nefndi m.a. að það þyrfti að klára Reykjanesbrautina og nýja brú yfir Ölfusá. Þá þurfi að tryggja stöðugar samgöngur við Vestmannaeyjar og aukið öryggi í samgöngum austur á Höfn með tvíbreiðum brúm m.a. á Hornafjarðarfljót.
Varðandi þjóðgarðshugmyndir segir Guðrún að fólk í Suðurkjördæmi sé almennt á móti þeim hugmyndum sem fram hafi komið í frumvarpi umhverfisráðherra. En að fólk sé ekki almennt á móti þjóðgörðum. Það megi m.a. stækka Vatnajökulsþjóðgarð og bæta umgjörðina. En ekki eigi að draga úr framtaki einstaklinga m.a. við uppgræðslu o.fl. og að hún sjálf sé algjörlega á móti því að taka 40-50% landsins undir þjóðgarð. Það eigi að skoða svæði sérstaklega út frá verndarþörf þegar stærðarmörk séu ákveðin.
Þegar atvinnumálin voru rædd nefndi Guðrún að atvinnurekendur kvarti m.a. yfir mikilli eftirlitsskyldu, að umhverfið sé þungt, skattar of háir o.fl. Að það sé nauðsynlegt að byggja upp flutningskerfi raforku til að atvinnulíf geti blómstrað, m.a. með Suðurnesjalínu 2. Um tækifærin nefndi hún m.a. að það þurfi að nýta hugvit fólks - hugvitið sé óþrjótandi auðlind. Þá sagði hún að stjórnmálamenn eigi ekki að flækjast fyrir. Þeirra hlutverk sé fyrst og síðast að búa til umhverfi þannig að fólk með hugmyndir geti látið drauma sína rætast án óþarfa hindrana.
„Komandi kosningabarátta leggst rosalega vel í mig vegna þess að stemningin í Suðurkjördæmi er rosalega góð,“ sagði Guðrún í lok viðtalsins sem einnig má finna hér að neðan á YouTube: