Hvað eru margir Fossvogsskólar í Reykjavík?

Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi:

Undanfarinn þrjú ár hafa margir foreldrar barna í Fossvogsskóla orðið að horfa á eftir börnum sínum fara í skólann, vitandi það að líklega er ástæða veikinda þeirra skólahúsnæðið. Nokkrir tugir barna sem gengið hafa í Fossvogsskóla hafa veikst á síðustu þremur árum. Foreldrarnir höfðu ekkert val því það er skólaskylda á Íslandi, þau urðu að senda börn sín í skólann. Það er á ábyrgð Reykjavíkurborgar að tryggja börnum heilnæmt skólahúsnæði og það hefur ekki tekist í Fossvogsskóla, þrátt fyrir að gríðarlegu fjármagni hafi verið varið í viðgerðir með tilheyrandi raski fyrir nemendur, starfsfólk og alla aðstandendur.

Nú er komið í ljós að húsnæði Fossvogsskóla er það illa farið af raka og myglu að endurnýja þarf það nánast frá a til ö.  Að við séum í þessari stöðu núna er algerlega óásættanlegt

Ábyrgðin liggur hjá meirihlutanum í borgarstjórn

Þarna bera ekki embættismenn ábyrgðina heldur kjörnir fulltrúar,  þeir verða að svara fyrir þessi vinnubrögð og axla ábyrgð á stöðunni. Þessi staða er þvert á það sem hefur verið sagt þau 3 ár sem málið hefur verið á borði kjörinna fulltrúa. Þar hefur verið sagt að viðgerðir hafi verið fullnægjandi og að skipt hafi verið um allt skemmt efni, því var jafnvel haldið fram að sú mygla sem var að finnast í skólanum seint á síðasta ári væri að koma að utan. Þá þarf að taka til sérstakrar skoðunar vinnubrögð Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem hefur eftirlit með hollustuháttum í Reykjavík og fer í vettvangsferðir einu sinni á ári í skóla borgarinnar. Heilbrigðiseftirlitið gaf Fossvogsskóla fjóra af fimm í einkunn í nóvember 2018 sem þýðir að kröfur hafi verið uppfylltar en einhverjar ábendingar hafi verið gefnar. Engar þeirra voru sérstaklega vegna raka. Það var fjórum mánuðum áður en skólanum var fyrst lokað. Það þarf að fara í saumanna á því hvers vegna húsnæði sem núna þarf að endurnýja að mestu leiti getur fengið þessa góðu umsögn hjá Heilbrigðiseftirlitinu. Ef Fossvogsskóli fékk þessa góðu einkunn og það er Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur sem sér um að taka út leik- og grunnskóla í Reykjavík, hvað eru þá margir Fossvogsskólar í Reykjavík?

Er áfram verið að breiða yfir staðreyndir

Þegar nú er talað um að Fossvogsskóli sé uppfærður miðað við nútímakröfur, þá finnst mér eins og sé verið að reyna að breiða yfir þá staðreynd að meirihlutinn í Reykjavík hefur algerleg brugðist börnum, starfsfólki og aðstandendum þeirra. Núna hefði  átt að senda út fréttatilkynningu þar sem harmað er að ekki hafi verið rétt brugðist við í Fossvogsskóla og unnið verði mun þéttar með foreldrasamfélaginu í Fossvogi sem vissulega er í sárum eftir þessi 3 ár.  Ekki er ásættanlegt að kenna nemendum úr Fossvogsskóla allt næsta skólaár í húsnæði í Grafarvogi sem rúmar aðeins um 170 börn en nemendur Fossvogsskóla eru um 350.  Það er mikilvægt að fundin sé betri lausn fyrir næsta skólaár. Það aðgerðarleysi og vandræðagangur sem hefur verið frá fyrsta degi í málinu er til skammar og við eigum að læra af því og gæta þess að hlutirnir endurtaki sig ekki.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. júní 2021.