Stelpur geta allt!
'}}

Katrín Atladóttir, borgarfulltrúi:

Haustið 2019 voru hjól­reiðar 7% af öllum ferðum borgarinnar. Karlar og strákar fóru 10% ferða sinna á hjóli en konur og stelpur einungis 4%. Þessi munur er til staðar á öllum aldurs­bilum. Drengir 6-12 ára fara 31% ferða á hjóli en stelpur 17%. Þessi munur sna­reykst svo í aldurs­hópnum 13-17 ára þar sem strákar fara 17% ferða á hjóli en stúlkur bara 2%! Þetta má sjá glögg­lega í borginni, það sjást oft stráka­hópar á hjólum að þvælast á milli staða en síður stelpu­hópar.

Þessi munur vakti at­hygli okkar í stýri­hóp um nýja hjól­reiða­á­ætlun Reykja­víkur. Við viljum sjá jafnari hlut­deild ferða milli kynja. Betri hjóla­borg eykur lífs­gæði allra borgar­búa. Loft­gæði verða betri, í­búar verða heilsu­hraustari og tafir í bíla­um­ferð verða minni. Frelsi til að ferðast Þegar börn læra að hjóla og þegar við sleppum af þeim takinu þegar þau byrja í skóla stækkar heimurinn þeirra marg­falt. Á hjóli komast þau lengra og hraðar yfir en á fæti og það verður minni þörf fyrir skutl. Börn sem hjóla eða ganga til skóla ein­beita sér betur og sýna að meðal­tali betri árangur í námi sínu. Fyrir utan hvað er gaman að hjóla, láta vindinn leika um and­litið og fá blóðið smá á hreyfingu. Því­líkt frelsi!

Hvað veldur því að stelpur hjóla síður en strákar? Konur 25-44 ára eru helmingi ó­lík­legri til að hjóla en karlar. Stelpur hafa því síður fyrir­mynd í mæðrum sínum. Höfða hjól­reiðar síður til stelpna? Eru for­eldrar síður að hvetja þær til hjól­reiða? Eru hjól ætluð stelpum ekki eins þægi­leg og góð og hjól sem eru ætluð strákum? Eru þau þyngri eða með færri gíra? Hafa þær á­hyggjur af því að hjálmurinn rugli hárinu á þeim?

Raf­hjólum fjölgar hratt og þá skipta brekkur og rok síður máli við val á sam­göngu­máta. Einnig hefur notkun á raf­hlaupa­hjólum aukist. Gætu raf­hjól aukið á­huga kvenna á hjól­reiðum? Þetta eru spurningar sem við ættum öll að spyrja okkur. Ég hvet for­eldra til að efla stelpurnar sínar til hjól­reiða, það er ekkert sem segir að stelpur geti ekki hjólað, því stelpur geta allt!

Fréttablaðið, 19. maí. 2021