Bjarni Benediktsson var gestur markaðarins á Hringbraut þann 12. maí þar sem meðal annars var rætt um nýlega herferð Alþýðusambands Íslands í tengslum við dag verkalýðsins 1. maí. Yfirskrift herferðarinnar var „Það er nóg til“ en Bjarni setur spurningamerki við herferðina og vísar þeirri fullyrðingu á bug.
„Ég sé því núna því haldið fram að það sé nóg til. Það var yfirskriftin í kringum 1. maí. Í fjármálaráðuneytinu sé ég að það er alls ekki nóg til. Það vantar 300 milljarða á ári, til þess að það sé nóg til. Til þess að það verði nóg til þá þarf að auka umsvifin og passa upp á að það verði til verðmæt störf,“ segir Bjarni. Bendir hann á að til að hagvöxtur verði á ný sé mikilvægt að halda rétt á spöðunum í efnahagsmálum.