Dýrkeypt samstarf
'}}

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:

Borgarstjórinn heldur því fram að hröð kólnun í hagkerfinu á fyrri hluta ársins hafi leitt til lækkunar tekna. Staðreyndin er sú að tekjur Reykjavíkurborgar hækkuðu um 6 milljarða á síðasta ári, þrátt fyrir allt. Reykjavíkurborg er með skatta í botni og glímir ekki við tekjuvanda. Vandi borgarinnar er útgjaldavandi sem ekki sér fyrir endann á.  Af fjórum stærstu sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu er aðeins eitt þeirra rekið með tapi; Reykjavíkurborg.

Töldu ferðamenn til útgjalda

Í upphafi síðasta árs lét borgarstjórnarmeirihlutinn reikna fyrir sig kostnað vegna komu erlendra ferðamanna. Eins og almenn skynsemi segir okkur, var mikill ábati af ferðaþjónustunni fyrir landsmenn alla. Ekki síst Reykjavíkurborg. En stundum er almenn skynsemi ekki almenn. Samkvæmt minnisblaði taldist borgin tapa átta milljörðum á ári af komu ferðamanna. Miðað við þetta ætti að vera verulegur hagnaður af því að ferðamenn væru ekki lengur að koma til okkar. Lísa í Undralandi hvað?

112 milljónir á dag 

Heildarskuldir Reykjavíkurborgar eru nú 386 milljarða og hafa aldrei verið hærri. Skuldir borgarinnar jukust um 41 milljarð króna á síðasta ári, eða sem nemur 3.400 milljónum í hverjum mánuði. Þetta samsvarar 112 milljónum á degi hverjum. Alla daga ársins. Í upphafi kjörtímabilsins var uppgreiðslutími skulda 6 ár og hefur hann nú tvöfaldast á tveimur árum þrátt fyrir stórauknar tekjur. Þetta dæmi sýnir glöggt að núverandi meirihlutasamstarf fjögurra flokka kostar sitt. Reikningurinn er kominn og hann er hár. Hlutverk borgarinnar er aðeins eitt. Það er að þjóna íbúunum. Eyða ekki um efni fram og forgangsraða fjármunum.

Það er líkt og meirihlutinn hafi misst verðskynið. Nú á að fjárfesta í malbikunarstöð. Og setja 4.500 milljónir í að gera breytingar á Grófarhúsinu við Tryggvagötu. Væri ekki nær að létta byrðar fólksins í borginni og þrengja ekki að rekstri fyrirtækja og ferðum fólks?

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. maí 2021