Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:
Íslenskum bændum er nú heimilt að slátra sauðfé og geitum á sínum búum og dreifa á markaði en slík framleiðsla og dreifing hefur hingað til verið óheimil. Reglugerð sem ég undirritaði í gær gerði þessa grundvallarbreytingu á starfsumhverfi sauðfjárbænda og opnar mikilvæg tækifæri til að efla verðmætasköpun og afkomu þeirra til framtíðar.
Tímabær breyting
Undanfarin ár hefur verið vaxandi ákall frá íslenskum bændum um að þeim verði gert kleift að slátra sauðfé á sínum búum til dreifingar á markaði. Ég hef verið áfram um að verða við þessu sjálfsagða ákalli. Undanfarin tvö ár hefur átt sér stað umfangsmikil vinna í mínu ráðuneyti í samráði við bændur og Matvælastofnun við að leita leiða til að heimila þessa framleiðslu.
Síðastliðið sumar undirrituðum við formaður Landssamtaka sauðfjárbænda samkomulag um tilraunaverkefni um heimaslátrun. Verkefnið gekk vel og voru niðurstöður úr sýnatökum bænda góðar, en fjareftirlit var erfiðleikum bundið. Í reglugerðinni sem ég undirritaði í gær er því kveðið á um að dýralæknar sinni heilbrigðisskoðunum bæði fyrir og eftir slátrun. Með þessu fyrirkomulagi er tryggt að uppfyllt verða öll skilyrði um matvælaöryggi og gætt að dýravelferð og dýraheilbrigði. Til að liðsinna bændum við að grípa þau tækifæri sem þessi breyting hefur í för með sér mun kostnaður vegna þessa eftirlits greiðast úr ríkissjóði.
Tækifæri til að styrkja afkomu bænda
Með þessari breytingu er stuðlað að frekari fullvinnslu beint frá býli, vöruþróun, varðveislu verkþekkingar og menningararfs við vinnslu matvæla. Þá skapast tækifæri fyrir bændur að markaðssetja afurðir sínar á grundvelli sinnar sérstöðu til hagsbóta fyrir neytendur. Þessi breyting markar því tímamót og felast í henni tækifæri til að styrkja verðmætasköpun og afkomu bænda fyrir næstu sláturtíð og til framtíðar.