Egill Þór Jónsson, borgarfulltrúi:
Samgöngubætur hafa setið á hakanum í Reykjavík síðastliðinn áratug og eðli málsins samkvæmt er uppsöfnuð fjárfestingarþörf í vegakerfinu orðin mjög mikil. Þetta er tilkomið vegna svokallaðs samnings um framkvæmdastopp, sem var pólitísk ákvörðun á sínum tíma, og fól í sér að vegafé sem ríkið hefði annars varið til uppbyggingar vegakerfisins í Reykjavík var eingöngu varið í rekstur Strætó. Markmiðið var að fjölga þeim sem notuðu strætó úr 4% í 8% en það tókst ekki.
Afleiðingar framkvæmdastoppsins voru aukin umferð, aukinn tafatími, fleiri slys og meiri mengun. Þessari þróun er nú nauðsynlegt að snúa við enda er þjóðfélagslegur kostnaður slysa og tafa í umferð metinn á tugi milljarða.
Í þessu samhengi hafa borgaryfirvöld kynnt íbúum höfuðborgarsvæðisins hina einu sönnu lausn við þessum sjálfskapaða vanda: Borgarlínuna. Hundraða milljarða króna þungt strætókerfi með miklum rekstrarkostnaði sem þrengir að öðrum samgöngumátum og er mjög flókið í framkvæmd. Þá er ekki hægt að láta hjá líða að nefna að spálíkön um notkun þessa kerfis eru óraunhæf og því ólíklegt að þau gangi eftir, en einmitt þess vegna hefur hljómgrunnur meðal efasemdafólks um borgarlínu aukist jafnt og þétt.
Nú hefur verið kynnt til sögunnar svokölluð léttlína eða BRT-lite kerfi, sem nær fram sambærilegum árangri og borgarlínan og er auk þess mun einfaldari, fljótvirkari og hagkvæmari í framkvæmd. Á sama tíma og kostir og gallar borgarlínu eru í umræðunni er nauðsynlegt að skoða þessa leið sem er hófstilltari og mögulega jafngóð eða betri.
Útfærslan um léttlínuna er mörgum tugum milljarða ódýrari en kostnaðurinn við hana er talinn 15-25 milljarðar króna. Þá er gert ráð fyrir sérakreinum hægra megin á veginum á þeim vegköflum þar sem þörf þykir og álagspunktar eru miklir. Þannig þrengir hún ekki að öðrum samgöngumátum. Flækjustig skipulagsmála er lítið sem ekkert og því hægt að hefjast handa strax. BRT-lite kerfið eða Léttlínan gæti því verið fullbúin á 4-5 árum í stað þess að bíða til ársins 2040 – en ráðgert er að borgarlínan verði fullbúin um það leyti.
Samhliða léttlínu munum við sjá fleira fólk sem fer ferða sinna hjólandi og gangandi í umferðinni, sveigjanlegra vinnuumhverfi í kjölfar Covid og bætta ljósastýringu. Með þessum hætti er hægt að ná frábærum árangri með margfalt minni tilkostnaði. Niðurstaðan verður öflugt og skilvirkt samgöngunet á höfuðborgarsvæðinu.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. apríl 2021.