Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdastjóri viðburða hjá Senu, var gestur Ingvars P. Guðbjörnssonar í Pólitíkinni í þessari viku. Þáttinn má nálgast hér.
Í þættinum ræddu þeir um hvernig er að reka viðburðafyrirtæki á tímum covid, um þær áskoranir sem slíku fylgja, um úrræði stjórnvalda og hvernig þau hafa gagnast fyrirtæki eins og Senu, hvernig Sena hefur hugsað út fyrir boxið og komið fram með fjarárshátíðir og streymistónleika á borð við Jólagesti Björgvins, jólatónleika Bubba Morthens o.fl.
Ísleifur segist ánægður með úrræði stjórnvalda og að þau hafi gagnast fyrirtækinu mjög vel. Spurður að því hvað mætti gera betur segist hann ekki geta kvartað yfir neinu. Úrræðin hafi skipt öllu máli fyrir fyrirtækið.
„Þetta er að virka. Fólk er ótrúlega þakklátt fyrir þetta“, segir Ísleifur um fjarviðburði sem hafi heppnast gríðarlega vel. Hann segir að mörg þúsund fleiri hafi horft á Jólagesti Björgvins í ár en vanalega þegar viðburðurinn hafi takmarkast við 6-8.000 gesti í sal. Streymistónleikar séu komnar til að vera þó svo að ekkert komi í staðin fyrir alvöru tónleika.