Vilhjálmur Bjarnason, varaþingmaður:
Það er áleitin spurning hvort frjálsborinn maður geti haft vald á eigin málum. Þannig eru mannréttindi fólgin í því að hver fái að vera svo heimskur sem hann vill. Það eru mannréttindi að taka lán og það eru mannréttindi að eiga frjálsan sparnað. Það er stjórnarskrárbundin skylda að stjórnvöld geri þegnum sínum kleift að vernda verðgildi frjáls sparnaðar.
Það kann að vera að umboðslausir verkalýðsrekendur geti tekið sér vald til að ákveða lánskjör annarra en ég frábið mér afskipti verkalýðsrekenda af mínum lánamálum. Það er skerðing á mínum mannréttindum.
Enn frekar sem aldur færist yfir mig, að lánstími á mínum lánum eigi að laga sig að duttlungum þessa umboðslausa fólks. Vandi verkalýðsrekenda er sá að þegar þeir byrja að ljúga af vanþekkingu sinni og fara með bull og fleipur, þá er erfitt að segja satt á eftir.
Áleitin spurning
Það er einnig áleitin spurning á hvern veg verkalýðsrekendur í einu stéttarfélagi geta ákveðið lánskjör félaga í öðru og óskyldu stéttarfélagi, eða þeirra sem standa utan stéttarfélaga. Af hverju á mannvitsbrekkan forseti ASÍ að ákveða lánskjör hjá félaga í BSRB eða BHM? Er félögum í BSRB og BHM of gott að vera fífl, ef svo ber undir! Hvern varðar slíkt?
„Rétt eiga menn á að stofna stéttarfélög og stéttarfélagasambönd í þeim tilgangi, að vinna sameiginlega að hagsmunamálum verkalýðsstéttarinnar og launtaka yfirleitt.“ Svo er það orðað í vinnulöggjöfinni. Það felur ekki í sér að verkalýðsrekendur geti tekið sér vald til hagstjórnar á heimilum.
Hvað með lánasamninga?
Lán er samningur milli tveggja aðila, lánveitanda og lántaka. Báðir aðilar lánasamningsins bera réttindi og skyldur. Að auki gilda almennt samþykktar reglur margföldunar og deilingar þar sem breytistærðirnar eru:
• Höfuðstóll og gjaldmiðill
• Lánstími í dögum, mánuðum eða árum
• Gjalddagar og skilmálar.
• Vextir, eða ávöxtun á ári
• Dýrleiki láns er metinn af ávöxtun
Ef vextir eru breytilegir, þá er eðlilegt að breytileikinn sé ekki ákvarðaður af lánveitandunum án ytri tilvísunar.
Það er ástæða til að staldra við hugtakið vexti. Vextir eru gjald fyrir afnot af fjármagni. Gjaldið tekur mið af almennu vaxtastigi á fjármálamarkaði, áhættulausum vöxtum, áhættu og verðbólgu. Að auki eru nokkrir aðrir þættir sem skipta takmörkuðu máli.
Hinir áhættulausir vextir eru taldir vera vextir á lánum sem ríkissjóður tekur. Áhætta tekur mið af greiðslugetu og aðstæðum lántaka. Verðbólga er sú sama, hvort heldur ríkissjóðir, fyrirtæki eða einstaklingar eiga í hlut.
Vaxtakjör og verðtrygging
Algengasti breytileikinn í vaxtakjörum er verðbólga.
Vaxtakjör allra lána taka mið af verðbólgu. Orðfærið á íslenskum fjármálamarkaði er með því vitlausasta sem um getur. Enda engum of gott að vera heimskur!
Lán þar sem vaxtakjör eru ákvörðuð með hlutlægri mælingu verðbólgu eru talin „verðtryggð“. Lán þar sem breytileiki vaxta er ákvarðaður af lánveitanda eru talin „óverðtryggð“!
Allt tal um „óverðtryggð“ lán er þvæla úr munni lýðsleikja og rugludalla.
Algengasta dæmi um verðtryggingu eru lán á áfengi yfir helgi þar sem endurgreiða á með sams konar áfengi. Verðbreyting á áfengi yfir helgi hefur engin áhrif á það hve miklu áfengi skuli skilað.
Umboðsvandi lánveitanda
Lántaki getur ekki ætlast til að lánveitandi gangi á rétt umbjóðenda sinna um sameiginlegan sparnað til lífeyris, að endurgreiðsla lánsins rýri rétt umbjóðendanna, væntanlegra lífeyrisþega, um væntan lífeyri vegna skyldubundins sparnaðar. Þá er forsenda fyrir skylduaðild að lífeyrissjóðum brostin.
Það hefur enginn heimild til að úthluta annarra manna gæðum að geðþótta.
Frumvarp um lánstíma
Fjármála- og efnahagsráðherra lætur sig hafa það að bera fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um „vexti og verðtryggingu“ nr. 38/2001.
Frumvarpið virðist fram borið til að standa við fyrirheit í einhvers konar samkomulagi „aðila vinnumarkaðarins“. Ég er á vinnumarkaði og ég hef aldrei framselt til nokkurs aðila rétt minn til að ákvarða sjálfur lánstíma á lánum mínum, sem ég geri með samkomulagi við lánveitanda minn. Ég óska aðeins eftir því að lánveitandi minn bjóði sanngjarnan og viðráðanlegan lánstíma. Ef ég vil taka lán til 40 ára til bílakaupa, þá er það mitt mál. Það er mál lánveitandans að veð til tryggingar láninu haldi verðgildi sinu sem veðtrygging út lánstímann.
Ef lánveitandinn veitir mér þá sanngirni að heimila mér að greiða aukagreiðslur eftir efnum mínum og ástæðum, þá þarf ég ekki að lúta duttlungum verkalýðsrekenda um lánstíma.
Aldurstengdur lánstími
Svo á að aldurstengja lánstíma. Hvað með aldurstengda mismunun?
Þeir sem eldri eru þurfa að lúta kröfum verkalýðsrekenda um styttri lánstíma en þeir sem eru ungir! Hvað segja Samtök aldraðra um slíka forsjárhyggju og ofstopa? Sá er þetta ritar hefur alltaf álitið það upphaf allrar vellíðunar að vera ekki að skipta sér af því hvert aðrir ætla og hvað aðrir gera. Og svo er hverjum manni alls ekki of gott að vera svo heimskur sem hann vill! Vitsmunir verkalýðsrekenda bæta þar engu um.
Þar sem alla virðist varða svo mjög um þjóðarhag, þá er rétt að benda á að jöfn greiðslubyrði á löngum tíma veldur ekki sveiflum á fjármálamarkaði. Það er ört vaxandi hópur sem hefur einstakan áhuga á peningastefnu Seðlabankans og framkvæmd hennar!
Ef til vill er ætlan ríkisstjórnarinnar að hækka andlag til erfðafjárskatts. Aldurstenging bætir ekki velferð eldri borgara. Skuldir eða skuldleysi er ákvörðun einstaklingsins en ekki ráðherra eða verkalýðsrekenda.
Áhrif á greiðslubyrði
Greiðslubyrði lána tekur mið af lánstíma. Því styttri lánstími, því þyngri greiðslubyrði. Það kann að verða sæla eftir að endurgreiðslu lýkur. Verkalýðsrekendur, forsætisráðherra og fjármálaráðherra varðar ekkert um það hvenær þegnar njóta sælu. Það kann að vera að einhverjir vilji dreifa sælunni á langan tíma, án afskipta annarra. Það er gert með löngum lánstíma.
En þá má einnig spyrja: Hafa lánveitendur skaðað umbjóðendur sína með löngum lánstíma til lántaka? Þeim er þetta ritar er ekki kunnugt um neina slíka rannsókn. Í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja kemur slíkur skaði ekki fram. Seðlabankinn kannast ekki við nein áhrif lánstíma á virkni peningamálastefnu.
Og hefur hver sem er ekki leyfi til að vera skynsamari en í fyrra?
Ólíkindi
Það er með miklum ólíkindum að fjármála- og efnahagsráðherra skuli bera fram á vettvangi Alþingis það frumvarp, sem hér til umræðu. Samtöl ráðherra við verkalýðsrekendur geta aldrei bundið vilja Alþingis. Sérstaklega þegar samtalið varðar að mestu aðra en þá sem verkalýðsrekendur þykjast hafa umboð fyrir. Verkalýðsrekendur geta aðeins samið um kaup og kjör, og þrifnað á vinnustöðum. Önnur mál geta verið umræðuefni til ábendingar.
Efni frumvarpsins felst að mestu í afnámi mannréttinda hjá heiðvirðu fólki, þar sem samingar heiðvirðs fólks hafa dugað.
En eins og skáldið segir í Kraftbirtingarhljómi guðdómsins: „Öll skáld eru helvítis ræflar og óbótamenn, nema hann Hallgrímur heitinn Pétursson.“
Gleðilega páska!
Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. mars 2021.