Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi:
„Hefði ég spurt hvað fólkið vildi, hefði það beðið um hraðskreiðari hesta“. Svohljóðandi er þekkt tilvitnun í frumkvöðulinn Henry Ford sem kynnti almenningi fyrstu fjöldaframleiddu bifreiðina. Tækninýjungin mætti þónokkurri andstöðu. Bílar þóttu hávaðasamir, mengandi og plássfrekir. Fljótlega varð fólki þó ljóst að hestar væru ekki besti fararskjótinn. Ferðamynstur breyttist, bíllinn færði fólki aukið frelsi og helstu borgir heims byggðu þéttriðin samgöngukerfi fyrir bíla.
Árið 1966 birti Lesbók Morgunblaðsins grein þar sem lesendum var boðið að skyggnast inn í Reykjavík framtíðar. Horft var til þess tíma þegar Aðalskipulag Reykjavíkur 1962-1983 myndi verða fullframkvæmt. Það byggði á ríkjandi viðhorfum sjöunda áratugarins þar sem skipulag borga tók aðallega mið af þörfum hinnar byltingarkenndu einkabifreiðar. Greinarhöfundur sá fyrir sér nútímalega höfuðborg, með fullkomnu hraðbrautakerfi, skipulögðu fyrir bílaumferð. Miðborginni yrði gjörbreytt og gömul hús myndu víkja fyrir vegasamgöngum. Bílaborgin Reykjavík myndi verða til.
Samgöngur fyrir suma
Á dögunum steig fram hópurinn Áhugafólk um samgöngur fyrir alla og kynnti hugmyndir að bættum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Hugmyndirnar eru settar fram með ítarlegum rökstuðningi en minna þó eilítið á áratuga tímaflakk. Telur hópurinn hið 60 ára gamla hraðbrautaskipulag höfuðborgarsvæðisins hafa staðist allar væntingar en hefði viljað sjá áður áformaða hraðbraut gegnum Fossvogsdalinn. Þá telur hópurinn ekki æskilegt að færa bílaumferð neðanjarðar. Breiðari akvegir og fjöldi mislægra gatnamóta verði betri kostur.
Hópurinn leggst jafnframt gegn áformum um Borgarlínu en kynnir til sögunnar svokallaða Borgarlínu Lite – metnaðarlausa útgáfu af hinu fyrirhugaða hágæða almenningssamgöngukerfi. Borgarlínu Lite tilheyra færri sérakreinar, lengri biðtími og verri þjónusta. Hún er hvorki byltingarkennd né nýstárleg hugmynd. Hún hefur áður verið fullrannsökuð og þótti ekki standast gæðakröfur.
Tillögur hópsins taka aðeins mið af þörfum þeirra sem vilja ferðast með bíl. Þær taka mið af þeirri bílaborg sem tók að þróast hérlendis kringum 1960. Þær taka ekki mið af því að íbúum höfuðborgarsvæðisins hefur fjölgað um 125% á síðustu sextíu árum. Þær taka mið af ríkjandi viðhorfum sjöunda áratugarins, en ekki ríkjandi viðhorfum samtímans. Sérfræðingarnir segja hins vegar áherslur sínar – á meira malbik og samgöngur fyrir suma – til þess fallnar að ná auknum ávinningi.
Hvernig metur maður ávinning?
Við innleiðingu breytinga á borgarskipulagi er mikilvægt að kanna ávinning í víðara samhengi. Tillögur sérfræðinganna meta hins vegar aðeins ávinninginn af því að aka bifreið hratt milli ólíkra borgarhluta. Þær meta ekki ávinninginn af því að ferðast með öðrum hætti. Hópurinn metur ekki ávinninginn af því að búa í borgarhverfi þar sem gott er að dvelja, heldur aðeins ávinninginn af því að búa í borgarhverfi sem gott er að yfirgefa.
Borgarlínan og samhliða stokkalausnir, munu leiða af sér margvíslegan ávinning fyrir gangverk og ásýnd borgarinnar. Þær munu tryggja mannvænna umhverfi, heildstæðari borgarhverfi og fjölbreyttari valkosti. Lausnirnar eru liður í eðlilegu þroskaferli Reykjavíkurborgar – enda einkenni þróaðra borga ekki að hinir efnaminni ferðist með bíl, heldur að hinir efnameiri ferðist með almenningssamgöngum.
Að bjóða segulband
Sjaldan hafa breytingar á samfélagsgerð og kynslóðum verið örari. Tímarnir breytast á leifturhraða – og nýjum tímum fylgja ný viðhorf. Það birtist glöggt í nýlegum mælingum á viðhorfum til samgangna.
Síðustu ár hefur langstærstur hluti borgarbúa farið leiðar sinnar á bíl. Nýlegar mælingar sýna að 63% höfuðborgarbúa ferðast til vinnu sem bílstjórar á einkabíl. Hins vegar sýna sömu mælingar að aðeins 35% höfuðborgarbúa kjósa helst að ferðast með þeim hætti til vinnu. Þannig myndu um 55% íbúanna helst vilja ferðast til vinnu á reiðhjóli, fótgangandi eða með strætó. Það rímar við þróun síðustu ára þar sem fjárfesting í hjólreiðastígum hefur leitt til þess að 75% fleiri fara nú leiðar sinnar á reiðhjóli en með almenningsvögnum. Niðurstaðan sýnir glöggt að fjárfesting í nýjum samgöngukostum skilar árangri – jafnvel í blautu og vindasömu Reykjavík.
Borgarskipulagið þarf að taka mið af breyttum þörfum. Við þurfum að skapa umhverfi sem ýtir undir nýja valkosti og mætir óskum íbúa. Við getum ekki haldið áfram að bjóða landlínu þegar fólkið biður um farsíma. Við getum ekki haldið áfram að bjóða segulband þegar fólkið biður um streymisveitur.
Systur í samgöngum
Nú ríflegri öld frá því Henry Ford kynnti fyrsta fjöldaframleidda bílinn hefur gamanið aðeins kárnað. Flestar borgir heims glíma nú við bílafjölda sem samgönguinnviðir ráða illa við. Reykjavíkurborg er þar engin undantekning. Um götur borgarinnar fara bílar ríflega milljón ferðir daglega. Samtök iðnaðarins hafa áætlað að höfuðborgarbúar sólundi um níu milljón klukkustundum í umferðartafir árlega. Síðustu ár hefur bílum fjölgað meira en fólki í borginni. Mannfjöldaspár gera ráð fyrir 70.000 nýjum íbúum á höfuðborgarsvæðinu næstu 20 árin. Ef bílaeign eykst samhliða, á áður þekktum hraða, verður okkur vandi á höndum. Við þurfum stefnubreytingu. Lausn samgönguvandans mun ekki felast í hraðbraut gegnum Fossvogsdalinn og mislægum gatnamótum inn í Elliðaárdalinn. Lausnin mun felast í betra borgarskipulagi, dreifðari atvinnutækifærum og aukinni fjarvinnu – en ekki síst breyttum ferðavenjum og fjölbreyttum valkostum.
Samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins var undirritaður og samþykktur í september 2019 af helsta forystufólki Sjálfstæðisflokks. Hann boðar byltingu í samgöngum svæðisins. Hann kynnir til sögunnar breiða fjárfestingu í fjölbreyttum samgöngukostum. Hann er byggður á því að Borgarlínan, bíllinn og reiðhjólið séu systur, ekki fjendur – þrír ólíkir fararmátar sem saman munu leysa samgönguvanda höfuðborgarsvæðisins. Hann er byggður á því að farþegum almenningssamgangna verði fjölgað, en áfram muni nærri 60% fólks fara leiðar sinnar á bíl. Sú hugmynd að velja þurfi einn fararmáta til að notast við öllum stundum, allra sinna ferða, alla daga vikunnar, er nú víkjandi sjónarmið. Framtíðin felur í sér sveigjanleika.
Hugrekki til breytinga
Við lifum á spennandi umrótstímum sem kalla munu á breytingar. Rétt eins og einkabifreið Henrys Ford mætti andstöðu munu nýir samgöngukostir alltaf vekja viðbrögð. Breytingar munu alltaf vekja viðbrögð. Það hefur verið einkennismerki sjálfstæðismanna að geta staðist slíkan brotsjó – að geta leitt á krefjandi umrótstímum og sýnt staðfestu við innleiðingu breytinga.
Fortíðin er barn síns tíma. Framtíðin er viðfangsefnið. Reykjavíkurborg þarf að byggja á framtíðarsýn sem er aðlaðandi fyrir fjölbreytta aldurshópa. Við þurfum að varðveita sérkenni okkar en gæta þess að þróast í takt við aðrar vestrænar borgir – að öðrum kosti verðum við undir í samkeppni um ungt fólk og atgervi. Við heillum ekki ungt hæfileikafólk með sextíu ára gömlum lausnum. Við þurfum að bjóða lifandi borgarumhverfi, úrval tækifæra og fjölbreytta valkosti – í frjálsu samfélagi. Við þurfum að fullþroskast úr sveit í borg.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. mars 2021.