Vilhjálmur Bjarnason, varaþingmaður:
Það kann að vera óralangur vegur frá fjármálum til heilbrigðismála. Ekki dettur nokkrum sjúkum manni í hug að leita sér lækninga hjá manni eða konu menntuðum í fjármálum. Það er frekar að fólk í vandræðum með fjármál leiti til lækna til að fá ráð í fjármálum. Ekki er víst að það séu hollráð, læknar og heilbrigðisstarfsfólk eru hlutfallslega færari í að laga mannanna mein en sálarmein fjármálanna.
Tenging heilbrigði og fjármála er augljósust í kostnaði og ábata af aðgerðum eða lyfjagjöf.
Heilbrigðissýn almennings
Það vakti athygli fyrir nokkrum árum að ríkisstjórnin fékk á sig áskorun í almennri undirskriftasöfnun, að útgjöld til heilbrigðismála skyldu verða 13% af landsframleiðslu. Sennilega eru útgjöld til heilbrigðismála sem næst 10-11% af landsframleiðslu.
Í þessari undirskriftasöfnun var það ekki útskýrt á hvern veg auknum útgjöldum skyldi ráðstafað og þaðan af síður vissi megnið af þeim sem skrifuðu undir þessa áskorun hvar aukinna fjárveitinga væri þörf. Áskorunin var í raun sjúkdómavæðing heillar þjóðar. Slíkt er alls ekki sjálfbært.
Það má auka útgjöld til heilbrigðismála á ýmsa vegu. Því má ætlast til þess, þegar gerð er krafa um aukin útgjöld, að jafnframt sé gerð grein fyrir þeim ávinningi sem skal ná fram.
Það að auka útgjöld til heilbrigðismála til þess eins að bæta launakjör heilbrigðisstarfsfólks eykur ekki velferð skjólstæðinga heilbrigðiskerfisins.
Ef það er markmið í sjálfu sér að auka útgjöld til heilbrigðismála, þá er rétt að gera sér grein fyrir þeim markmiðum sem að er stefnt til að auka velferð notenda heilbrigðisþjónustu.
En heilbrigðismál gera huga minn sem ferð villts manns á þokuslungnu fjalli.
Hvernig vegnar með mikil útgjöld
Þau 17% útgjalda af landsframleiðslu sem varið er til heilbrigðismála í Bandaríkjunum skila af sér í þríþættu heilbrigðiskerfi; einu versta heilbrigðiskerfi í iðnvæddu land, einu dýrasta heilbrigðiskerfi í iðnvæddu landi og ef til vill viðunandi heilbrigðiskerfi fyrir hermenn og þá sem látið hafa af herþjónustu.
Eftir stendur að vera kann að þau sjúkrahús, sem þjóna dýrasta hluta kerfisins, séu meðal bestu sjúkrahúsa í heimi og jafnframt með öflugustu rannsóknarsjúkrahúsum í heimi. Það vill stundum gleymast í umræðu um heilbrigðismál að tilgangurinn með rekstri heilbrigðisstofnana er ekki aðeins að auka velferð í nútíð, heldur einnig og ekki síður að auka velferð í framtíð.
Rannsóknir í heilbrigði
Tilgangurinn með rannsóknum á heilbrigðissviði er að auka velferð mannkyns en alls ekki að auka álit og viðurkenningu þeirra sem rannsóknirnar stunda.
Ég minnist rannsóknar á legutíma á Kleppsspítala á tveimur tímabilum. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna áhrif nýrra lyfja, sem komu fram eftir 1960. Íslenskir læknar veittu sjúklingum aðgang að þessum lyfjum þegar þau komu fram. Samkvæmt athugun á legutíma voru áhrifin ótvíræð og læknar töldu að velferð sjúklinganna hefði aukist í samræmi við legutímann.
Á sama veg má huga að stöðu þeirra sem fengu „blæðandi magasár“. Á uppvaxtarárum mínum var slíkt meira áfall fyrir þann sem fyrir varð en tárum tók. Ný lyf hafa komið til og bætt velferð. Það er einfalt að leggja mat á kostnað og ábata af lyfjameðferð. Einföld tenging fjármála og heilbrigðismála.
Hjá þeirri kynslóð, sem kom á undan mér, voru kransæðasjúkdómar faraldur. Það er mjög líklegt að beytt mataræði, hreyfing og lífsstíll, og síðast en ekki síst leit og meðferð við of háum blóðþrýstingi, hafi valdið straumhvörfum, og aukinni velferð. Sennilega hefur rannsóknarstarfsemi Hjartaverndar lagt eitthvað af mörkum til aukinna lífsgæða.
Þá hefur Íslensk erfðagreining aukið velferð þjóðarinnar, fyrir fleiri en stjórnendur og starfsfólk fyrirtækisins í efnislegum gæðum.
Klúður
Það er þyngra en tárum taki að sjá hvernig starfsemi leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins hefur fjarað út og ekkert tekið við, að sinni.
Prófessor Níels Dungal er sennilega meðal fyrstu manna til að vekja athygli á sambandi reykinga og lungnakrabba. Með stofnun Krabbameinsfélagsins var lagður grunnur að skrásetningu krabbameina þannig að hægt væri að leggja mat á árangur meðferðar við þeim.
Með krabbameinsskrá er í raun hægt að leggja mat á kostnað og ábata af forvirkum rannsóknum í heilbrigðismálum
Það hefur mikið verið rætt og ritað um „fullveldi“. Í huga þess, er þetta ritar, felst fullveldi meðal annars í því að þjóð geti veitt sér grunnþjónustu í heilbrigðismálum og veitt þjónustu á sviði heilbrigðismála með þeim hætti að ekki þurfi að sækja einfalda þjónustu yfir landamæri.
Fullveldi og heilbrigði
Leit og skimun að frumubreytingum í leghálsi kvenna er meðal fyrstu forvirku rannsókna á heilbrigðissviði. Skipuleg leit að brjóstakrabbameini fylgdi í kjölfar leghálsskimunar. Árangur er vel mælanlegur með krabbameinsskránni.
Sambandsleysi og klúður hefur leitt til þess að úrvinnsla þessarar leitar og rannsóknir eru færðar til útlanda þegar háværar raddir heyrast um „fullveldi“.
Það er óþarfi að hafa minnimáttarkennd í heilbrigðismálum. Tilkoma opinna hjartaaðgerða hér á landi og árangur þeirra er ekki til að þegja um. Opnar hjartaaðgerðir á Íslandi voru fullveldisþáttur. Það má jafnvel reikna út ábatann af fullveldinu í hjartaaðgerðum.
Annað klúður í uppsiglingu
Það er óþarfi að stofnanavæða alla heilbrigðisþjónustu. Verulegur hluti heilbrigðisþjónustu getur farið fram utan stofnana. Það eru einungis alvarleg tilfelli sem þarfnast aðgerða sem þurfa að fara fram á sjúkrahúsum.
Svo virðist sem það sé opinber stefna í framkvæmd að hætta að kaupa þjónustu af sjálfstætt starfandi sérfræðingum.
Í ljósi þess að við búum við opinbert sjúkratryggingakerfi er nauðsynlegt að til sé þekking til kaupa á heilbrigðisþjónustu. Ef slík þekking er ekki til hjá kaupanda þjónustunnar, þá hlýtur að liggja í augum uppi að kaupandinn, ríkið, þarf að afla þekkingar til kaupa á þessari þjónustu.
Í kommúnistaríkjum þykja biðraðir sjálfsagðir hlutir. Á Íslandi þykja biðraðir í heilbrigðisþjónustu alveg sjálfsagður og nauðsynlegur hlutur. Biðraðir eru vond tæki til að koma í veg fyrir oflækningar. Í biðröðum er horft fram hjá kostnaði af kvölum í biðtíma.
Hugsjón
Því ef hugsjónin er ekki líf og lífið er ekki hugsjón, hvað er þá hugsjónin? Og hvað er þá lífið? Heilbrigðismál eru hugsun um lífið.
Það þarf að horfa á heilbrigðismál af djörfum hug en ekki með því hugarfari að bæla eigi niður óþarfa vanda. Bælingin er vandinn!
Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. mars 2021.