Heilbrigði og fjármál
'}}

Vilhjálmur Bjarnason, varaþingmaður:

Það kann að vera óra­lang­ur veg­ur frá fjár­mál­um til heil­brigðismála. Ekki dett­ur nokkr­um sjúk­um manni í hug að leita sér lækn­inga hjá manni eða konu menntuðum í fjár­mál­um. Það er frek­ar að fólk í vand­ræðum með fjár­mál leiti til lækna til að fá ráð í fjár­mál­um. Ekki er víst að það séu holl­ráð, lækn­ar og heil­brigðis­starfs­fólk eru hlut­falls­lega fær­ari í að laga mann­anna mein en sál­ar­mein fjár­mál­anna.

Teng­ing heil­brigði og fjár­mála er aug­ljós­ust í kostnaði og ábata af aðgerðum eða lyfja­gjöf.

Heil­brigðis­sýn al­menn­ings

Það vakti at­hygli fyr­ir nokkr­um árum að rík­is­stjórn­in fékk á sig áskor­un í al­mennri und­ir­skrifta­söfn­un, að út­gjöld til heil­brigðismála skyldu verða 13% af lands­fram­leiðslu. Senni­lega eru út­gjöld til heil­brigðismála sem næst 10-11% af lands­fram­leiðslu.

Í þess­ari und­ir­skrifta­söfn­un var það ekki út­skýrt á hvern veg aukn­um út­gjöld­um skyldi ráðstafað og þaðan af síður vissi megnið af þeim sem skrifuðu und­ir þessa áskor­un hvar auk­inna fjár­veit­inga væri þörf. Áskor­un­in var í raun sjúk­dóma­væðing heill­ar þjóðar. Slíkt er alls ekki sjálf­bært.

Það má auka út­gjöld til heil­brigðismála á ýmsa vegu. Því má ætl­ast til þess, þegar gerð er krafa um auk­in út­gjöld, að jafn­framt sé gerð grein fyr­ir þeim ávinn­ingi sem skal ná fram.

Það að auka út­gjöld til heil­brigðismála til þess eins að bæta launa­kjör heil­brigðis­starfs­fólks eyk­ur ekki vel­ferð skjól­stæðinga heil­brigðis­kerf­is­ins.

Ef það er mark­mið í sjálfu sér að auka út­gjöld til heil­brigðismála, þá er rétt að gera sér grein fyr­ir þeim mark­miðum sem að er stefnt til að auka vel­ferð not­enda heil­brigðisþjón­ustu.

En heil­brigðismál gera huga minn sem ferð villts manns á þoku­sl­ungnu fjalli.

Hvernig vegn­ar með mik­il út­gjöld

Þau 17% út­gjalda af lands­fram­leiðslu sem varið er til heil­brigðismála í Banda­ríkj­un­um skila af sér í þríþættu heil­brigðis­kerfi; einu versta heil­brigðis­kerfi í iðnvæddu land, einu dýr­asta heil­brigðis­kerfi í iðnvæddu landi og ef til vill viðun­andi heil­brigðis­kerfi fyr­ir her­menn og þá sem látið hafa af herþjón­ustu.

Eft­ir stend­ur að vera kann að þau sjúkra­hús, sem þjóna dýr­asta hluta kerf­is­ins, séu meðal bestu sjúkra­húsa í heimi og jafn­framt með öfl­ug­ustu rann­sókn­ar­sjúkra­hús­um í heimi. Það vill stund­um gleym­ast í umræðu um heil­brigðismál að til­gang­ur­inn með rekstri heil­brigðis­stofn­ana er ekki aðeins að auka vel­ferð í nútíð, held­ur einnig og ekki síður að auka vel­ferð í framtíð.

Rann­sókn­ir í heil­brigði

Til­gang­ur­inn með rann­sókn­um á heil­brigðis­sviði er að auka vel­ferð mann­kyns en alls ekki að auka álit og viður­kenn­ingu þeirra sem rann­sókn­irn­ar stunda.

Ég minn­ist rann­sókn­ar á legu­tíma á Klepps­spít­ala á tveim­ur tíma­bil­um. Til­gang­ur rann­sókn­ar­inn­ar var að kanna áhrif nýrra lyfja, sem komu fram eft­ir 1960. Íslensk­ir lækn­ar veittu sjúk­ling­um aðgang að þess­um lyfj­um þegar þau komu fram. Sam­kvæmt at­hug­un á legu­tíma voru áhrif­in ótví­ræð og lækn­ar töldu að vel­ferð sjúk­ling­anna hefði auk­ist í sam­ræmi við legu­tím­ann.

Á sama veg má huga að stöðu þeirra sem fengu „blæðandi maga­sár“. Á upp­vaxt­ar­ár­um mín­um var slíkt meira áfall fyr­ir þann sem fyr­ir varð en tár­um tók. Ný lyf hafa komið til og bætt vel­ferð. Það er ein­falt að leggja mat á kostnað og ábata af lyfjameðferð. Ein­föld teng­ing fjár­mála og heil­brigðismála.

Hjá þeirri kyn­slóð, sem kom á und­an mér, voru kran­sæðasjúk­dóm­ar far­ald­ur. Það er mjög lík­legt að beytt mataræði, hreyf­ing og lífs­stíll, og síðast en ekki síst leit og meðferð við of háum blóðþrýst­ingi, hafi valdið straum­hvörf­um, og auk­inni vel­ferð. Senni­lega hef­ur rann­sókn­ar­starf­semi Hjarta­vernd­ar lagt eitt­hvað af mörk­um til auk­inna lífs­gæða.

Þá hef­ur Íslensk erfðagrein­ing aukið vel­ferð þjóðar­inn­ar, fyr­ir fleiri en stjórn­end­ur og starfs­fólk fyr­ir­tæk­is­ins í efn­is­leg­um gæðum.

Klúður

Það er þyngra en tár­um taki að sjá hvernig starf­semi leit­ar­stöðvar Krabba­meins­fé­lags­ins hef­ur fjarað út og ekk­ert tekið við, að sinni.

Pró­fess­or Ní­els Dungal er senni­lega meðal fyrstu manna til að vekja at­hygli á sam­bandi reyk­inga og lungnakrabba. Með stofn­un Krabba­meins­fé­lags­ins var lagður grunn­ur að skrá­setn­ingu krabba­meina þannig að hægt væri að leggja mat á ár­ang­ur meðferðar við þeim.

Með krabba­meins­skrá er í raun hægt að leggja mat á kostnað og ábata af for­virk­um rann­sókn­um í heil­brigðismál­um

Það hef­ur mikið verið rætt og ritað um „full­veldi“. Í huga þess, er þetta rit­ar, felst full­veldi meðal ann­ars í því að þjóð geti veitt sér grunnþjón­ustu í heil­brigðismál­um og veitt þjón­ustu á sviði heil­brigðismála með þeim hætti að ekki þurfi að sækja ein­falda þjón­ustu yfir landa­mæri.

Full­veldi og heil­brigði

Leit og skimun að frumu­breyt­ing­um í leg­hálsi kvenna er meðal fyrstu for­virku rann­sókna á heil­brigðis­sviði. Skipu­leg leit að brjóstakrabba­meini fylgdi í kjöl­far leg­háls­skimun­ar. Árang­ur er vel mæl­an­leg­ur með krabba­meins­skránni.

Sam­bands­leysi og klúður hef­ur leitt til þess að úr­vinnsla þess­ar­ar leit­ar og rann­sókn­ir eru færðar til út­landa þegar há­vær­ar radd­ir heyr­ast um „full­veldi“.

Það er óþarfi að hafa minni­mátt­ar­kennd í heil­brigðismál­um. Til­koma op­inna hjartaaðgerða hér á landi og ár­ang­ur þeirra er ekki til að þegja um. Opn­ar hjartaaðgerðir á Íslandi voru full­veld­isþátt­ur. Það má jafn­vel reikna út ábat­ann af full­veld­inu í hjartaaðgerðum.

Annað klúður í upp­sigl­ingu

Það er óþarfi að stofn­ana­væða alla heil­brigðisþjón­ustu. Veru­leg­ur hluti heil­brigðisþjón­ustu get­ur farið fram utan stofn­ana. Það eru ein­ung­is al­var­leg til­felli sem þarfn­ast aðgerða sem þurfa að fara fram á sjúkra­hús­um.

Svo virðist sem það sé op­in­ber stefna í fram­kvæmd að hætta að kaupa þjón­ustu af sjálf­stætt starf­andi sér­fræðing­um.

Í ljósi þess að við búum við op­in­bert sjúkra­trygg­inga­kerfi er nauðsyn­legt að til sé þekk­ing til kaupa á heil­brigðisþjón­ustu. Ef slík þekk­ing er ekki til hjá kaup­anda þjón­ust­unn­ar, þá hlýt­ur að liggja í aug­um uppi að kaup­and­inn, ríkið, þarf að afla þekk­ing­ar til kaupa á þess­ari þjón­ustu.

Í komm­ún­ista­ríkj­um þykja biðraðir sjálf­sagðir hlut­ir. Á Íslandi þykja biðraðir í heil­brigðisþjón­ustu al­veg sjálf­sagður og nauðsyn­leg­ur hlut­ur. Biðraðir eru vond tæki til að koma í veg fyr­ir oflækn­ing­ar. Í biðröðum er horft fram hjá kostnaði af kvöl­um í biðtíma.

Hug­sjón

Því ef hug­sjón­in er ekki líf og lífið er ekki hug­sjón, hvað er þá hug­sjón­in? Og hvað er þá lífið? Heil­brigðismál eru hugs­un um lífið.

Það þarf að horfa á heil­brigðismál af djörf­um hug en ekki með því hug­ar­fari að bæla eigi niður óþarfa vanda. Bæl­ing­in er vand­inn!

Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. mars 2021.