Til hagsbóta fyrir alla aðila

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra:

Mikilvægt er að huga að leiðum til að bæta réttarkerfið, gera það skilvirkara en gæta um leið fyllstu sanngirni gagnvart öllum hlutaðeigandi. Ég hef, bæði sem þingmaður og ráðherra, látið verkin tala og beitt mér m.a. fyrir úrbótum í þágu þolenda ofbeldisbrota.

Á þessu þingi hef ég fengið samþykkt frumvörp um umsáturseinelti og kynferðislega friðhelgi, komið að mikilvægum umbótaverkefnum eins og opnun Kvennaathvarfs á Norðurlandi og styrkingu Kvennaathvarfsins hér á höfuðborgarsvæðinu. Fyrsta þingmannamálið mitt sem var samþykkt fól í sér breytingar á lögum um nálgunarbann sem styrkja vernd úrræðisins. Þá fól ég réttarfarsnefnd að semja lagafrumvarp í því skyni að bæta réttarstöðu brotaþola við meðferð kynferðismála. Það frumvarp kemur í samráðsgátt á næstu dögum.

Þá hafa ýmsar aðrar umbætur átt sér stað sem bætt hafa kerfið. Vinna við aðgerðaráætlun um bætta meðferð kynferðisbrota hófst 2019 með því markmiði að tryggja vandaða, skilvirka og réttláta málsmeðferð á þessu sviði og auka traust á réttarvörslukerfinu. Áætluninni var markaður tími til 2022 en hún var sett af stað af Ólöfu Nordal, þáv. innanríkisráðherra, og hefur verið fylgt eftir af okkur sem á eftir höfum komið. Nú fer t.d. fram rafræn rannsóknaráætlun sem tryggir gæði rannsókna kynferðisbrota og heimilisofbeldis og styttir málsmeðferðartíma. Lögreglumönnum hefur fjölgað í kynferðisbrotadeildum, upplýsingagjöf til brotaþola hefur verið bætt, persónulegra viðmót hefur verið innleitt og kærendum boðið upp á sálfræðimeðferð fyrir og eftir skýrslutöku. Samhliða hefur þjálfun lögreglumanna verið aukin, bæði þegar kemur að kynferðisofbeldi og heimilisofbeldi. Allt er þetta gífurlega mikilvægt og til þess fallið að bæta stöðu brotaþola án þess að það komi niður á réttarstöðu þeirra sem grunaðir eru um ofbeldi.

Ég bað Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmann og fv. hæstaréttardómara, um að vinna að úttekt á öðrum þáttum er snúa að réttarkerfinu, m.a. hvort við getum lært af löngum málsmeðferðartíma í efnahagsbrotum og hvar séu möguleikar til að stytta hann til hagsbóta fyrir alla aðila, bæði rannsóknaraðila og sakborninga. Við skulum aldrei gleyma því að sakborningar eiga líka sinn rétt. Þannig viljum við hafa það í réttarríki. Við hljótum að geta lært af úrvinnslu slíkra mála síðasta áratuginn og nýtt þann lærdóm til að bæta kerfin okkar. Það er rétt að taka fram að ekki er unnið að heildarendurskoðun né gerð frumvarps og þessi vinna felur ekki í sér sérstaka úttekt á rannsóknum kynferðisafbrota eins og haldið hefur verið fram. Allt tal um að ég sé með þessu verkefni að senda konum kalda kveðju er því innantómt eins og löng upptalning hér að framan sýnir.

Færslan birtist á facebook-síðu Áslaugar Örnu 9. mars 2021.