„Með þeim breytingum sem þarna eru lagðar til er verið að breyta atriðum sem hafa ekki valdið neinum sérstökum vandkvæðum eins og um kjörtímabil forseta. En það er hins vegar látið ógert til dæmis spurningar um hvar mörkin liggja milli forseta annars vegar og ráðherra hins vegar,“ segir Birgir Ármannsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, sem var gestur Ingvars P. Guðbjörnssonar í Pólitíkinni í þessari viku. Í þættinum ræddu þeir um frumvarp forsætisráðherra til stjórnskipunarlaga um breytingu á stjórnarskránni sem nú er til meðferðar hjá Alþingi. Þáttinn má nálgast hér.
„Það sem ég hef lagt áherslu á er að það þyrfti að skerpa á þessu,“ sagði Birgir.
Birgir skrifaði nýlega grein í Morgunblaðið þar sem hann fjallaði um frumvarpið út frá álitamálum varðandi forseta og framkvæmdavald – sjá hér.
„Í gegnum tíðina þegar kallað hefur verið eftir breytingum á forsetakaflanum hafa bæði fræðimenn og stjórnmálamenn, sem um það hafa fjallað, lagt áherslu á að það væri mikilvægt að skerpa aðeins á þeim ákvæðum, færa þau nær framkvæmdinni eða veruleikanum eins og hann hefur verið á lýðveldistímanum,“ sagði Birgir þannig að ákvæðin um forseta Íslands endurspegli betur þá stjórnskipan sem ríkir í landinu.
„Það hefur ekki verið nein sérstök krafa að breyta í grundvallaratriðum embætti forseta Íslands. Það má segja að með þessu frumvarpi er verið að stíga mjög varfærin skref í þessum efnum,“ sagði Birgir en finna má frumvarp forsætisráðherra hér.
Auk þess að ræða um þau ákvæði í frumvarpinu sem snerta I og II kafla stjórnarskrárinnar ræddu þeir um nýtt auðlindaákvæði sem finna má í frumvarpinu og eins náttúruverndarákvæði.
Frumvarpið er lagt fram af forsætisráðherra í eigin persónu en ekki í nafni formanna allra stjórnmálaflokka líkt og upphaflega var reynt. Því er alls óvíst hvað verður um frumvarpið í þinginu en til að stjórnarskrárbreytingar taki gildi þarf að afgreiða þær breytingar fyrir þingrof og nýtt þing eftir kosningar í haust að staðfesta þessar sömu breytingar svo þær taki gildi.