Ekki þörf á að endurskrifa stjórnarskrá frá grunni

„Það er mikilvægt að við ljúkum við gerð auðlindaákvæðis til að skapa sátt um nýtingu auðlinda í landinu,“ sagði sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins um breytingar á stjórnarskránni sem spurt var um á opnum streymisfundi á facebook í hádeginu í dag. Þar ræddu hann og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður, stjórnmálaviðhorfið og svöruðu spurningum áhorfenda.

Um þrjú hundruð manns tóku þátt í fundinum.

„Um þau ákvæði hefur ekki verið deilt“

Bjarni sagði að krafan um að tryggja þjóðareign á auðlindum í stórnarskrá hafi verið hávær. En það kallaði ekki á heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar frá grunni þó auðlindaákvæði væri bætt þar inn. Sjálfsagt væri að skoða önnur atriði sem nú koma fyrir í frumvarpinu en nefndi einnig kjördæmaskipan landsins sem væri frá 1999 og tími væri kominn á að endurskoða. Í því samhengi nefndi hann m.a. hvort tímabært væri að skipta landsbyggðarkjördæmum í tvennt sem væru mjög stór landfræðilega og eins að sameina Reykjavíkurkjördæmi í eitt kjördæmi.

„Það sem ræður úrslitum er hvernig mönnum tekst í stjórnarskrá að tryggja temprun valds og dreifingu valds. Um þau ákvæði hefur ekki verið deilt,“ sagði Bjarni.

Getum tekið hratt aftur á móti miklum fjölda ferðamanna

Á fundinum var spurt út í ferðaþjónustuna og sýn ráðherranna á hana nú og þegar ferðalög fara að aukast að nýju.

Fram kom í máli Þórdísar Kolbrúnar að grunnurinn væri sterkur. Þegar hafi milljarðar verið settir i uppbyggingu og að skýr sýn væri til staðar um stefnu í ferðaþjónustu sem unnin væri á breiðum grunni með aðkomu stjórnvalda, sveitarfélaga og greinarinnar sjálfrar. Regluverkið væri einnig til staðar sem styddi við.

Hún sagði þó áhyggjuefni fyrirtæki í ferðaþjónustu sem væru löskuð og að framtíðin væri aðeins óljósari í þeim efnum, það væri „göngustígur sem við vitum ekki hvað er langur ennþá.“

Bjarni benti á að við værum háð því að ná tökum á útbreiðslu veirunnar. Það sem væri að gerast í dag væri gríðarlegur styrkur fyrir okkur þegar landamæri opni að nýju. En við værum þó háð því að öðrum takist að bólusetja hratt og vel. Við værum þó með forskot með margvíslegum hætti og getu til að taka hratt á móti miklum fjölda.

Þau nefndu að Ísland þyrfti ekki nema brotabrot af þeim fjölda sem hefur vilja og getu til að ferðast um leið og ferðalög fara aftur af stað í heiminum. Markaðsstarfið skipti þar miklu máli og að þörf sé á að hafa skýran fókus þar og að fjárfesta í markaðssetningu á áfangastaðnum Íslandi. Í þessum efnum hefðum við lært gríðarlega mikið af síðasta áratug þegar við fórum úr því að fá hokkur hundruð þúsund ferðamenn í að fá á þriðju milljón ferðamenn eins og var þegar mest var.

„Þar liggja gríðarleg tækifæri“

„Ísland ætlar fyrst allra landa að verða óháð jarðefnaeldsneyti,“ sagði Þórdís Kolbrún þegar talið barst að orkuskiptum í samgöngum.

Þau ræddu bæði að við hefðum allt sem til þyrfti til að takast það verkefni. Við stæðum vel og ættum góða sögu. „Þegar við fórum í hitaveituvæðinguna þá eyddum við hærri prósentu af landsframleiðslu í það en Bandaríkin í að koma manni á tunglið,“ sagði Þórdís Kolbrún til að benda burði okkar í þessum efnum. Þau sögðu Íslendinga vilja vera þátttakendur í þessari bylgingu sem allir væru að fara í og að við ættum að nýta það í þágu loftslagsmála. Þetta væri ákveðið sjálfstæðismál. Við yrðum með því sjálfbær um alla þá orku sem við þyrftum og gætum jafnvel farið úr því að flytja inn orku í formi olíu og gass yfir í að flytja út orku með beinum hætti í formi vetnis.

Þau bentu réttilega á að Íslendingar eiga mikið af samkeppnishæfri orku þegar horft er til umhverfis- og framleiðsluþætti. „Við erum góð í að búa til orku úr auðlindum á Íslandi. Erum rétt að byrja á vindorku. Þar liggja gríðarleg tækifæri,“ sagði Bjarni.

Í framhaldi af þessu ræddu þau einnig um flutningskerfið sem yrði að byggja upp áfram. Flutningsnetið þurfi að vera tryggt og öruggt til að hægt sé að ráðast í þetta átak og þar væru veikleikar í dag sem við yrðum að horfast í augu við. Orkuskipti í samgöngum kalli einnig á mikla viðbótar framleiðslu á raforku.

Fjölmargt fleira kom til umræðu á fundinum sem stóð í 50 mínútur – en hann er allur birtur hér fyrir neðan. Ef þátturinn opnast ekki þar má einnig nálgast hann hér.