Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra:
Beinna og óbeinna áhrifa kórónuveirunnar mun halda áfram að gæta á heimsvísu næstu árin, ekki síst í þróunarríkjum. Félagslegar og efnahagslegar afleiðingar eru miklar, fjöldi starfa hefur tapast og viðkvæmustu hóparnir verða verst úti. Víða hafa börn ekki getað sótt skóla nema að takmörkuðu leyti í heilt ár og mörg þeirra verða þar af leiðandi af einu heitu máltíð dagsins.
Samkvæmt Alþjóðabankanum er hætt við að fjölþætt áhrif faraldursins og tengdra aðgerða geti leitt til fjölgunar í hópi sárafátækra um allt að 110-150 milljónir við árslok 2021 og þannig þurrkað út ávinning síðustu ára í baráttunni gegn sárafátækt. Þá eiga allt að 130 milljónir einstaklinga á hættu á að bætast í hóp þeirra sem búa við alvarlegt fæðuóöryggi. Börnum er sérstök hætta búin vegna vannæringar, en einnig vegna skorts á almennum bólusetningum vegna álags á heilbrigðiskerfi. Neikvæð áhrif á menntun, sem kemur einkum illa niður á stúlkum og þeim fátækustu, er mikið áhyggjuefni sem og aukning á kynbundnu ofbeldi.
Í þróunarsamvinnu hefur Ísland lagt áherslu á að bregðast hratt og vel við. Má þar nefna stuðning við þjálfun heilbrigðisstarfsfólks í Malaví, skólamáltíðir í Úganda, baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi í Síerra Leóne og stuðning við fjölþjóðlegar aðgerðir Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal til sérstaks COVID-19 mannúðarákalls og þróunarsjóðs vegna COVID-19.
Hnattræn samvinna hefur sjaldan verið mikilvægari og ríki heims þurfa að vinna þétt saman til að koma bóluefnum til allra sem fyrst. Til þess að tryggja þróunarlöndum aðgang að öruggum bólusetningum fyrir alla hefur Ísland veitt 550 milljónum króna í alþjóðlegt samstarf undir hatti COVAX. Miðað við höfðatölu verja fá ríki hærri upphæðum til þessa samstarfs.
Þróunarsamstarf Íslands mun halda áfram að litast af beinum og óbeinum áhrifum veirunnar. Á sama tíma megum við ekki missa sjónar á langtímaþróunarmarkmiðum, heimsmarkmiðunum, virkri þátttöku atvinnulífsins í þróunarsamvinnu, og aðgerðum í loftslagsmálum, sem munu vísa okkur leiðina í uppbyggingunni. Það er lykillinn að því að þróunarsamvinnan beri árangur.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 11. febrúar 2021 og er skrifuð í tilefni fræðsluátaksins Þróunarsamvinna ber ávöxt sem er á vegum félagasamtaka er starfa í mannúðarstarfi og alþjóðlegri þróunarsamvinnu, í samstarfi við utanríkisráðuneytið.