Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Án málfrelsis eru samfélög hvorki opin né frjáls. Réttur borgaranna til að láta skoðanir sínar í ljós, án ótta við refsivönd stjórnvalda, er helgur réttur og órjúfanlegur hluti af lýðræði og opnu samfélagi. Með málfrelsi að vopni hefur verið tekist á við öfgafullar trúarsetningar og hugmyndafræði alræðis og ógnarstjórnar. Harðstjórar hafa verið felldir af stalli.
Í frjálsum samfélögum er samkeppni hugmynda og skoðana aflvaki framfara. Í samfélögum einræðis eða alræðis ógnar málfrelsi þjóðskipulaginu og þar með valdhöfunum. Málfrelsið er því brothætt og að því er víða sótt. Ritskoðun og bannfæring skoðana er vopn kúgara til að tryggja völdin. Komið er í veg fyrir starfsemi frjálsra fjölmiðla, upplýsingaflæði er heft og reynt að tryggja að almenningur hafi aðeins aðgang að „réttum“ upplýsingum og „löggiltum“ skoðunum.
Ritskoðun teygir sig yfir landamæri, líkt og sýnt er fram á í skýrslu PEN America um áhrif kínverskra stjórnvalda á alþjóðlegan kvikmyndaiðnað. Ég vakti athygli á þessari skýrslu í grein í september síðastliðnum og benti á að með auknum alþjóðlegum áhrifum Peking hafi ritskoðunararmur kínverska kommúnistaflokksins náð taki á útgefendum, fræðimönnum, rithöfundum, blaðamönnum og ekki síst kvikmyndaiðnaðinum, óháð ríkisborgararétti þeirra eða landamærum. Afleiðingin er sú að í draumaborginni, Hollywood, hefur frjáls tjáning verið sett út í horn.
Þverrandi umburðarlyndi
En það eru ekki aðeins ógnarstjórnir sem telja nauðsynlegt að ganga á rétt borgaranna til að láta skoðanir sínar í ljós. Tilhneiging til að koma böndum á „óæskilegar“ skoðanir virðist vera að aukast í lýðræðisríkjum. Þannig hefur umburðarlyndi gagnvart ólíkum sjónarmiðum farið þverrandi innan veggja bandarískra háskóla. Þekkingarleit vísindanna á undir högg að sækja og pólitískur rétttrúnaður sækir á. Undir spila margir af áhrifamestu fjölmiðlum landsins, alþjóðlegir samfélagsmiðar sem og stjórnmálamenn. Afleiðingin er sundurlyndi þjóðar þar sem til verður frjó gróðrarstía samsæriskenninga, öfgaskoðana og ógeðfelldra hugmynda.
Í síðustu viku beitti meirihluti demókrata í fulltrúadeild Bandaríkjaþings valdi sínu gagnvart pólitískum andstæðingi. Marjorie Taylor Greene, þingkonu repúblikana frá Georgíu, var vikið úr tveimur nefndum þingsins. Með þessu skapa demókratar hættulegt fordæmi; talið verður eðlilegt að meirihluti þings geti komið í veg fyrir þátttöku pólitísks andstæðings í nefndarstörfum vegna skoðana.
Líklega er vægt til orða tekið að halda því fram að skoðanir þingkonunnar séu öfgafullar og byggðar á fjarstæðukenndum samsæriskenningum. Greene hefur sakað Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildarinnar, um landráð og bent á að við því liggi dauðarefsing.
Greene er fulltrúi flests þess sem er ógeðfellt við stjórnmál. Hatursfull og fáfróð. Hún virðist ófær um samkennd eða samúð. Greene hefur haldið því fram að skotárás í Marjory Stoneman Douglas-menntaskólanum í Parkland í Flórída árið 2018, þar sem 17 ungmenni og kennarar voru myrt og 17 særðir, hafi verið sviðsett. Hún fullyrti að flugvél hefði ekki verið flogið á Pentagon 11. september 2001. Greene hefur dregið þessar fráleitu samsæriskenningar til baka en á blaðamannafundi í liðinni viku gaf hún í skyn að samfélagsmiðlar hefðu afvegaleitt hana.
Refsiverðar skoðanir
Vonandi hafa flestir skömm á framgöngu og skoðunum Greene. En fáfræði hennar, heimska og öfgar minnka ekkert við að meirihluti demókrata reyni að setja hana til hliðar. Ofbeldi meirihluta gagnvart pólitískum andstæðingi (jafnvel ógeðfelldum) skapar ekki aðeins fordæmi til framtíðar heldur verður vatn á myllu fjarstæðukenndra samsæriskenninga. Hitt er svo annað að sundurtættur Repúblikanaflokkurinn er þess ófær að slíta samvistum við Greene.
Málfrelsi krefst þess að samfélag þoli forpokaðar skoðanir, einnig þær sem eru byggðar á staðleysum, ranghugmyndum eða samsæriskenningum. „Ég fyrirlít skoðanir yðar, en ég er reiðubúinn til að láta lífið fyrir rétt yðar til að halda þeim fram,“ sagði Voltaire með réttu. Rétturinn til að hafa rangt fyrir sér er hluti málfrelsis sem getur aldrei takmarkast af því sem er vinsælt, nýtur almennrar viðurkenningar eða er meirihluta þóknanlegt. En auðvitað er frelsið til að segja hug sinn ekki án ábyrgðar – allir þurfa að standa við orð sín og bera á þeim ábyrgð.
Ég efast ekki um góðan hug þeirra þingmanna sem lagt hafa fram frumvarp um að það verði gert refsivert að afneita helförinni opinberlega. Að neita að horfast í augu við sögulegar staðreyndir um verstu glæpi mannkynssögunnar – skipulögð fjöldamorð nasista á gyðingum í seinni heimsstyrjöldinni – er merki um sjúklegt ástand mannshugar.
Bann við ákveðnum skoðunum elur því miður af sér villutrú og ryður farveg fyrir öfgahyggju og afneitun sögulegra staðreynda. Ég óttast að nái frumvarpið fram að ganga, um allt að tveggja ára fangelsi fyrir að afneita helförinni opinberlega, snúist það upp í andhverfu sína þvert á tilgang flutningsmanna; að berjast gegn vaxandi gyðingaandúð. Alan Dershowitz, fyrrverandi lagaprófessor við Harvard-háskóla, yfirlýstur demókrati og harður stuðningsmaður Ísraels, hefur varað eindregið við lagasmíð af þessu tagi.
Andúðin gagnvart öðrum trúarbrögðum, minnihlutahópum eða andstæðum skoðunum verður ekkert minni þótt það sé gert refsivert að opinbera fávisku. Fordómar verða ekki kveðnir niður með því að hóta fangelsi eða fésektum, heldur með því að mæta þeim opinberlega með rökum. Fávísi og heimska verða ekki læknuð með refsivendi ríkisins. Og ef við sættum okkur við að meirihluti þjóðþings geti rekið pólitískan andstæðing úr þingnefnd, er lagt til atlögu við hornstein lýðræðisins – málfrelsið.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. febrúar 2021.