Netöryggi er þjóðaröryggi
'}}

„Á síðasta ári hefur orðið mjög mikil viðhorfsbreyting til netvarna hjá stjórnsýslunni, fyrirtækjum og annars staðar á Íslandi og netöryggismál eru tekin mjög alvarlega núna. Maður finnur fyrir mikilli breytingu í samfélaginu,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem hefur látið netöryggismálin til sín taka og hefur t.a.m. skrifað blaðagreinar um efnið sem birst hafa í blöðum nýverið. Njáll Trausti var gestur Guðfinns Sigurvinssonar í hlaðvarpsþættinum Pólitíkinni en hlusta má á þáttinn hér.

„Við treystum á símann okkar, að hann sé öruggur. Hann er okkar öryggistæki. Bankaþjónustan okkar, hún er á netinu og meira og minna öll okkar samskipti,“ segir Njáll sem vill sjá öflugt alþjóðlegt samstarf í netvörnum og þar eigi Ísland ekki síst að horfa til norræns samstarfs um leið og við eflum netvarnir innanlands. Hann ræddi m.a. í þessu sambandi um Netöryggisráð og nýlega löggjöf um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða.

Njáll Trausti er formaður Íslandsdeildar NATO, varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis og hann er líka nýr formaður Varðbergs en netöryggismál eru sí stækkandi hluti öryggis- og varnarsamstarfs þjóða. Njáll bendir á að þróun lýðræðis í heiminum geti átt undir högg að sækja vegna upplýsingaóreiðu, falsfrétta og afskipta af lýðræðislegum kosningum sem eru allt í reynd einn angi netárása.