Áhersla á góða sátt, gegnsæi og opið ferli
'}}

Fjölmenni var á opnum hádegisnetfundi efnahags- og viðskiptanefndar Sjálfstæðisflokksins með Bjarna Benediktssyni í dag þar sem hann ræddi sölu á hluta ríkisins í Íslandsbanka.

Bjarni sagði að áhersla væri á góða sátt, gegn­sæi, opið ferli og mögu­leika fyr­ir al­menn­ing til að taka þátt í útboðinu. Mikilvægt væri að ná dreifðu eignarhaldi – jafnvel þó fræðilega væri hægt að fá ná hærra verði með öðrum leiðum.

Bjarni fór í erindi sínu yfir þær forsendur sem liggja að baki sölu 25-35% hlut í bankanum í útboði eins og Bankasýsla ríkisins lagði til.

Meðal markmiða er að minnka áhættu ríkisins af svo stórum eignarhlut í fjármálakerfinu, að efla virka samkeppni á fjármálamarkaði, að hámarka endurheimtur ríkissjóðs af eiganrhaldinu og sölu á hlutum, að stuðla að fjölbreyttu, heilbrigðu og dreifðu eignarhaldi til lengri tíma og að minnka skuldsetningu eða auka svigrúm ríkisins til samfélagslegra arðbærra fjárfestinga.

Fram kom að hagstæð skilyrði eru til að selja bankann nú. Gjörbreytt umhverfi væri á fjármálamarkaði þar sem búið væri að tryggja heilbrigt og stöðugt fjármálakerfi með tryggri umgjörð, styrku regluverki og virku eftirliti og aðhaldi. Þá nefndi hann að eiginfjárhlutfall í bankanum væri hátt, en að tími umfram arðgreiðslna væri liðinn og einnig að með sölunni væri dregið úr skuldsetningu og svigrúm ríkissjóðs aukið til að mæta afleiðingum kórónukreppunnar af fullum krafti.

Hann sagði miðað við tímalínu væri gert ráð fyrir að lokakynning fyrir fjárfesta yrði í lok maí og öflun tilboða yrði í júnímánuði. Lokaafstaða til skráningar myndi þá liggja fyrir i lok júní.

Bjarni fór m.a. yfir í erindi sínu hvort nú væri rétt­ur tími til að selja banka. Fram kom í máli hans að ekki væri hægt að bera saman aðstæður nú og þegar einkavæðing bankanna átti ser stað um aldamótin. Miklu strangari kröfur væru gerðar til fjármálafyrirtækja í dag en þá.

Hann nefndi einnig að eignarhald ríkisins í fjármálakerfinu hér væri um 15% af VLF sem væri margfalt það sem þekkist í nágrannalöndum.

Fram kom að á næstu fimm árum væri gert ráð fyrir að um 119 milljörðum yrði varið í allskonar fjárfestingu og innviðaverkefni ríkisins en sú fjárfesting kallaðist nokkuð á við mögulegt virði  fyrir öll hlutabréf ríkisins í bankanum m.v. að hann yrði seldur á fjórum árum.